Brakið berst að landi

2. desember, 2011

Í Brakinu eftir Yrsu Sigurðardóttur eru það ekki vofur á Ströndum sem hræða úr lesendum líftóruna, heldur myrkari hliðar mannlegs eðlis. „Að vera fastur úti á ballarhafi og vita ekkert hverjum maður getur treyst,“ segir hún. „Í því felst hryllingurinn.“

BrakiðÍslenskir  jafnt sem þýskir lesendur supu ánægðir hveljur yfir síðustu bók Yrsu Sigurðardóttur, Ég man þig, en þar gengu vofur berserksgang á Ströndum á meðan skelfdar sögupersónur reyndu að komast orsökum draugagangsins. Í nýjustu bók hennar, Brakinu, kynnir hún aftur til leiks lögfræðinginn Þóru Guðmundsdóttur, en þessa gamalkunnu sögupersónu Yrsu var hvergi að finna í bókinni á undan.  Að þessu sinni flækist Þóra í mál sem varðar snekkju sem berst mannlaus inn í Reykjavíkurhöfn, en hafði áður lagt úr vör með fjölda manns um borð.

Þegar við náum í Yrsu er hún nýkomin heim frá Amsterdam, ekki í upplestrarferð að þessu sinni, heldur í verkfræðierindum. Aðspurð lætur hún vel af því að koma aftur að Þóru eftir að hafa hvílt hana í eina bók.

„Mér fannst ég kannski vera komin á smá endastöð í bili,” segir hún. „Það var gott að gera smá hlé og fá í staðinn að vinna með karaktera sem eru „einnota“ – sem ég gat gert hvað sem er við af því að þeir þurftu ekki að koma aftur fyrir seinna. En síðan var auðvitað voða notalegt að rifja upp kynnin við gamla vini í Brakinu.“

Reimt á metsölulista Der Spiegel

Ég man þig kom út í Þýskalandi í september, og hefur síðan selst í sextíu þúsund eintökum þar í landi, og setið á metsölulista Der Spiegel í fjölda vikna. Þrátt fyrir velgengni bókarinnar ákvað Yrsa að einblína á þessa heims glæpi í Brakinu í stað þess að sækja aftur óþokka sína að handan.

„Þetta er ekki hryllingssaga,“ segir hún. „Eða kannski er þetta öðruvísi hryllingur. Að vera fastur á einhverjum báti úti á ballarhafi, að vita ekkert hverjum maður getur treyst – í því felst hryllingurinn.“

Það er Veröld sem gefur bókina út. Byrjunarupplagið er það stærsta sem íslenskur kvenrithöfundur hefur lagt upp með til þessa, eða 16.000 eintök.


Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu - 2. júlí, 2025 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð frá 3. júlí til 5. ágúst.  Nánar

Karólína Rós Ólafsdóttir og Natan Jónsson hljóta Nýræktarstyrki í ár - 6. júní, 2025 Fréttir

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru veittir í átjánda sinn þann 5. júní. Styrkirnir eru 500.000 kr. og eru veittir til nýrra höfunda fyrir óbirt handrit. 

Nánar

Íslenskar bókmenntir á heimssýningunni í Japan - 2. júní, 2025 Fréttir

Rán Flygenring höfundur og Shohei Akakura japanski þýðandi hennar taka þátt í bókmenntaviðburðum á heimssýningunni sem nú stendur yfir í Osaka í Japan. 

 

Nánar

Allar fréttir