Sendiherrar í Reykjavík og Suðursveit!

Þýðendur hittust á alþjóðlegu þýðendaþingi í Reykjavík og á Hala

1. maí, 2009

Þýðendur hittust á alþjóðlegu þýðendaþingi. 

 

,,Að vera eða ekki vera, þarna er efinn...". ,,Það er eiginlega ekki hjá því komist að ávarpa þýðendaþing án þess að minnast Helga Hálfdanarsonar og vitna í hans verk" sagði Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, við opnun þýðendaþings í Þjóðminjasafni Íslands. ,,Helgi skipar stóran sess í íslenskri bókmennta- og menningarsögu fyrir sínar þýðingar."

Kveikjan að þinginu var að hvetja þýðendur til dáða við þýðingar á íslenskum bókmenntum, í ljósi þess að Ísland verður heiðursgestur á bókasýningunni í Frankfurt 2011.

Rúmlega þrjátíu þýðendur frá tólf málsvæðum sóttu þingið.  Þar af voru ellefu sem þýða á þýsku, fimm sem þýða á ensku, tveir á  dönsku, frönsku, hollensku, spænsku og pólsku og einn á eistnesku, norsku, rússnesku, sænsku og tékknesku.

Á dagskrá þingsins var meðal annars kynning á verkum skálda og rithöfunda af yngri kynslóðinni og kynning á samtímabókmenntum og ljóðum. Af hálfu þýðenda talaði Kristof Magnússon. Hann sagði það skipta miklu máli fyrir þýðendur að tengjast Íslandi á þennan hátt og hitta aðra þýðendur. Það væri mikilvægt að fá innsýn inn í það sem er að gerast á Íslandi í bókmenntum og eins til að efla þýðendur og samskipti þeirra innbyrðis.

,,Það er okkar hlutverk að leggja ykkur þýðendum lið" sagði Halldór Guðmundsson verkefnisstjóri Sagenhaftes Island í ræðu sinni á þinginu. ,,Það er markmið þessa verkefnis að styrkja allar þýðingar sem hafa bókmenntalegt gildi." Á málþingi í Nýheimum á Höfn í Hornafirði kom fram, að hlutverk þýðandans sé að koma innihaldi bókarinnar á framfæri við önnur málsvæði. Það  getur stundum verið snúið líkt og  kom fram í máli fjögurra þýðenda þar sem þeir sögðu frá glímu sinni við að þýða íslenskar bókmenntir. Þeim bar saman um að þrátt fyrir að það getið verið snúið þá sé það líka „unun“ eins og Helena Kadecková, tékkneskur þýðandi, orðaði það. Það var svo hópnum mikill innblástur að heimsækja Hala í Suðursveit, þar sem Þórbergi Þórðarsyni hefur nú verið reist veglegt fræðasetur. Pétur Gunnarsson rithöfundur og formaður Rithöfundasambands Íslands og Þorbjörg Arnórsdóttir framkvæmdastjóri  á Þórbergssetri sögðu þýðendum frá Þórbergi, ævi hans og ritstörfum.

Það var mikill hugur í þessum föngulega þýðendahópi þegar þeir héldu heim á sunnudagsmorgun, fullir tilhlökkunar til að takast á við það mikla starf sem framundan er. Markmiðið er skýrt; gera þátttöku Íslands á bókasýningunni í Frankfurt 2011 sem veglegasta.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir