Jón Kalman fær sænsk bókmenntaverðlaun

19. september, 2011

Jón Kalman Stefánsson hlýtur í ár sænsk bókmenntaverðlaun kennd við rithöfundinn Per Olov Enquist. Harmur englanna er komin út á sænsku, frönsku og þýsku.

Jón KalmanJón Kalman Stefánsson hlýtur í ár sænsk bókmenntaverðlaun kennd við rithöfundinn Per Olov Enquist. Verða verðlaunin afhent á bókamessunni í Gautaborg næstkomandi fimmtudag. Í niðurstöðu dómnefndarinnar segir að Himnaríki og helvíti sé „bæði stórbrotin og töfrandi. Frásögn sem skapar miklar bókmenntir úr lífinu og glæðir bókmenntirnar sjálfar nýju lífi.“ Harmur englanna, önnur bók þríleiksins sem hófst með Himnaríki og helvíti, kom út í sænskri þýðingu fyrir skömmu

„Hver lesandi les bók samkvæmt sinni reynslu, samkvæmt sínum karakter. Þú getur staðsett hana í Kyrrahafinu, mín vegna,“sagði Jón Kalman í viðtali við Sögueyjuna fyrir nokkru. Harmur englanna er nú á ferðalagi um meginland Evrópu, en bókin er komin út, auk sænsku, á þýsku og frönsku. Fyrstu ritdómarnir hafa tekið að birtast í þýskum fjölmiðlum og birti hið virta dagblað Frankfurter Allgemeine Zeitung nýverið afar jákvæðan dóm um hana, undir fyrirsögninni „Prometheus im eis“. „Harmur Englanna er áhrifamikil skáldsaga um óbilgjarnan og kaldan heim,“ segir gagnrýnandinn Irene Bazinger. „Á undraverðan hátt tekst Jóni Kalman Stefánssyni að lýsa þessari þrautagöngu í gegnum kulda og myrkur, einsemdinni og vonleysinu. Örmögnuninni og varnarleysinu er miðlað á sannfærandi hátt til lesenda sem búa við mun mildara veðurfar.“ Í Frakklandi hafa móttökurnar einnig verið blíðar. Bókmenntatímaritið La Quinzaine littéraire gagnrýndi bókina fyrir skömmu og þar segir: „Þetta framhald veldur ekki vonbrigðum. Frá fyrstu línum bókarinnar er aftur framkvæmt fagurfræðilegt kraftaverk, sem er ekki bara endurtekið – heldur margfaldað.“

Von er á lokabók þríleiksins í haust.

Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson


Allar fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir útgáfustyrki til nýrra íslenskra ritverka - 3. maí, 2024 Fréttir

Í ár var úthlutað tæplega 21 milljón króna í útgáfustyrki til 41 verks. Alls bárust 66 umsóknir og sótt var um heildarupphæð rúmlega 74 milljónir króna.

Nánar

Úthlutun úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði; 25 spennandi verk hljóta styrki - 3. maí, 2024 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur úthlutað 8 millj.kr. til 25 verka árið 2024. Alls bárust 45 umsóknir og sótt var um 30,6 millj.kr.

Nánar

Úthlutun til þýðinga á íslensku; 28 styrkir veittir í fyrri úthlutun ársins - 3. maí, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins 2024 bárust 37 umsóknir til þýðinga á íslensku. Veittir voru 27 styrkir að upphæð 8,8 millj. kr. Seinni úthlutun ársins fer fram í nóvember. 

Nánar

Allar fréttir