Elísabet Jökulsdóttir, Guðbergur Bergsson, Hugleikur Dagsson og Kári Tulinius meðal gesta í Helsinki

Norðurlöndin í brennidepli á bókamessunni í ár

2. nóvember, 2016

Norræna menningargáttin (Kulturkontakt Nord), sendiráð Danmerkur, Noregs og Íslands í Helsinki ásamt menningarmiðstöðinni Hanaholmen í Svíþjóð og Pohjola-Norden í Finnlandi voru með sameiginlegan bás og stóðu að þrjátíu viðburðum á messunni.

Norðurlöndin voru í brennidepli á bókamessunni í Helsinki dagana 27. – 30. október. Norræna menningargáttin (Kulturkontakt Nord), sendiráð Danmerkur, Noregs og Íslands í Helsinki ásamt menningarmiðstöðinni Hanaholmen í Svíþjóð og Pohjola-Norden í Finnlandi voru með sameiginlegan bás og stóðu að þrjátíu viðburðum á messunni.

Meðal þátttakenda voru íslensku höfundarnir sem tilnefndir voru til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016; Guðbergur Bergsson fyrir Þrír sneru aftur og Elísabet Jökulsdóttir fyrir Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett. Þau tóku þátt í spjalli með tilnefndu höfundunum Linn Ullman, Sara Margrethe Oskal, Sirpa Kähkönen, Sabine Forsblom, Carina Karlsson og Sørine Steenholdt undir stjórn Oscar Rossi.

Hugleikur Dagsson ræddi um verk sín í tveimur dagskrárliðum á messunni en bækur hans hafa verið seldar í yfir 70 þúsund eintökum í Finnlandi og var hann í dagskránni kynntur sem vinsælasti Íslendingurinn þar í landi. Útgefandi Hugleiks í Finnlandi er Atena. Kári Tulinius, skáld og einn stofnenda Meðgönguljóða, spjallaði á laugardeginum við finnska skáldið Vilja-Tuulia Huotarinen um íslenskar nútímabókmenntir á samnorræna básnum og margir hlýddu á. Á lokadegi messunnar var dagskrá um íslenska nútímaljóðlist þar sem lesin voru ljóð á finnsku eftir skáldin Gerði Kristnýju, Sigurð Pálsson, Ingunni Snædal, Þórdísi Gísladóttur og Eirík Örn Norðdahl í þýðingu Tapio Koivukari.

Góður rómur var gerður að hátíðinni í ár og norrænu dagskránni sem þótti vel skipulögð og var vel sótt.

Elísabet Jökulsdóttir


Kári Tulinius

Hugleikur Dagsson 
 Guðbergur Bergsson

 


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir