Þýsk-íslensk samvinna verðlaunuð í Frankfurt

16. október, 2012

Barnabókin Frerk, du Zwerg!, eftir þýska rithöfundinn Finn-Ole Heinrich með myndskreytingum Ránar Flygenring, hlaut þýsku barnabókaverðlaunin í ár.

Barnabókin Frerk, du Zwerg! (Bergur dvergur), eftir þýska rithöfundinn Finn-Ole Heinrich með myndskreytingum Ránar Flygenring, hlýtur þýsku barnabókaverðlaunin í ár. Verðlaunin voru afhent á Bókasýningunni í Frankfurt, sem haldin var 10.-14 október.

„Upplifunin var yfirþyrmandi, auðvitað vorum við bæði hissa og hæstánægð,“ segir Rán Flygenring, en hún tók við verðlaununum ásamt Finn-Ole í Frankfurt um helgina. „Við tók hálfsúrrealískur sólarhringur af fjölmiðlafári þar sem við vorum dregin frá einum stað til annars, í umræður og viðtöl, myndatökur og áritanir. Það var fyrir mér mikil upplifun.“

Þetta er nú ekki lítil viðurkenning sem þið hafið fengið. Hyggið þið á frekara samstarf?

„Við erum rétt að byrja!“

Frakkar myndskreytingar

Þýsku barnabókaverðlaunin hafa verið veitt árlega síðan 1956 og eru á meðal virtustu barnabókmenntaverðlauna þar í landi. Dómnefndin er skipuð gagnrýnendum og bókmenntasérfræðingum og veitir hún verðlaun í fjórum flokkum: myndabóka, barnabóka, unglingabóka og rita almenns efnis. Frerk, du Zwerg!  Hlaut verðlaun í flokki barnabóka.

Í umsögn dómnefndarinnar um bókina segir að frásögnin, prentverkið og myndskreytingarnar vinni einstaklega vel saman í verkinu. Rán Flygenring er hrósað sérstaklega fyrir frakkar myndskreytingarnar sem rími vel við innihald og boðskap bókarinnar, sem kallar á stjórnleysi, hugrekki og sjálfstraust.

Bókin fjallar um dreng að nafni Frerk sem sökum smæðar og máttleysis er utanveltu í skólanum sínum. Á meðan háðsglósurnar dynja á honum í skólanum gerjast í huga hans villtar hugsanir, skrautleg orð og draumur um úfinn hund. Dag einn tekur líf Frerks miklum stakkaskiptum þegar hann finnur undarlegt egg sem af hendingu klekst út í vasa hans.

Finn-Ole Heinrich var á meðal þýskra unglistamanna sem tóku þátt í sviðsverkinu „Bændur flugust á“ sem Sögueyjan stóð fyrir í aðdraganda Bókasýningarinnar í Frankfurt 2011. Enn fremur var Finn-Ole gestarithöfundur í Reykjavík síðastliðið sumar, í boði Bókmenntaborgarinnar Reykjavík og Goethe-stofnunar, og nýtti hann tækifærið til að vinna meira með Rán Flygenring.

Fyrstu kaflar bókarinnar voru lesnir upp á íslensku á aðalsafni Borgarbókasafns á meðan á Íslandsdvöl Finn-Ole stóð. Lesa má stutt brot úr bókinni á íslensku á heimasíðu Bókmenntaborgar.


Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu - 2. júlí, 2025 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð frá 3. júlí til 5. ágúst.  Nánar

Karólína Rós Ólafsdóttir og Natan Jónsson hljóta Nýræktarstyrki í ár - 6. júní, 2025 Fréttir

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru veittir í átjánda sinn þann 5. júní. Styrkirnir eru 500.000 kr. og eru veittir til nýrra höfunda fyrir óbirt handrit. 

Nánar

Íslenskar bókmenntir á heimssýningunni í Japan - 2. júní, 2025 Fréttir

Rán Flygenring höfundur og Shohei Akakura japanski þýðandi hennar taka þátt í bókmenntaviðburðum á heimssýningunni sem nú stendur yfir í Osaka í Japan. 

 

Nánar

Allar fréttir