Heildarlestur samsvarar átta árum. Sigurvegarar í landsleiknum koma alls staðar að af landinu. 

Íslandsmeistarar í lestri lásu í yfir 5 sólarhringa að meðaltali á keppnistímanum. Tvö sigurlið koma úr Reykjanesbæ. Vestmannaeyingar lásu mest allra sveitarfélaga. Konur lásu þrisvar sinnum meira en karlar og börn undir 15 ára lásu langmest. 

17. nóvember, 2014

Nú liggja fyrir úrslitin í Allir lesa, landsleik í lestri. 4.236 manns í 326 liðum skráðu lestur upp á um 70.000 klukkustundir. Það samsvarar um átta árum af samfelldum lestri. Íslandsmeistarar í lestri lásu í yfir 5 sólarhringa að meðaltali á keppnistímanum. Tvö sigurlið koma úr Reykjanesbæ og Vestmannaeyingar lásu mest allra sveitarfélaga. Konur lásu þrisvar sinnum meira en karlar og börn undir 15 ára lásu langmest.

Fyrir fjórum vikum hleyptu Miðstöð íslenskra bókmennta og Reykjavík Bókmenntaborg af stokkunum landsleik í lestri á nýjum lestrarvef, allirlesa.is – og er hann sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum. Á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember sl, lauk landsleiknum þar sem hópar af öllum stærðum og gerðum lásu til sigurs. Á keppnistímanum hafa hrannast inn spennandi tölur um lestur þátttakenda í Allir lesa, og hér neðar er það helsta tíundað.

Úrslitin

Sigurliðin í hverjum flokki eru:

Opinn flokkur

  •    Láki og félagar sigra í flokki liða með 3-9 liðsmenn og lásu að meðaltali í 5 sólarhringa, 2 klst. og 20 mínútur.
  •    Amtsbókasafnið – Allir (gestir Amtsbókasafnsins á Akureyri) sigrar í flokki liða með 10-29 liðsmenn og las að meðaltali í 1 sólarhring, 18 klst. og 15 mínútur.

Vinnustaðaflokkur

  •    Bæjarskrifstofur Hveragerðis sigra í flokki liða með 3-9 liðsmenn og lásu að meðaltali í 2 sólarhringa, 21 klst. og 16 mínútur.
  •    Lestrarfélagið (vinnufélagar í Tækniskólanum) sigrar í flokki liða með 10-29 liðsmenn og las að meðaltali í 2 sólarhringa, 1 klst. og 38 mínútur.

Skólaflokkur

  •    Skvísurnar (lið í Akurskóla í Reykjanesbæ) sigrar í flokki liða með 3-9 liðsmenn, en þær lásu að meðaltali í 2 sólarhringa, 2 klst. og 1 mínútu.
  •    7. bekkur Þeló (lið í Þelamerkurskóla, Hörgársveit) sigrar í flokki liða með 10-29 liðsmenn og las að meðaltali í 1 sólarhring, 21 klst. og 49 mínútur
  •     5. ÍH Myllubakkaskóli (í Reykjanesbæ) sigrar í flokki liða með 30-50 liðsmenn og las að meðaltali í 1 sólarhring, 1 klst. og 41 mínútu

Nú liggur fyrir að eitt lið hefur lesið meira en önnur, og stendur uppi sem heildarsigurvegari, en það er liðið Láki og félagar, sjö manna lið úr Reykjavík. Þau lásu að meðaltali í 5 sólarhringa, 2 klukkustundir og 20 mínútur á keppnistímabilinu. Efstu liðin í hverjum flokki fyrir sig fá viðurkenningar.

Þátttaka framar vonum

Landsleikurinn vakti mikla athygli og móttökurnar hafa verið framar björtustu vonum. Á þessum fjórum vikum sem leikurinn stóð skráðu 4.236 einstaklingar í 326 liðum alls lestur upp á um 70.000 klukkustundir, sem samsvarar um átta árum af samfelldum lestri. Alls voru 8.544 bækur skráðar á vefinn.

Lestur eftir búsetu

Það er gaman að sjá hvaða sveitarfélög lesa meira en önnur á allirlesa.is, og það hefur verið spennandi að sjá hvernig þær tölur hafa rokkað til og frá á keppnistímanum. Á endanum voru það Vestmannaeyjar sem stóðu uppi sem sigurvegari, með 21,8 klukkutíma meðallestur. Hveragerði, Djúpavogshreppur og Seyðisfjörður fylgja svo í kjölfarið.  Reykjanesbær kemur líka sterkur inn með tvö sigurlið í skólaflokknum. Lengri lista má sjá á http://www.allirlesa.is/lestur-eftir-busetu/

Konur skrá nær ¾ af öllum lestri

Á allirlesa.is má sjá skífurit af kynjaskiptingu lestrar sem hefur verið skráður á vefinn. Þar vekur athygli að konur hafa skráð 73% af öllum lestri á vefnum, en karlar einungis 27%. Þetta vekur upp ákveðnar spurningar, sem torvelt er að svara í fljótu bragði. Þýðir þetta að karlmenn lesi minna, eða einfaldlega að konur séu duglegri að skrá lesturinn?

Æskan blómstrar

Meðal þess sem hvað mesta athygli vekur á vefnum er aldursdreifing lestrarins, það er að segja, hvaða aldurshópar skrá mestan lestur. Oft er velt upp áhyggjum af því að æska landsins sé ekki nógu dugleg við lestur, en tölurnar úr Allir lesa sýna fram á annað. Börn á aldrinum 0-15 ára hafa alls skráð hátt í 29.000 lesnar klukkustundir, sem er meira en allir á aldrinum 16-49 ára til samans. Lestur þessa yngsta aldurshóps er alls um 40% af heildarlestrinum í keppninni. Það er því nokkuð ljóst að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af lestrarvenjum hjá börnunum okkar. Grunnskólar landsins hafa tekið þessu nýja verkfæri fagnandi og er það mikið ánægjuefni.

Lestrardagbókin opin áfram

Þótt landsleiknum sé nú formlega lokið geta allir nýtt sér áfram vefinn allirlesa.is og haldið þar sína persónulegu lestrardagbók. Vefurinn verður öllum opinn allt árið og hann opnar skemmtilega leið fyrir alla að halda utan um lestrarvenjur sínar. Landsleikur í lestri fer svo aftur fram að ári. 

Miðstöð íslenskra bókmennta og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO vilja þakka samstarfsaðilum sínum og bakhjörlum verkefnisins fyrir samvinnuna, en menntamálaráðuneytið, ÍSÍ, Síminn, Mjólkursamsalan og RÚV, ásamt Samtökum atvinnulífsins og Rannís styrkja verkefnið. Veffyrirtækið Advania sér um uppsetningu og viðhald vefsíðunnar, en Jónsson og Le‘Macks á heiðurinn af útlitinu.


Allar fréttir

Þýðendurnir Tina Flecken og Tone Myklebost hljóta Orðstírinn 2021 - 13. september, 2021 Fréttir

Viðurkenningin er veitt einstaklingum sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim árangri að aukið hafi hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi. 

Nánar

Fimm íslenskir höfundar taka þátt í Bókamessunni í Gautaborg - 31. ágúst, 2021 Fréttir

Bókamessan í Gautaborg verður haldin í lok septembermánaðar og nú fá höfundar og bókaunnendur tækifæri til að hittast þótt messan verði minni í sniðum en oft áður. 

Nánar

Bókmenntahátíð í Reykjavík handan við hornið - 30. ágúst, 2021 Fréttir

Hátíðin verður haldin dagana 8.-11. september og beðið hefur verið eftir henni með mikilli eftirvæntingu. Von er á fjölda höfunda, en einnig útgefendum og blaðafólki sem koma víðs vegar að til þess að taka þátt.

Nánar

Allar fréttir