Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011

26. janúar, 2012

Rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir og Páll Björnsson sagnfræðingur verðlaunuð fyrir bækur sínar Allt með kossi vekur og Jón forseti allur?.

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011Tilkynnt hefur verið hvaða bækur hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011, en þau voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 25. janúar. Guðrún Eva Mínervudóttir hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Allt með kossi vekur, gefin út af JPV útgáfu. Í flokki fræðirita fékk Páll Björnsson sagnfræðingur verðlaunin fyrir bókina Jón forseti allur?: Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar sem Sögufélagið gefur út.

Guðrún Eva hefur tvívegis áður verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Allt með Kossi vekur, frásögn sem sem dansar á mörkum raunsæis og fantasíu um ferðalag manns um innstu sálarmyrkur, er sjötta skáldsaga hennar.  Í Jón forseti allur? er fjallað um arfleifð sjálfstæðishetjunnar með nýstárlegum hætti og dregið fram og skýrt hvernig ímynd hans hefur verið hagnýtt frá andláti hans 1879.

Þriggja manna lokadómnefnd, skipuð Þorgerði Jennýjardóttur Einarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, Árna Matthíassyni blaðamanni og Þorsteini Gunnarssyni, sérfræðingi hjá RANNÍS og fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri, sem var formaður, valdi verkin úr hópi þeirra tíu bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember síðastliðnum, fimm í flokki fagurbókmennta og fimm í flokki fræðirita og bóka almenns efnis.

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna í hvorum flokki. Auk þess er verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir, hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens – opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir