Ný ævisaga Nonna

9. nóvember, 2012

Ný ævisaga hins víðþekkta barnabókahöfundar Nonna er væntanleg. Útgáfan sætir tíðindum, því þetta er í fyrsta sinn sem ráðist er í ritun á ævisögu Nonna á íslensku.

Ný ævisaga hins víðþekkta barnabókahöfundar Nonna er væntanleg og ber hún titilinn Pater Jón Sveinsson – Nonni. Gunnar F. Guðmundsson sagnfræðingur ritar bókina en  hann hefur kannað ævi og verk Nonna um árabil.

Útgáfa bókarinnar sætir tíðindum, því þetta er í fyrsta sinn sem ráðist er í ritun á ævisögu Nonna á íslensku, en áður hafa bækur um ævi hans komið út á pólsku árið 1939 og á þýsku árið 1949. Í bókinni er leitað svara við hinum ýmsu spurningum sem snúa að Nonna og ævi hans sem er um margt merkileg. Hann fór af landi brott aðeins 12 ára gamall, þegar franskur aðalsmaður bauðst til að kosta nám hans í Frakklandi. Að námi loknu gekk Nonni í reglu jesúíta og varð síðar kennari við kaþólskan skóla í Ordrup í Danmörku og starfaði þar í tuttugu ár. Nonni hætti kennslustörfum árið 1912, vegna veikinda, og hóf að gefa út bækur sínar upp frá því. Hann sló í gegn sem barnabókahöfundur á heimsvísu og hélt þúsundir fyrirlestra um víðan heim. Nonni skrifaði tólf bækur og hafa þær verið þýddar á um 30 tungumál og prentaðar í hundruðum þúsunda eintaka.


„Satt að segja reyndi ég að stúdera þennan mann meiren minn er siður um flesta vini mína – kannski ekki síst fyrir þá sök að mér þótti hann næstum of ótrúlegur til að vera sannur; og of sannur til þess að vera trúlegur.“ – Halldór Laxness.


 

Ljósmyndir úr bókinni

Ævi Nonna, sem eitt sinn var einn þekktasti rithöfundar Íslands, er skilað í yfirgripsmikilli bók sem telur 526 síður og er búin fjölmörgum ljósmyndum. Skyggnst er í dagbækur Sveins, föður Nonna, þar sem lesa má um erfiða lífsbaráttu fjölskyldunnar sem leiddi til þess að Nonni var sendur utan til menntunar svo ungur. Dagbækur Nonna eru að auki teknar til skoðunar og þar birtist glöggt sú innri togstreita sem hann átti í iðulega. Gunnar F. Guðmundsson kannar í verkinu hvaða áhrif þessar róttæku breytingar höfðu á þroska Nonna og að hvaða leyti hann sjálfur, meðvitað eða ómeðvitað, hagræddi eigin lífsmynd sem hann vildi sjálfur sjá og miðla öðrum. „En hann átti sér einnig annars konar ævi og annað líf,“ segir Gunnar í bókinni. „Sem hann vildi geyma með sjálfum sér og aðeins hans nánustu var kunnugt um. Hvernig skyldi sú ævi hafa verið?“

Bókaforlagið Opna gefur bókina út og er hún væntanleg í verslanir síðar í nóvember.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir