Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011

26. janúar, 2012

Rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir og Páll Björnsson sagnfræðingur verðlaunuð fyrir bækur sínar Allt með kossi vekur og Jón forseti allur?.

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011Tilkynnt hefur verið hvaða bækur hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011, en þau voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 25. janúar. Guðrún Eva Mínervudóttir hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Allt með kossi vekur, gefin út af JPV útgáfu. Í flokki fræðirita fékk Páll Björnsson sagnfræðingur verðlaunin fyrir bókina Jón forseti allur?: Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar sem Sögufélagið gefur út.

Guðrún Eva hefur tvívegis áður verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Allt með Kossi vekur, frásögn sem sem dansar á mörkum raunsæis og fantasíu um ferðalag manns um innstu sálarmyrkur, er sjötta skáldsaga hennar.  Í Jón forseti allur? er fjallað um arfleifð sjálfstæðishetjunnar með nýstárlegum hætti og dregið fram og skýrt hvernig ímynd hans hefur verið hagnýtt frá andláti hans 1879.

Þriggja manna lokadómnefnd, skipuð Þorgerði Jennýjardóttur Einarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, Árna Matthíassyni blaðamanni og Þorsteini Gunnarssyni, sérfræðingi hjá RANNÍS og fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri, sem var formaður, valdi verkin úr hópi þeirra tíu bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember síðastliðnum, fimm í flokki fagurbókmennta og fimm í flokki fræðirita og bóka almenns efnis.

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna í hvorum flokki. Auk þess er verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir, hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens – opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.


Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu - 2. júlí, 2025 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð frá 3. júlí til 5. ágúst.  Nánar

Karólína Rós Ólafsdóttir og Natan Jónsson hljóta Nýræktarstyrki í ár - 6. júní, 2025 Fréttir

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru veittir í átjánda sinn þann 5. júní. Styrkirnir eru 500.000 kr. og eru veittir til nýrra höfunda fyrir óbirt handrit. 

Nánar

Íslenskar bókmenntir á heimssýningunni í Japan - 2. júní, 2025 Fréttir

Rán Flygenring höfundur og Shohei Akakura japanski þýðandi hennar taka þátt í bókmenntaviðburðum á heimssýningunni sem nú stendur yfir í Osaka í Japan. 

 

Nánar

Allar fréttir