Allir lásu - í rúm sex ár! Úrslitin liggja fyrir í landsleiknum 2016, sigurvegarar koma alls staðar að af landinu

Sigurvegarar í landsleiknum koma alls staðar að af landinu og hafa þátttakendur samtals lesið í 54.800 klukkustundir, eða sem samsvarar rúmum sex árum!

25. febrúar, 2016

Eftir fjórar æsispennandi lestrarvikur eru úrslitin ljós í landsleiknum Allir lesa. Sigurvegarar í landsleiknum koma alls staðar að af landinu og hafa þátttakendur samtals lesið í 54.800 klukkustundir, eða sem samsvarar rúmum sex árum! 

Eftir fjórar æsispennandi lestrarvikur eru úrslitin ljós í landsleiknum Allir lesa. Sigurvegarar í landsleiknum koma alls staðar að af landinu og hafa þátttakendur samtals lesið í 54.800 klukkustundir, eða sem samsvarar rúmum sex árum!

Tvö sigurliðanna koma frá Vestmannaeyjum og er meðalaldur annars liðsins nokkuð hár, eða 82 ár. Íbúar í sveitarfélaginu Ölfusi lásu mest allra sveitarfélaga. Konur lásu þrisvar sinnum meira en karlar og börn undir 15 ára lásu langmest. Á keppnistímanum hafa hrannast inn spennandi tölur um lestur þátttakenda í Allir lesa, og hér neðar er það helsta tíundað.

Sigurliðin í hverjum flokki eru:

Opinn flokkur

  • Láki og félagar sigra í flokki liða með 3-9 liðsmenn en liðsmenn lásu að meðaltali í 4 sólarhringa og 18 klst. Liðið sigrar þar með í sínum flokki annað árið í röð!
  • Hjúkrunarheimilið Hraunbúðir sigrar í flokki liða með 10-29 liðsmenn, en heimilisfólk og starfsmenn lásu að meðaltali í 4 sólarhringa og 36 mínútur.

Vinnustaðaflokkur

  • Liðið Vonarpeningur (starfsfólk Safnahúss Vestmannaeyja) sigrar í flokki liða með 3-9 liðsmenn og lásu að meðaltali í 4 sólarhringa, 19 klst. og 18 mínútur.
  • Menntamálastofnun sigrar í flokki liða með 10-29 liðsmenn og lásu að meðaltali í 3 sólarhringa, 3 klst. og 24 mínútur.

Skólaflokkur

  • Fjögurra manna liðið Lestrarhestar Hagaskóla sigrar í flokki liða með 3-9 liðsmenn. Liðsmenn lásu að meðaltali í 2 sólarhringa, 14 klst. og 30 mínútur.
  • 3. og 4. bekkur Kirkjubæjarskóla á Síðu sigrar í flokki liða með 10-29 liðsmenn og lásu að meðaltali í einn sólarhring, 11 klst. og 36 mínútur.
  • Miðstig Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri sigrar í flokki liða með 30-50 liðsmenn. Lásu keppendur að meðaltali í einn sólarhring, 11 klst. og 6 mínútur.

Eitt lið stendur uppi sem heildarsigurvegari, en það er liðið Vonarpeningur, sex manna lið frá Safnahúsinu í Vestmannaeyjum. Skemmtilegt er frá því að segja að blásið var til leiks í Safnahúsinu þann 22. janúar og greinilegt að við það hefur mikið kapp hlaupið í lið starfsfólksins. Efstu liðin í hverjum flokki fyrir sig fá verðlaun og viðurkenningar.

Frábær þátttaka og mikil virkni 

Landsleikurinn vakti strax mikla athygli og bættist fjöldi nýrra lesenda í hóp þeirra sem tóku þátt í fyrsta leiknum haustið 2014. Á þeim fjórum vikum sem leikurinn stóð skráðu 1.802 einstaklingar í 237 liðum alls lestur upp á um 54.800 klukkustundir, sem samsvarar ríflega sex árum af samfelldum lestri. Alls voru 4.586 nýjar bækur skráðar á vefinn en gagnagrunnur hans vex sífellt og telur nú tæplega 15.000 íslenskar og erlendar bækur.

Vefurinn fínpússaður

Nokkrir lentu í vandræðum við innskráningu á upphafsdögum landsleiksins og mögulega snéru sumir ekki aftur til keppni. Það er miður því vefurinn er í eðli sínu mjög einfaldur og allir sem höfðu samband fengu úrlausn sinna mála. Það gleður okkur að tilkynna að leyst verður úr þessum tæknimálum áður en næsti leikur fer fram og ósk okkar að sem flestir taki þátt.

 Lesa konur meira?

Rétt eins og í síðustu keppni eru konur í miklum meirihluta, eða nær 73% þátttakenda. Þetta vekur upp ákveðnar spurningar, sem torvelt er að svara í fljótu bragði. Þýðir þetta að karlmenn lesi minna, eða einfaldlega að konur séu duglegri að skrá lesturinn? Margir minnast á spjaldtölvur og dagblöð í samhenginu en gaman væri að sjá karla koma sterka til leiks í næstu keppni.

Lestur eftir búsetu

Vestmannaeyingar hófu leik af miklu kappi, enda vildu þeir verja sigurinn frá því síðast. Strax í byrjun veittu Blönduósingar Eyjamönnum harða samkeppni en þegar halla fór á seinni hlutann reyndust öflugustu lestrarhestarnir koma frá sveitarfélaginu Ölfusi en þar var meðallestur 26 klukkutímar. Eins og í fyrra hafnaði Hveragerði í öðru sæti en Vestmanneyingar fylgdu á eftir í því þriðja. Þaðan komu þó tvö sigurlið, heildarsigurvegarinn Vonarpeningur og lið hjúkrunaheimilisins Hraunbúða þar sem aldursbilið milli yngsta og elsta liðsmanns var hálf öld og meðalaldurinn 82 ár.

Lestrardagbókin opin áfram

Þótt landsleiknum 2016 sé nú formlega lokið geta allir nýtt sér áfram vefinn allirlesa.is og haldið þar sína persónulegu lestrardagbók. Vefurinn er öllum opinn allt árið um kring og er skemmtileg leið fyrir alla að halda utan um lestrarvenjur sínar. Landsleikur í lestri fer svo aftur fram að ári.

Takk fyrir þátttökuna!

Aðstandendur landsleiksins þakka fyrir frábæra þátttöku og stórskemmtilegan landsleik! Aðstandendur eru Miðstöð íslenskra bókmennta og Reykjavík Bókmenntaborg með stuðningi frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir