Sex nýir höfundar hljóta Nýræktarstyrki 2015

Eftirtalin fimm verk hljóta Nýræktarstyrki í ár: Að heiman, Af hverju breytast allir í kringum mann þegar maður verður UNGLINGUR en ég er alltaf sama krúttið?, Glópagull og galdraskruddur, Himnaljós og Sirkús.

20. maí, 2015

Eftirtalin fimm verk hljóta Nýræktarstyrki í ár: Að heiman, Af hverju breytast allir í kringum mann þegar maður verður UNGLINGUR en ég er alltaf sama krúttið?, Glópagull og galdraskruddur, Himnaljós og Sirkús.


Í dag veitti Miðstöð íslenskra bókmennta sex nýjum höfundum Nýræktarstyrki 2015, til útgáfu á verkum þeirra. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra tilkynnti hverjir hlutu styrkina í ár við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins. Þetta er í áttunda skipti sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað.


Nýræktarstyrkir eru sérstakir styrkir til útgáfu á nýjum íslenskum skáldskap og þeim er ætlað að styðja við útgáfu á fyrstu verkum nýrra höfunda og er þar átt við skáldverk í víðri merkingu þess orðs, sögur, ljóð, leikrit, eða eitthvað allt annað.  

Í ár barst 51 umsókn um Nýræktarstyrki frá 45 aðilum. Verkin sem sótt var um fyrir eru af ýmsum toga s.s. skáldsögur, ljóð, barna- og ungmennabækur, smásögur og glæpasögur.

Nýræktarstyrki hljóta að þessu sinni eftirfarandi verk og höfundar:

Að heiman
Skáldsaga
Höfundur: Arngunnur Árnadóttir 

Umsögn um verkið:

„Reykjavíkurnætur og Reykjavíkurdætur öðlast nýtt líf í sumarnóttinni sem höfundur lýsir af miklu öryggi en jafnframt lifna fjarlægari slóðir. Knappur og sérstæður stíll nýtur sín vel í agaðri frásögn af manneskju í leit að samastað í tilverunni.“

Af hverju breytast allir í kringum mann þegar maður verður UNGLINGUR en ég er alltaf sama krúttið? 
Ungmennabók
Höfundar: Arnór Björnsson og Óli Gunnar Gunnarsson
Ritstjóri: Bryndís Björgvinsdóttir

Umsögn um verkið:

„Hér hafa þróttmiklir ungir listamenn, sem hafa þegar sannað sig í skapandi starfi, samið bráðskemmtilega, metnaðarfulla og frumlega bók. Höfundar lögðu upp með að semja áhugaverða sögu sem væri um leið uppflettirit fyrir unglinga og er óhætt að segja að þeim hafi tekist ætlunarverkið svo vel að eftir verði tekið.“

Glópagull og galdraskruddur 
Barnabók
Höfundur: Kristín Ragna Gunnarsdóttir 

Umsögn um verkið:

„Höfundur skapar hrífandi heim þar sem í spennandi ævintýri fyrir alla fjölskylduna mætast kunnuglegur íslenskur veruleiki, íslensk menningarsaga og nýstárleg nálgun við norræna goðafræði. Lipur, fyndin og raunsönn frásögn fyrir börn á öllum aldri sem státar af bráðskemmtilegu og vel mótuðu persónugalleríi.“

Himnaljós 
Smásögur
Höfundur: Áslaug Björt Guðmundardóttir

Umsögn um verkið:

„Með lágstemmdum en hrífandi prósa bregður höfundur upp ólíkum myndum af forgengileika lífsins, af einsemd, örvæntingu og uppgjöf. Myndirnar eru nístandi en eftir þungan lífróður má jafnvel finna hvíld.“

Sirkús
Skáldverk 
Höfundur: Júlía Margrét Einarsdóttir 

Umsögn um verkið:

„Úr öruggri höfn í Vesturbænum til framandi sirkúss í fjarlægu landi ferðast lesandinn um öldurót tilfinninga, í gegnum stórsjó vímu og geðsveiflna í sannkallaðri rússíbanareið. Frjór hugur og litríkur stíll höfundar nýtur sín vel í grípandi frásögn á mörkum draums og veruleika.“




Umsóknum um Nýræktarstyrki hefur fjölgað verulega frá því þeim var fyrst úthlutað hjá Bókmenntasjóði, forvera Miðstöðvar íslenskra bókmennta, árið 2008, en þá bárust 9 umsóknir og 5 styrkir voru veittir, hver að upphæð 200.000 kr. Árið 2009 bárust 27 umsóknir og 6 hlutu styrki, árið 2010 bárust 39 umsóknir og voru 5 styrkir veittir og árið 2011 bárust 30 umsóknir og þá var úthlutað 5 styrkjum. Árið 2012 bárust 23 umsóknir og voru 5 styrkir veittir að upphæð 200.000 kr., 2013 bárust 49 umsóknir og 4 verk hlutu styrk. Í fyrra bárust 31 umsókn um Nýræktarstyrkina og hlutu fjórir styrk að upphæð 250.000 kr. og í ár voru umsóknirnar 51 og styrkupphæðin er 400.000 kr.

Hér má finna frekari upplýsingar um Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir