Íslendingasögur í Corvey

5. september, 2011

Í tilefni af útkomu nýrrar heildarþýðingar Íslendingasagna á þýsku verður blásið til alþjóðlegrar ráðstefnu í klaustrinu Corvey, í Þýskalandi, þann 15. september.

Þann 15. september verður blásið til þriggja daga alþjóðlegrar ráðstefnu um Íslendingasögur í klaustrinu Corvey, í tilefni af útkomu nýrrar heildarþýðingar þeirra á þýsku 9. september næstkomandi. Þar munu fræðimenn og þýðendur flytja erindi um sögurnar, ásamt því að leiklesið verður upp úr hinum nýju þýðingum.

Heildarþýðing Íslendingasagna á þýsku er hornsteinninn í heiðursþátttöku Íslands á Bókasýningunni í Frankfurt. Útgáfan er jafnframt einn af hápunktum 125 ára afmælis útgefandans, bókaforlagsins S. Fischer, sem er er eitt það virtasta í Þýskalandi.

Á ráðstefnunni verða tólf Íslendingasögur fluttar af fjölda leikara langt fram eftir kvöldum. Þær verða óstyttar og má búast við því að lesturinn taki allt að tuttugu og eina klukkustund í flutningi. Undir lestrinum munu svo leika tónar íslenska tónlistarhópsins Caput og Ólafs Arnalds, auk annarra tónlistarmanna frá Noregi, Danmörku og Þýskalandi.

Helstu sérfræðingar á sviðum norrænna fræða og Íslendingasagna, frá Þýskalandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Íslandi, munu ræða um sögurnar; menningarleg áhrif þeirra, sögulegt samhengi og lagakerfi. Á ráðstefnunni munu þýðendur einnig ræða um reynslu sína af því að þýða miðaldabókmenntir yfir á nútímamál. Keníski rithöfundurinn Ngugi wa Thiongo'o, sem var gestur Bókmenntahátíðar Reykjavíkur árið 2009, mun svo flytja fyrirlestur um Íslendingasögurnar sem ber heitið „Reading the Sagas under the sub-Saharan Sun“.

Framhaldslíf Íslendingasagna í skrifum nútímarithöfunda, íslenskra og erlendra, verður einnig tekið til umfjöllunar á ráðstefnunni. Munu rithöfundarnir Sjón, Ulf Stolterfoht, Roy Jacobsen og Einar Kárason ræða um endurnýjun sagnanna í nútímabókmenntum.

Ráðstefnan er samstarfsverkefni Literaturbüro Ostwestfalen-Lippe, Sögueyjunnar Íslands og S. Fischer Verlag. Frekari upplýsingar um ráðstefnuna má nálgast hér, á heimasíðu Literaturbüro Ostwestfalen-Lippe.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir