Íslenskir upplestrar í Þýskalandi

20. nóvember, 2012

Rithöfundarnir Kristín Steinsdóttir og Yrsa Sigurðardóttir lesa upp úr verkum sínum í Bremen og Berlín í vikunni.

Tveir íslenskir rithöfundar munu lesa upp úr verkum sínum í Þýskalandi í vikunni. Höfundarnir eru Kristín Steinsdóttir, sem les upp úr verkum sínum bæði fyrir börn og fullorðna á bókmenntahátíðinni  globale° í Bremen, og Yrsa Sigurðardóttir, sem mun lesa upp úr bók sinni Brakið, en hún kemur út á þýsku síðar í vikunni.

Kristín Steinsdóttir verður með tvo upplestra á bókmenntahátíðinni globale°. Annars vegar mun hún lesa upp úr barnabók sinni Vítahring og hins vegar skáldsögunni Ljósu, sem kom út á þýsku árið 2011 hjá bókaforlaginu C.H. Beck undir heitinu Im Schatten des Vogels. Upplesturinn úr Vítahring fer fram 22. nóvember kl. 10.00 í leikhúsinu í Bremen, en upplesturinn úr Ljósu fer fram síðar um kvöldið, kl. 19.00 í Deutsches Auswandererhaus, miðstöð helgaðri sögu innflytjenda í Þýskalandi.

Upplestur Yrsu Sigurðardóttur fer fram sama dag, 22. nóvember, í sendiráði Norðurlanda í Berlín kl. 19.00. Brakið, eða Todesschiff eins og hún heitir á þýsku, er áttunda bók Yrsu til að koma út þar í landi og fylgir á eftir hrollvekjunni Ég man þig, sem naut töluverðra vinsælda í Þýskalandi þegar hún kom út í fyrra.


Uppfært, 21.11.2012:

Kristín Steinsdóttir tekur einnig þátt í lokadagskrá bókmenntahátíðarinnar globale, 23. nóvember, kl. 19.00. Þar mun hún taka þátt í höfundaspjalli með höfundunum Michael Stavarič, Irena Brežná und Fabricio Caivano um barnabókmenntir í heimi fullorðna.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir