Dagur og nótt íslenskra bókmennta

6. október, 2011

Um helgina fara fram tveir stórir viðburðir í Þýskalandi tengdir íslenskum bókmenntum. Annars vegar Löng nótt íslenskra bókmennta í Köln og hins vegar Dagur íslenskra bókmennta í Berlín.

Um helgina fara fram tveir stórir viðburðir í Þýskalandi tengdir íslenskum bókmenntum. Annars vegar Löng nótt íslenskra bókmennta í Köln, þann 7. október, þar sem þýska ríkisútvarpið og Literaturhaus Köln bjóða sex íslenskum rithöfundum til að ræða um verk sín, og hins vegar Dagur íslenskra bókmennta í Berlín, þann 9. október, þar sem íslenskir höfundar kynna sín eigin verk samhliða nánari umfjöllun um íslenskar bókmenntir.

Árlega bjóða Bókmenntahúsið í Köln og þýska ríkisútvarpið höfundum frá gestaþjóð Bókasýningarinnar í Frankfurt á „Bókmenntanótt“ sem útvarpað er í beinni um gjörvallt Þýskaland. Á Langri nótt íslenskra bókmennta koma fram rithöfundarnir Andri Snær Magnason, Hallgrímur Helgason, Auður Ava Ólafsdóttir, Steinunn Sigurðardóttir, Sjón og Yrsa Sigurðardóttir. Jafnframt verður boðið upp á lifandi íslenska tónlist í útsendingunni, en Hilmar Örn Hilmarsson, Steindór Andersen og Páll á Húsafelli munu líka taka þátt í dagskránni.

Það sem af er ári hafa reglulega farið fram bókmenntakynningar í sendiráði Íslands í Berlín og hafa þær kynningar verið vel sóttar. Kynning íslenskra bókmennta þar í borg  á heiðursárinu nær hámarki á Degi íslenskra bókmennta, sem haldinn verður í samkomuhúsi norrænu sendiráðanna þann 9. október næstkomandi. Þar munu rithöfundarnir Pétur Gunnarsson, Sjón, Steinunn Sigurðardóttir, Auður Ava Ólafsdóttir og Hallgrímur Helgason kynna nýjar þýskar útgáfur á verkum sínum. Jafnframt halda höfundarnir þar tölu um íslenskar bókmenntir. Sjón mun ræða um Thor Vilhjálmsson; Pétur Gunnarsson, ásamt Kristof Magnússyni, spjallar um Þórberg Þórðarson; Steinunn Sigurðardóttir ræðir um Halldór Laxness og Hallgrímur Helgason mun svo fjalla um einkenni íslenskra bókmennta.

Viðburðirnir eru góð upphitun fyrir herlegheitin sem hefjast þegar Bókasýningin byrjar 12. október næstkomandi. Í íslenska  sýningarskálanum verður boðið upp á dagskrá alla dagana  þar sem kastljósinu verður beint að íslenskum höfundum. Fjölbreytt dagskrá fer að auki fram á öllu sýningarsvæðinu. Þar munu höfundarnir koma fram í sjónvarps- og útvarpsviðtölum, upplestrum og bókakynningum.


Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu - 2. júlí, 2025 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð frá 3. júlí til 5. ágúst.  Nánar

Karólína Rós Ólafsdóttir og Natan Jónsson hljóta Nýræktarstyrki í ár - 6. júní, 2025 Fréttir

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru veittir í átjánda sinn þann 5. júní. Styrkirnir eru 500.000 kr. og eru veittir til nýrra höfunda fyrir óbirt handrit. 

Nánar

Íslenskar bókmenntir á heimssýningunni í Japan - 2. júní, 2025 Fréttir

Rán Flygenring höfundur og Shohei Akakura japanski þýðandi hennar taka þátt í bókmenntaviðburðum á heimssýningunni sem nú stendur yfir í Osaka í Japan. 

 

Nánar

Allar fréttir