Blaðamannafundur í Þjóðmenningarhúsinu

Umfangsmesta bókmenntakynning Íslendinga erlendis til þessa

4. ágúst, 2011

Sögueyjan Ísland kynnti þá umfangsmiklu bókmenntakynningu og menningardagskrá sem fram fer í Þýskalandi um þessar mundir á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu.

Þjóðmenningarhús - fundur1Sögueyjan Ísland kynnti þá umfangsmiklu bókmenntakynningu og menningardagskrá sem fram fer í Þýskalandi um þessar mundir, fyrir Bókasýninguna í Frankfurt 2011, á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu, þann fjórða ágúst.

Um tvö hundruð íslenskar bækur og bækur um Ísland verða gefnar út á þýska málsvæðinu á þessu ári í samstarfi við hátt í hundrað bókaforlög. Meðal þessara bóka eru nýjar þýðingar á Íslendingasögunum í fimm bindum, fjölmargar skáldsögur, ljóðabækur, leikrit, handbækur og fræðirit.

Bækurnar verða kynntar á Bókasýningunni 12.-16. október næstkomandi þar sem fram fer dagskrá með íslenskum rithöfundum alla dagana, auk þess sem íslenskar bókmenntir leika stórt hlutverk um alla borgina þar sem verða upplestrar í söfnum og víðar. Þrjátíu og fimm íslenskir höfundar mæta til leiks á Bókasýningunni en miklu fleiri hafa farið utan á vegum verkefnisins á árinu, því bókakynningin fer fram allt árið á hinu þýskumælandi svæði.

Þjóðmenningarhús - fundur2Íslensk samtímalist mun einnig verða áberandi í Frankfurt næstu mánuði. Meðal listviðburða eru yfirlitssýning á verkum Ragnars Kjartanssonar í Frankfurter Kunstverein, þar sem einnig verða tekin til sýningar verk sjö íslenskra samtímaljósmyndara. Í Schirn Kunsthalle, einum virtasta sýningarstað Þýskalands, verður sýning þar sem Gabríela Friðriksdóttir fléttar saman myndheimi sínum og sýningu á íslenskum handritum og auk þess glæsileg sýning á verkum Errós.

Samtímis Bókasýningunni verða líka haldnir íslenskir tónleikar í Frankfurt. Í Alte Oper, óperhúsi borgarinnar, verða tónleikar tileinkaðir íslenskum bókmenntaarfi og munu þau Judith Ingólfsson, Valdimir Stoupel, Ragnheiður Gröndal og fleiri flytja m.a. nýtt verk eftir Áskel Másson á tónleikum sem tileinkaðir verða íslenskum bókmenntaarfi. Mótettukórinn mun halda tónleika í dómkirkjunni í Frankfurt og í listamiðstöðinni Mousonturm verður fjölbreytt dagskrá: amiina og Valgeir Sigurðsson halda þar tónleika og Íslenski dansflokkurinn sýnir verk Ernu Ómarsdóttur.

Alls eru viðburðir á vegum Sögueyjunnar vel á þriðja hundrað á þessu ári og hefur reynsla fyrri heiðursgesta verið sú að heiðursárið hefur aukið útbreiðslu bókmennta viðkomandi lands í heiminum varanlega.

Frekari upplýsingar um bókmenntadagskrána, viðburði og kynningar, má nálgast á fjölmiðlasvæði vefsins.



Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir