Bókmenntir sögueyjunnar í forgrunni í Ráðhúsinu í júlí. Stemningin í Frankfurt 2011 rifjuð upp

24. júní, 2013

Borgarstjóri opnaði sýninguna "The Art of Being Icelandic" í Tjarnarsal Ráðhússins í dag, föstudaginn 28. júní 

Sýningin "The Art of Being Icelandic" í Tjarnarsal Ráðhússins var opnuð föstudaginn 28. júní en Miðstöð íslenskra bókmennta stendur að sýningunni ásamt Ráðhúsinu og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Sýningin beinir sjónum að íslenskum bókmenntum í þýðingum auk þess sem vakin er athygli á íslenskri hönnun. Þar gefur meðal annars að líta stóla Valdimars Harðarsonar, Sóley, en stóllinn á 20 ára afmæli í ár, og önnur stofuhúsgögn sem gestir geta tyllt sér í á meðan gluggað er í íslenska bók.

Á sumrin kemur mikill fjöldi erlendra ferðamanna í Ráðhúsið, meðal annars  til að skoða Íslandskortið sem þar er, og gefst þessum gestum nú einnig kostur á að kynna sér bókmenntir sögueyjunnar í umgjörð íslenskrar hönnunar. Á sýningunni verður skáldskapur af öllum toga í brennidepli, svo og bækur um Ísland sem gefnar eru út hér á landi. Verk íslenskra höfunda koma nú út í þýðingum í vaxandi mæli víða um heim, en mikilvægt skref í því ferli var tekið með útgáfu 230 íslenskra titla í Þýskalandi í tengslum við heiðurssess Íslands á Bókasýningunni í Frankfurt árið 2011.

Í Ráðhúsinu verður einnig hægt að setjast á skáldabekk og hlusta á upplestur á íslenskum ljóðum og sögubrotum á ensku en Bókmenntaborgin hefur komið allnokkrum slíkum bekkjum fyrir úti í borgarlandinu.  Þá verður vakin athygli á því sem Bókmenntaborgin Reykjavík hefur upp á að bjóða fyrir erlenda ferðamenn, svo sem bókmenntagöngur, snjallsímaforrit, söfn og fleira.

Sýningarstjóri  The Art of Being Icelandic er Ingi Thor Jónsson og hönnuður er Sigrún Gréta Heimisdóttir.

Sýningin stendur frá 28. júní til 28. júlí. Ráðhúsið er opið frá kl. 8 til 19 virka daga og frá kl. 12 til 18 um helgar.

Samhliða sýningunni verður hádegisdagskrá í Munnhörpunni í Hörpu alla fimmtudaga í júlí. Þar mun íslenskur höfundur spjalla við gesti á ensku og lesa úr eigin verkum. Andri Snær Magnason ríður á vaðið 4. júlí, þann 11. júlí spjallar Vilborg Davíðsdóttir við gesti, Auður Ava Ólafsdóttir þann 18. og Yrsa Sigurðardóttir rekur lestina 25. júlí. Þessi dagskrá er öllum opin og ekkert kostar inn, en gestir geta gætt sér á veitingum Munnhörpunnar á meðan þeir hlýða á höfundaspjallið. 

     


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir