Bókin í rafheimum - er ástæða til að óttast eða fagna?

Föstudaginn 2. október verður haldið opið málþing um mögulega framtíð bóka á íslensku í stafrænum heimi. Þingið verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns og stendur frá kl. 13 – 17. Málþingið er öllum opið og frítt inn.

30. september, 2015

Föstudaginn 2. október verður haldið opið málþing um mögulega framtíð bóka á íslensku í stafrænum heimi. Þingið verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns og stendur frá kl. 13 – 17. Málþingið er öllum opið og frítt inn. 


Föstudaginn 2. október verður haldið opið málþing um mögulega framtíð bóka á íslensku í stafrænum heimi undir yfirskriftinni Bókin í rafheimum - er ástæða til að óttast eða fagna?

Þingið er samstarfsverkefni Rithöfundasambands Íslands, Félags íslenskra bókaútgefenda, Hagþenkis, Landsbókasafns Íslands, Borgarbókasafns, Miðstöðvar íslenskra bókmennta og Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO.

Markmiðið er að skoða stöðuna á íslenskum bókamarkaði og velta vöngum yfir því sem framtíðin gæti borið í skauti sér.

Þingið verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns og stendur frá kl. 13 – 17. Það er öllum opið og ekkert kostar inn.

Dagskrá málþingsins:


13.00 Halla Oddný Magnúsdóttir setur þingið og stýrir umræðum.

13.10 Gauti Kristmannsson, prófessor: Menningarpólitísk áhrif tæknibyltinga. Hér verður farið yfir hvernig tæknibyltingar breyta landslagi menningar og tungumáls og verður þetta fyrst og fremst skoðað út frá íslenskum sjónarhóli, en þó með samanburði við það sem er að gerast erlendis.

13.30 Egill Örn Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda: Rafbókaútgáfa á Íslandi. Farið verður yfir þróun íslenskrar rafbókaútgáfu undanfarin ár og einnig innviðina og aðferðafræðina við útgáfu og sölu rafbóka. Egill mun einnig lýsa framtíðarsýn sinni á miðlun og sölu rafbóka á Íslandi á komandi misserum.

13.50 Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, landsbókavörður: Rafbækur í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Fjallað verður um stafræna endurgerð íslenskra bóka og hugmyndir um íslenska Bókahillu, móttöku íslenskra rafbóka í skylduskilum og aðgengi að þeim. Einnig um erlendar fræðibækur og handbækur sem safnið kaupir og eru ýmist aðgengilegar á háskólasvæðinu eða opnar öllum landsmönnum á hvar.is.

14.10 Kaffihlé

14.30 Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands: Rithöfundur í rafheimum: Stjórnlaus lukka? Vangaveltur um stöðu höfunda í rafrænu samfélagi og rafrænni útgáfu. Nær höfundur nú milliliðalausu sambandi við lesendur sína eða verða milliliðirnir mikilvægari en nokkru sinni? Verður höfundur útgefandi og rekur sitt eigið bókasafn?

15.00 Pálína Magnúsdóttir, borgarbókavörður (Guðríður Sigurbjörnsdóttir flytur): Rafbækur og almenningsbókasöfn. Bókasöfn og ekki síst almenningsbókasöfn eru afar mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem tryggir læsi og lesskilning í samfélaginu. Víða um heim hafa bókasöfn og útgefendur leitað leiða til að finna útlánaform sem hentar öllum aðilum. Til eru nokkrar leiðir sem hafa verið farnar. Þeim verður lýst í stuttu máli ásamt þeirri leið sem Borgarbókasafn ásamt Landskerfi bókasafna er að skoða núna til að geta boðið upp á rafbækur sem safnkost. Það er trú okkar á Borgarbókasafninu að það séu sameiginlegir hagsmunir bókasafna, höfunda og útgefanda að sátt náist um hvernig þessu er háttað.

15.20 Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, bókmenntafræðingur: Á ráfi í rafbókarheimi: lesendur, lesskilningur og lestraránægja. Í erindinu veltir Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir fyrir sér rafbókum út frá sjónarhóli lesenda. Hún fjallar um lestrarskilning og lestraránægju, og veltir sérstaklega fyrir sér hvaða möguleika áframhaldandi tækniþróun veitir prentleturshömluðum og hvaða kröfur skulu gerðar um aðgengi að rafbókum.

15.40 Pallborðsumræður

17.00 Léttar veitingar


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir