Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna

Tíu þýðendur tilnefndir fyrir fimm verk, en fjögur þeirra hlutu þýðingastyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta

25. nóvember, 2016

Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna voru kynntar fimmtudaginn 24. nóvember 2016 í Menningarhúsinu Grófinni. Í ár voru tilnefndar fimm þýðingar og tíu þýðendur, en fjórar þýðinganna hlutu þýðingastyrki frá Miðstöð íslenskra bókmennta, sem óskar öllum þýðendunum innilega til hamingju með tilnefninguna.

Tilnefningar-til-Islensku-thydingarverdlaunanna-2016Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna 2016 voru kynntar fimmtudaginn 24. nóvember 2016 í Menningarhúsinu Grófinni. Í ár voru tilnefndar fimm þýðingar og tíu þýðendur, en fjórar þýðinganna hlutu þýðingastyrki frá Miðstöð íslenskra bókmennta, sem óskar öllum þýðendunum innilega til hamingju með tilnefninguna.

Íslensku þýðingaverðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 2005 fyrir vandaða þýðingu á fagurbókmenntaverki en verðlaunin voru stofnuð til að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskra bókmennta. Í dómnefnd sátu Tinna Ásgeirsdóttir (formaður), Ingunn Ásdísardóttir og Davíð Stefánsson.

 

Neydarutgangur Olga Holownia, Áslaug Agnarsdóttir, Bragi Ólafsson, Magnús Sigurðsson og Óskar Árni Óskarsson eru tilnefnd fyrir þýðingu á ljóðasafninu Neyðarútgangur eftir Ewu Lipska sem Dimma gefur út og fékk 250.000 kr styrk árið 2014.
Árni Óskarsson er tilnefndur fyrir þýðingu sína á Fjársjóðseyjunni eftir Robert Louis Stevenson sem Mál og menning gefur út og fékk 540.000 kr styrk árið 2015.
Uppljomanrogarstid_Rimbaud Sigurður Pálsson og Sölvi Björn Sigurðsson eru tilnefndir fyrir þýðingar á ljóðasöfnunum Uppljómanir & Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud sem JPV gefur út og hlaut 250.000 kr. styrk árið 2014.
 Verndargripur Ófeigur Sigurðsson er tilnefndur fyrir þýðinguna á skáldsögunni Verndargripur eftir Roberto Bolaño sem Sæmundur gefur út og hlaut 200.000 kr. styrk árið 2016.
 Shakespeare Hallgrímur Helgason er tilnefndur fyrir þýðingu á leikritinu Óþelló eftir William Shakespeare sem verður jólasýning Þjóðleikhússins 2016. Vaka-Helgafell gefur út.

Tilnefndir þýðendur og umsögn dómnefndar um verkin:

Árni Óskarsson fyrir þýðingu sína á Fjársjóðseyjunni eftir Robert Louis Stevenson sem Mál og menning gefur út. Fjársjóðseyjan er ein vinsælasta ævintýrasaga allra tíma og löngu tímabært að hún komi út óstytt í íslenskri þýðingu. Sagan er hvort tveggja í senn, heillandi ævintýri og gráglettin lýsing á breyskum og fláráðum mönnum. Bókina má öðrum þræði lesa sem viðbrögð Stevensons við bölsýnishugmyndum og efahyggju 19. aldar enda sver hún sig í ætt við gömul ævintýri þar sem málað er björtum, hreinum litum og hugarheimur og siðferði barnsins ræður ríkjum. Nákvæm og metnaðarfull túlkun Árna Óskarssonar á tærum stíl Stevensons kemur andrúmslofti sögunnar til skila á áreynslulausri og auðugri íslensku.

Olga Holownia ásamt Áslaugu Agnarsdóttur, Braga Ólafssyni, Magnúsi Sigurðssyni og Óskari Árna Óskarssyni fyrir þýðingu á ljóðasafninu Neyðarútgangur eftir Ewu Lipska sem Dimma gefur út. Neyðarútgangur er úrval úr öllum ljóðabókum Ewu Lipska og er fyrsta umfangsmikla íslenska þýðingin á höfundarverki eins fremsta ljóðskálds Pólverja. Lipska hefur skapað margbrotinn og ögrandi ljóðheim sem einkennist af íróníu, þverstæðum og yfirvegaðri meinfyndni, myndmálið er óvænt og frumlegt og myndlíkingar oft á mörkum súrrealisma. Það er fengur að íslenskum þýðingum á ljóðum eftir samtímaskáld og Neyðarútgangur er vel heppnað samvinnuverkefni undir ritstjórn Olgu Holownia þar sem þýðendurnir fimm leysa hverja þrautina á fætur annarri svo úr verður heilsteypt og veglegt ljóðasafn á tærri og lipurri íslensku.

Hallgrímur Helgason fyrir þýðingu sína á Óþelló eftir William Shakespeare. Vaka-Helgafell gefur út. Í annað sinn fetar Hallgrímur Helgason í fótspor þeirra Matthíasar Jochumssonar og Helga Hálfdanarsonar og þýðir leikrit eftir Shakespeare. Nú er það ástarharmleikurinn um máríska hershöfðingjann Óþelló, hefðarmeyna Desdemónu og svikarann Jagó. Verkið tekur á fjölmörgum málefnum sem eru ekkert síður í umræðu í dag en á tímum höfundarins, kynþáttaríg og fordómum, hlutskipti kynjanna og valdabrölti, og persónulegri þáttum – ást og hatri, afbrýði, grimmd og framhjáhaldi. Þýðing Hallgríms er afar vönduð, fyndin og léttleikandi og skilar merkingu textans á auðskiljanlegu og skýru máli.

Sigurður Pálsson og Sölvi Björn Sigurðsson fyrir þýðingar á ljóðasöfnunum Uppljómanir & Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud sem JPV gefur út. Arthur Rimbaud er einn af frumkvöðlum nútímaljóðagerðar og einn helsti forveri súrrealistanna. Ljóðasöfnin sem nú koma út í þýðingum Sigurðar Pálssonar og Sölva Björns Sigurðssonar, Uppljómanir & Árstíð í helvíti, eru tímamótaverk sem umbyltu vestrænni ljóðlist. Eitt helsta einkenni ljóða Rimbauds er sérkennileg hrynjandi, litadýrð og villtar myndir þar sem hver texti skapar litla veröld. Sigurði Pálssyni og Sölva Birni Sigurðssyni tekst með vönduðum og hugvitssamlegum þýðingum einkar vel að viðhalda sköpunarkrafti texta sem endurnýjar sig í hvert sinn sem hann er lesinn.  

Ófeigur Sigurðsson fyrir þýðingu á skáldsögunni Verndargripur eftir Roberto Bolaño sem Sæmundur gefur út. Bolaño er einn áhrifamesti höfundur sem komið hefur fram í hinum spænskumælandi heimi síðastliðna áratugi og í Verndargrip koma fram helstu höfundareinkenni hans, ofbeldi og duldir þræðir hins illa vefja sig um heiminn og frásagnarstíllinn er ákafur og flæðandi. Bókin er leyndardómsfullur og ástríðufullur óður til ljóðlistarinnar og veitir hlutdeild í einstakri sýn á lífið. Þýðing Ófeigs Sigurðssonar gerir orðfæri Bolaños og einkennandi setningabyggingu góð skil og í henni streymir frjó og kröftug rödd höfundar áreynslulaust fram á mergjuðu og skýru máli.

 


Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu - 2. júlí, 2025 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð frá 3. júlí til 5. ágúst.  Nánar

Karólína Rós Ólafsdóttir og Natan Jónsson hljóta Nýræktarstyrki í ár - 6. júní, 2025 Fréttir

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru veittir í átjánda sinn þann 5. júní. Styrkirnir eru 500.000 kr. og eru veittir til nýrra höfunda fyrir óbirt handrit. 

Nánar

Íslenskar bókmenntir á heimssýningunni í Japan - 2. júní, 2025 Fréttir

Rán Flygenring höfundur og Shohei Akakura japanski þýðandi hennar taka þátt í bókmenntaviðburðum á heimssýningunni sem nú stendur yfir í Osaka í Japan. 

 

Nánar

Allar fréttir