Þýsk-íslensk samvinna verðlaunuð í Frankfurt

16. október, 2012

Barnabókin Frerk, du Zwerg!, eftir þýska rithöfundinn Finn-Ole Heinrich með myndskreytingum Ránar Flygenring, hlaut þýsku barnabókaverðlaunin í ár.

Barnabókin Frerk, du Zwerg! (Bergur dvergur), eftir þýska rithöfundinn Finn-Ole Heinrich með myndskreytingum Ránar Flygenring, hlýtur þýsku barnabókaverðlaunin í ár. Verðlaunin voru afhent á Bókasýningunni í Frankfurt, sem haldin var 10.-14 október.

„Upplifunin var yfirþyrmandi, auðvitað vorum við bæði hissa og hæstánægð,“ segir Rán Flygenring, en hún tók við verðlaununum ásamt Finn-Ole í Frankfurt um helgina. „Við tók hálfsúrrealískur sólarhringur af fjölmiðlafári þar sem við vorum dregin frá einum stað til annars, í umræður og viðtöl, myndatökur og áritanir. Það var fyrir mér mikil upplifun.“

Þetta er nú ekki lítil viðurkenning sem þið hafið fengið. Hyggið þið á frekara samstarf?

„Við erum rétt að byrja!“

Frakkar myndskreytingar

Þýsku barnabókaverðlaunin hafa verið veitt árlega síðan 1956 og eru á meðal virtustu barnabókmenntaverðlauna þar í landi. Dómnefndin er skipuð gagnrýnendum og bókmenntasérfræðingum og veitir hún verðlaun í fjórum flokkum: myndabóka, barnabóka, unglingabóka og rita almenns efnis. Frerk, du Zwerg!  Hlaut verðlaun í flokki barnabóka.

Í umsögn dómnefndarinnar um bókina segir að frásögnin, prentverkið og myndskreytingarnar vinni einstaklega vel saman í verkinu. Rán Flygenring er hrósað sérstaklega fyrir frakkar myndskreytingarnar sem rími vel við innihald og boðskap bókarinnar, sem kallar á stjórnleysi, hugrekki og sjálfstraust.

Bókin fjallar um dreng að nafni Frerk sem sökum smæðar og máttleysis er utanveltu í skólanum sínum. Á meðan háðsglósurnar dynja á honum í skólanum gerjast í huga hans villtar hugsanir, skrautleg orð og draumur um úfinn hund. Dag einn tekur líf Frerks miklum stakkaskiptum þegar hann finnur undarlegt egg sem af hendingu klekst út í vasa hans.

Finn-Ole Heinrich var á meðal þýskra unglistamanna sem tóku þátt í sviðsverkinu „Bændur flugust á“ sem Sögueyjan stóð fyrir í aðdraganda Bókasýningarinnar í Frankfurt 2011. Enn fremur var Finn-Ole gestarithöfundur í Reykjavík síðastliðið sumar, í boði Bókmenntaborgarinnar Reykjavík og Goethe-stofnunar, og nýtti hann tækifærið til að vinna meira með Rán Flygenring.

Fyrstu kaflar bókarinnar voru lesnir upp á íslensku á aðalsafni Borgarbókasafns á meðan á Íslandsdvöl Finn-Ole stóð. Lesa má stutt brot úr bókinni á íslensku á heimasíðu Bókmenntaborgar.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir