ALLIR LESA – þúsundir landsmanna taka þátt í landsleik í lestri
Nú líður senn að lokum fyrsta landsleiks í lestri hér á landi, en hann hófst 17. október og lýkur sunnudaginn 16. nóvember, á degi íslenskrar tungu. Leikurinn fer fram á vefnum allirlesa.is.

Gagnagrunnur um lestur þjóðarinnar
Allir lesa - landsleikur í lestri er langt kominn, aðeins tæp vika eftir. Viðtökurnar við vefnum og þátttakan í landsleiknum hafa verið einstaklega góðar, en yfir 4.000 einstaklingar í 330 liðum hafa nú skráð lestrartíma upp á samtals um 50.000 klukkustundir, eða sem nemur tæpum sex árum. Á vefnum safnast saman upplýsingar í fróðlegan gagnagrunn um lestur þjóðarinnar eftir tegundum bóka, búsetu og kyni.
Jólabækur og lestrardagbók einstaklinga
Aðstandendur Allir lesa - landsleiks í lestri, eru Miðstöð íslenskra bókmennta og Reykjavík Bókmenntaborg Unesco. Styrktaraðilar eru Félag íslenskra bókaútgefenda, Síminn, MS, Rannís og SA og samstarfsaðilar eru ÍSÍ, og RÚV.