Viðbrögð úr Víðsjá á þýsku

3. desember, 2012

Bók Gauta Kristmannssonar, Viðbrögð úr Víðsjá, safn greina sem byggðar eru á  bókmenntapistlum úr útvarpsþættinum Víðsjá er komin út hjá þýska forlaginu Queich.

Bók Gauta Kristmannssonar, Viðbrögð úr Víðsjá, er komin út hjá þýska forlaginu Queich. Hún heitir á þýsku Ausbrüche und Eindrücke. Hér er um að ræða safn greina sem byggðar eru á  bókmenntapistlum Gauta úr útvarpsþættinum Víðsjá á Rás 1 og fjallar höfundurinn um meira en 50 bækur sem komu út á Íslandi á árunum 2002-2011. Sabine Leskopf þýðir.

Þýski titillinn er vandþýddur og tvíræður. Hvað segir Gauti, sem er prófessor í þýðingarfræði við Háskóla Íslands, um þennan titil: „Það er rétt, bókin heitir Ausbrüche und Eindrücke sem er vandþýtt á íslensku vegna tvíræðninnar: Ausbruch getur vísað til (reiði)kasts eða hreinlega eldgoss og Eindruck vísar til áhrifa eða einfaldlega einhvers sem stimplast inn. Kápumyndin er eftir Grétar Ívarsson jarðfræðing hjá OR og ljósmyndara og hún undirstrikar þetta. Myndin er tekin uppi á Eyjafjallajökli í gosinu síðasta og það má sjá aðeins í gosmökkinn hægra megin og hjólförin í jöklinum blasa við. Sólin skín síðan í gegnum öskuna.“

Bækurnar sem eru til grundvallar umfjölluninni í bókinni eru ekki sérvaldar heldur koma þær úr ýmsum áttum, eru eftir lítt þekkta höfunda og þekktari, og sumar bókanna hafa komið út á þýsku en aðrar ekki. Útgáfa slíks rits á þýsku ber vott um mikinn áhuga Þjóðverja á íslenskum bókmenntum og verk um íslenskar skáldsögur er góð viðbót við þá flóru skáldsagna sem nú þegar er fáanleg á þýsku.

Gauti mun kynna bókina í sendiráði Íslands í Berlín 18. desember næstkomandi.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir