Hollensk þýðing Snorra-Eddu verðlaunuð

3. maí, 2012

Þýðandinn Marcel Otten hlaut nýverið hollensk þýðingarverðlaun fyrir þýðingu sína á Snorra-Eddu. Verðlaunin eru veitt þýðingum sem þykja skara fram úr á hollenskum bókamarkaði.

Hollensk þýðing Snorra-EdduÞýðandinn Marcel Otten hlaut nýverið hollensk þýðingarverðlaun fyrir þýðingu sína á Snorra-Eddu sem kom út í innbundinni útgáfu hjá forlaginu Athenaeum-Polak & Van Gennep í fyrra með styrkveitingu frá Bókmenntasjóði og Stofnunar Sigurðar Nordals. Verðlaunin eru veitt þýðingum sem þykja skara fram úr á hollenskum bókamarkaði.

Marcel Otten hefur um árabil þýtt íslenskar forn- og nútímabókmenntir á hollensku. Árið 2010 hlaut hann styrk kenndan við Snorra Sturluson frá Árnastofnun en styrkurinn er veittur árlega erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum til dvalar á Íslandi í því skyni að kynnast íslenskri tungu og menningu. Dvölina nýtti hann til að þýða Gerplu Halldórs Laxness á hollensku og kom hún út hjá bókaforlaginu De Geus í fyrra. Áður hefur hann þýtt sex aðrar skáldsögur eftir Nóbelskáldið.

Meðal annarra nýlegra þýðinga hans má nefna Himnaríki og helvíti og Harm Englanna eftir Jón Kalman Stefánsson, Óreiðu á striga eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, Argóarflísina eftir Sjón  og bækur Arnaldar Indriðasonar.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir