Ljóðlistarverkefnið ORT: Ljóð frá Íslandi/Ljóð frá Póllandi

3. júní, 2013

Verkefnið nær yfir fjórar árstíðir og mun  ljóðlistin ferðast milli Póllands og Íslands í allri sinni fjölbreytni á þessu tímabili: á pappír, á vefnum, á götum, í strætisvögnum og neðanjarðarlestum. Ljóð verða flutt í útvarpi og á bókmenntahátíðum og viðburðum, þau munu ganga inn í bókasöfn, skóla og leikskóla og prýða götur Reykjavíkur og borga í Póllandi.

Ljóðið fær vængi

Hugsjón ORT er að leyfa ljóðinu að takast á loft af síðunni og finna sér leið inn í opinber og óvænt rými. Verkefninu er ætlað að   opna fyrir samræður milli skálda og listamanna þjóðanna beggja í gegnum viðburði, þýðingar og vinnusmiðjur – og þar með byggja brú milli eyjunnar og meginlandsins. Aldrei fyrr hefur verið ráðist í jafn víðfeðma kynningu á íslenskri ljóðlist í Póllandi og pólskri ljóðlist á Ísland, en yfir 20 skáld frá Póllandi og Íslandi munu taka þátt í verkefninu.

Opnunarhátíðin í Kraká - Smekkleysukvöld

Vorútgáfa verkefnisins hefst, sem fyrr segir, á Miłosz hátíðinni í Kraká, með þátttöku Braga Ólafssonar, Óskars Árna Óskarsson og Sjóns. Skáldin þrjú munu lesa upp verk sín á endurvöktu Smekkleysukvöldi, þar sem tónlistarmennirnir Sigtryggur Baldursson og Ásgerður Júníusdóttir auk hljómsveitanna Ghostigital og Captain Fufanu koma einnig fram. Á meðan kvöldinu stendur verður ljósmyndum sem Ólafur J. Engilbertsson hefur tekið saman um sögu Smekkleysu varpað upp á tjald. Viðburðurinn á að blása nýju lífi í hugmyndina um listrænt samstarf, sjálfsprottna tilraunagleði og umfram allt tefla saman lifandi flutningi ljóða og tóna. Með þessu er hugmyndin að baki Orðið tónlist, fjölljóðahátíð sem Smekkleysa hefur áður staðið fyrir, endurvakin.

Samstarfsaðilar

Bakhjarl verkefnisins ORT er Bókmenntamiðstöð Póllands og er það styrkt af Evrópusjóðnum „Promotion of Diversity in Culture and Arts within European Cultural Heritage“. Samstarfsaðilar á Íslandi eru Miðstöð íslenskra bókmennta, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, ÚTON og Norræna húsið. Ríkisútvarp Póllands er sérstakur velunnari verkefnisins. Á meðal aðila sem koma að skipulagningu viðburða eru Viðburðadeild Kraká (Kraká Festival Office), Bókmenntahátíðin í Sopot, Spoke'n'Word hátíðin í Varsjá, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Borgarbókasafn Reykjavíkur.



Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir