Íslenskir rithöfundar á erlendri grundu

23. ágúst, 2012

Íslenskar bókmenntir eru víða áberandi á erlendum vettvangi um þessar mundir. Íslenskir rithöfundar hafa komið töluvert við sögu  á bókmenntahátíðinni í Edinborg. Það styttist einnig í bókasýninguna í Gautaborg, þar sem átta íslenskir rithöfundar munu koma fram.

Íslenskar bókmenntir eru víða áberandi á erlendum vettvangi um þessar mundir. Íslenskir rithöfundar hafa komið töluvert við sögu  á bókmenntahátíðinni í Edinborg, sem stendur yfir til 27. ágúst. Það styttist einnig í bókasýninguna í Gautaborg, sem haldin verður 27.-30 september, og munu átta íslenskir rithöfundar sækja hana heim í þetta sinn.

Alls komu fimm íslenskir rithöfundar fram á bókmenntahátíðinni í Edinborg í ár. Íslenskar bókmenntir voru viðfangsefni viðburðarins „The Fable of the Hungry Icelander“, þar sem Andri Snær Magnason, Auður Ava Ólafsdóttir, Kristín Ómarsdóttir og Sjón lásu upp úr verkum sínum. Á hátíðinni sat Andri Snær að auki á rökstólum með Ferdinand Mount, fyrrum ræðuhöfundi Margaret Thatcher, og rithöfundinum Jules Goddard um markaðsöfl og aðra valkosti eftir efnahagslægð síðustu ára. Voru viðburðirnir skipulagðir í samstarfi við Bókmenntasjóð.

Yrsa Sigurðardóttir var einnig stödd á hátíðinni og kom hún fram á sviði ásamt skoska glæpasagnarithöfundinum Peter May. Hún tók auk þess þátt í dagskrá á vegum Amnesty International þar sem vakin var athygli á verkum rithöfunda sem hafa verið fangelsaðir eða sætt pyntingum vegna kynhneigðar sinnar.

Bókasýningar í haust

Norðurlöndin verða þungamiðjan á bókasýningunni í Gautaborg í ár en þar munu rithöfundarnir Áslaug Jónsdóttir, Einar Már Guðmundsson, Eiríkur Örn Norðdahl, Gerður Kristný, Hugleikur Dagsson, Ragnar „Rax“ Axelsson, Sjón og Steinunn Sigurðardóttir ræða um norrænar bókmenntir og kynna verk sín á hinum ýmsu viðburðum.

Meðal viðburða bókasýningarinnar verður málþing tileinkað heildarþýðingu Íslendingasagnanna á norsku, dönsku og sænsku, einu viðamesta þýðingarverkefni í sögu íslenskra bókmennta. Um sextíu þýðendur taka þátt í verkefninu, en skemmst er að minnast þess að heildarútgáfa Íslendingasagna kom út á þýsku í fyrra hjá S. Fischer Verlage . Ritstjórarnir Kristinn Jóhannesson, Karl G. Jóhannsson og Gunnar D. Hansson munu kynna verkefnið, ásamt þýðendunum Önnu G. Gronberg og Inge Knutsson.

Að lokum má minna á að Bókasýningin í Frankfurt verður haldin 10.-14. október, einu ári eftir vel lukkaða heiðursþátttöku Íslands þar. Sameiginlegi íslenski standurinn, þar sem íslensk forlög kynna útgáfu sína, mun að þessu sinni bera með sér sterka vísun í íslenska heiðurskálann árið 2011 með heimilislegri stofustemmningu.

 


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir