Tilnefningar til Fjöruverðlaunanna 2012

13. desember, 2012

Tilnefningar til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna, voru kynntar í aðalsafni Borgarbókasafns við Tryggvagötu, miðvikudaginn 12. desember.

Tilnefningar til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna, voru kynntar í aðalsafni Borgarbókasafns Reykjavíkur við Tryggvagötu, miðvikudaginn 12. desember.

Verðlaunin verða afhent á Góugleðinni, árlegri bókmenntahátíð kvenna. Verðlaun eru veitt í þremur flokkum; fyrir skáldverk, fræðirit, barna- og unglingabækur.

Eftirfarandi höfundar og bækur hlutu tilnefningu að þessu sinni:


Fagurbókmenntir

Kristín Eiríksdóttir: Hvítfeld – fjölskyldusaga. Útg. JPV.

Úr umsögn dómnefndar: Hvítfeld – fjölskyldusaga segir frá Jennu Hvítfeld, ungri og dularfullri konu sem flytur heim frá Bandaríkjunum eftir lát yngri systur sinnar. Fljótt kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist og Jenna og fjölskylda hennar búa öll yfir leyndarmálum sem þau fela á bak við lygar og grímur ... Eftirminnileg fyrsta skáldsaga höfundar sem vefur flókna örlagafléttu og afhjúpar að lokum skelfileg fjölskylduleyndarmál.

Eyrún Ingadóttir: Ljósmóðirin. Útg. Veröld.

Úr umsögn dómnefndar: Ljósmóðirin er söguleg skáldsaga sem segir sögu Þórdísar Símonardóttur, ljósmóður á Eyrarbakka um aldamótin 1900. Sagan er vel samin og skemmtileg og segir frá konu sem reis upp gegn aðstæðum í samfélaginu og barðist fyrir eigin réttindum og réttindum annarra ... Persónusköpun er lífleg og sannfærandi, sagan er efnismikil og frásögn höfundar myndræn og lifandi

Auður Jónsdóttir: Ósjálfrátt. Útg. Mál og menning

Úr umsögn dómnefndar: Ósjálfrátt er skáldsaga þar sem veruleiki og skáldskapur haldast í hendur. Sagan segir frá Eyju sem gerir upp við fjölskyldu sína og fortíð og lærir að vera skáld. Þroskasaga hennar er áhugaverð og óvenjuleg en hana skreyta og undirstrika margar litríkar persónur ... Stíllinn er áreynslulaus og léttur en með þungri undiröldu, fullur af lágstemmdri kímni svo úr verður einskonar gleðilegur harmleikur.

Fræðibækur

Við góða heilsu? Konur og nútímaheilbrigði í nútímasamfélagi. Helga Gottfreðsdóttir og Herdís Sveinsdóttir ritstýra. Útg. Háskólaútgáfan

Úr umsögn dómnefndar: Hér er fjallað á hispurslausan en jafnframt nærfærinn hátt um persónuleg og oft viðkvæm mál tengd heilsu kvenna ... Höfundar eru viðurkenndar fræðakonur á sínu sviði, textinn er lipur og skýr og til þess fallinn að höfða til breiðs hóps lesenda með áhuga á heilsu kvenna.

Steinunn Kristjánsdóttir. Sagan af Klaustrinu á Skriðu. Útg. Sögufélagið.

Úr umsögn dómnefndar: Í bókinni er sagt uppgreftri klaustursins á Skriðu í Fljótsdal ... Steinunn tekur lesandann með sér í ferðalag í gegnum rannsóknirnar og spinnur úr því spennandi sögu með óvæntum uppgötvunum.

Guðrún Sveinbjarnardóttir. Reykholt: Archaeological Investigations at a high status farm in Western Iceland. Útg. Þjóðminjasafn Íslands.

Úr umsögn dómnefndar: Bókin er fræðirit þar sem dregnar eru saman yfirgripsmiklar fornleifarannsóknir á Reykholti í Borgarfirði, höfðingjasetri um margra alda skeið ... Meginstyrkur bókarinnar liggur í ítarlegum lýsingum á hinum víðfeðmu og margþættu rannsóknum sem Reykholtsverkefnið náði yfir.

 

Barna- og unglingabækur

Anna Heiða Pálsdóttir: Mitt eigið Harmagedón. Útg. Salka

Úr umsögn dómnefndar: Mitt eigið Harmagedón er þroskasaga fimmtán ára stúlku sem tekst á við efasemdir um þá heimsmynd sem haldið hefur verið að henni frá bernsku. Frásögnin á sér stað á nokkrum sumarvikum og segir frá Dagbjörtu sem er uppalin í samfélagi Votta Jehóva á Íslandi ... Bók sem allir unglingar ættu að geta fundið samhljóm í varðandi það að taka ákvarðanir, standa með sjálfum sér og bera ábyrgð á eigin lífi.

Kristín Helga Gunnarsdóttir: Grímsævintýri. Útg. Mál og menning

Úr umsögn dómnefndar: Lesendur kynnast veröld Gríms Fífils sem snýst um lykt, mat og samband hans við mannfólkið, sem elskar hann ýmist eða umber. Það er frásagnarmáti bókarinnar sem gerir hana eftirminnilega og sérstaklega skemmtilega ... Grímsævintýri er dýrasaga þar sem lesendurnir fylgjast með lífi hunds frá vöggu til grafar út frá sjónarhóli hamingjudýrsins og fuglaveiðihundsins Gríms Fífils.

Þórdís Gísladóttir: Randalín og Mundi. Útg. Bjartur

Úr umsögn dómnefndar: Reykvískt sumar, uppátækjasamir krakkar, litskrúðugt mann- og dýralíf og ævintýri hversdagslífsins eru m.a. viðfangsefni Þórdísar Gísladóttur í bókinni um fjörugu vinina Randalín og Munda. Þetta er bráðskemmtileg og lipurlega skrifuð saga með spaugilegum myndum, skemmtilegum persónum og aðstæðum sem vekja kátínu og gleði.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir