Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011

26. janúar, 2012

Rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir og Páll Björnsson sagnfræðingur verðlaunuð fyrir bækur sínar Allt með kossi vekur og Jón forseti allur?.

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011Tilkynnt hefur verið hvaða bækur hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011, en þau voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 25. janúar. Guðrún Eva Mínervudóttir hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Allt með kossi vekur, gefin út af JPV útgáfu. Í flokki fræðirita fékk Páll Björnsson sagnfræðingur verðlaunin fyrir bókina Jón forseti allur?: Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar sem Sögufélagið gefur út.

Guðrún Eva hefur tvívegis áður verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Allt með Kossi vekur, frásögn sem sem dansar á mörkum raunsæis og fantasíu um ferðalag manns um innstu sálarmyrkur, er sjötta skáldsaga hennar.  Í Jón forseti allur? er fjallað um arfleifð sjálfstæðishetjunnar með nýstárlegum hætti og dregið fram og skýrt hvernig ímynd hans hefur verið hagnýtt frá andláti hans 1879.

Þriggja manna lokadómnefnd, skipuð Þorgerði Jennýjardóttur Einarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, Árna Matthíassyni blaðamanni og Þorsteini Gunnarssyni, sérfræðingi hjá RANNÍS og fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri, sem var formaður, valdi verkin úr hópi þeirra tíu bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember síðastliðnum, fimm í flokki fagurbókmennta og fimm í flokki fræðirita og bóka almenns efnis.

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna í hvorum flokki. Auk þess er verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir, hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens – opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.


Allar fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta veitir útgáfustyrki til nýrra íslenskra ritverka - 3. maí, 2024 Fréttir

Í ár var úthlutað tæplega 21 milljón króna í útgáfustyrki til 41 verks. Alls bárust 66 umsóknir og sótt var um heildarupphæð rúmlega 74 milljónir króna.

Nánar

Úthlutun úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði; 25 spennandi verk hljóta styrki - 6. maí, 2024 Fréttir

8 milljónum var veitt úr sjóðnum til 25 barna- og ungmennaverka sem koma út á næstunni.

Nánar

Úthlutun til þýðinga á íslensku; 27 styrkir veittir í fyrri úthlutun ársins - 3. maí, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins 2024 bárust 37 umsóknir til þýðinga á íslensku. Veittir voru 27 styrkir að upphæð 8,8 millj. kr. Seinni úthlutun ársins fer fram í nóvember. 

Nánar

Allar fréttir