Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2012

3. desember, 2012

Laugardaginn 1. desember var tilkynnt um hvaða 10 bækur eru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2011.

Laugardaginn 1. desember var tilkynnt um hvaða 10 bækur eru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2012. Sem fyrr er tilnefnt í tveimur flokkum – flokki fagurbókmennta og flokki fræðibóka og rita almenns efnis – og eru 5 bækur tilnefndar í hvorum flokki.

Í flokki fagurbókmennta voru bækurnar Undantekningin eftir Auði Övu Ólafsdóttur (útgefandi Bjartur), Illska eftir Eirík Örn Norðdahl (útgefandi Mál og menning), Suðurglugginn eftir Gyrði Elíasson (útgefandi Uppheimar), Milla eftir Kristínu Ómarsdóttur (útgefandi JPV) og Endimörk heimsins eftir Sigurjón Magnússon (útgefandi Ormstunga) tilnefndar.

Í flokki fræðibóka voru eftirfarandi bækur tilnefndar: Örlagaborgin, brotabrot úr afrekssögu frjálshyggjunnar, fyrri hluti eftir Einar Má Jónsson (útgefandi Ormstunga), Pater Jón Sveinsson  – Nonni  eftir Gunnar F. Guðmundsson (útgefandi Opna), Upp með fánann: Baráttan um uppkastið 1908 og sjálfstæðisbarátta Íslendinga eftir Gunnar Þór Bjarnason (Mál og menning), Appelsínur frá Abkasíu: Vera Hertzsch, Halldór Laxness og hreinsanirnar miklu eftir Jón Ólafsson (útgefandi JPV) og Sagan af klaustrinu Skriðu eftir Steinunni Kristjánsdóttur (útgefandi Sögufélag).

Einnig var tilkynnt um tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunna og voru eftirfarandi bækur tilnefndar: Tvímála útgáfa safns ljóða eftir samtímaskáld frá Hjaltlandseyjum, þýðandi Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson (útgefandi Dimma), Svarti sauðurinn og aðrar fabúlur eftir Augusto Monterroso, þýðandi  Kristín Guðrún Jónsdóttir (útgefandi Bjartur), Ariasman eftir Tapio Koivukari í þýðingu Sigurðar Karlssonar (útgefandi Uppheimar), Sá hlær best sagði pabbi...! eftir Gunillu Bergström, þýðandi Sigrún Árnadóttir (útgefandi Mál og menning) og Allt er ást eftir Kristian Lundberg í þýðingu Þórdísar Gísladóttur (útgefandi Bjartur).

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2012 verða afhent um mánaðarmótin janúar-febrúar á komandi ári af Forseta Íslands á Bessastöðum. Verðlaunaupphæðin fyrir hvorn flokk er kr. 1.000.000.

Dómnefnd fagurbókmennta var skipuð þeim Viðari Eggertssyni, Þorgerði Elínu Sigurðardóttur og Þóru Arnórsdóttur. Í dómnefnd fræðibóka og rita almenns efnis sátu  Hrefna Haraldsdóttir, Dr. Dagný Kristjánsdóttir og Karl Blöndal.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir