Nýræktarstyrki 2017 hljóta Fríða Ísberg fyrir Slitförina, safn ljóða, og Pedro Gunnlaugur Garcia fyrir skáldsöguna Ráðstefna talandi dýra

Nýræktarstyrkjum Miðstöðvar íslenskra bókmennta úthlutað í tíunda sinn

2. júní, 2017

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti styrkina við athöfn í Gunnarshúsi og óskaði við það tækifæri nýjum höfundum alls góðs í ritstörfunum. Þetta er í tíunda skipti sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað, en alls hafa hátt í fimmtíu höfundar hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi.

Fimmtudaginn 1. júní, veitti Miðstöð íslenskra bókmennta tveimur nýjum höfundum Nýræktarstyrki til útgáfu á verkum þeirra, en hvor styrkur nemur 400.000 kr. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti styrkina við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins og óskaði við það tækifæri nýjum höfundum alls góðs í ritstörfunum. Þetta er í tíunda skipti sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað, en alls hafa hátt í fimmtíu höfundar hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi.

Nýræktarstyrkir eru sérstakir styrkir til útgáfu á fyrstu skáldverkum höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum og til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit, eða eitthvað allt annað. Meðal höfunda sem hlotið hafa Nýræktarstyrki á liðnum árum eru Arngunnur Árnadóttir, Bergur Ebbi Benediktsson, Bryndís Björgvinsdóttir, Dagur Hjartarson, Halldór Armand Ásgeirsson, Kristín Ragna Gunnarsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir og Sverrir Norland. 

Í ár bárust 57 umsóknir um Nýræktarstyrki og er það metumsóknarfjöldi á þeim tíu árum sem styrkirnir hafa verið veittir. Verkin sem sótt var um fyrir eru af ýmsum toga s.s. skáldsögur, leikrit, ljóð, barna- og ungmennabækur, smásögur og glæpasögur og eru höfundar á öllum aldri. Eins og fyrr segir hlutu styrkina í ár skáldsaga og ljóðasafn. Að vali styrkhafa standa bókmenntaráðgjafar Miðstöðvar íslenskra bókmennta, sem í ár eru Helga Ferdinandsdóttir og Magnús Guðmundsson.

FileNýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2017 hljóta eftirtalin verk og höfundar:

Slitförin

Safn ljóða

Fríða Ísberg (f. 1992) stundar meistaranám í ritlist, hagnýtri ritstjórn og útgáfu við Háskóla Íslands og hefur verið virk í upplestra- og ljóðakvöldum. Slitförin er sextíu ljóða skáldverk, unnið sem 30 eininga meistaraverkefni í ritlist við Háskóla Íslands, undir leiðsögn Sigurðar Pálssonar. 

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

"Slitförin er safn ljóða sem fjalla á ágengan hátt um togstreituna við að brjótast undan áhrifavöldum bernskunnar og finna leiðina að eigin sjálfi. Leiðarstef verksins er sársaukinn sem sprettur úr nístandi sorg milli barns og foreldris. Ljóðin taka pláss, sýna afstöðu og grípa lesendur föstum tökum.“

File1Ráðstefna talandi dýra

Skáldsaga

Pedro Gunnlaugur Garcia (f. 1983) er portúgalsk-íslenskur með BA í félagsfræði og MA í hagnýtri menningarmiðlun. Pedro Gunnlaugur hefur unnið að skáldsögunni Ráðstefna talandi dýra í eitt og hálft ár samhliða starfi stuðningsfulltrúa í Háaleitisskóla.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

"Skáldsagan Ráðstefna talandi dýra er ekkert venjulegt byrjendaverk heldur viðamikil og þroskuð skáldsaga sem fléttar saman ólíka menningarheima á tvennum tímum, líf fólks, drauma og örlög. Frjótt ímyndunarafl í sterklega byggðri frásögn, á lifandi og skemmtilega stílaðri íslensku, mynda einstaka heild í heillandi skáldsögu."

Pedro-Gunnlaugur-Garcia-og-Frida-Isberg File5 Verdlaunahafar-med-radherra,-inni File-1
Gunnlaugur-les Frida-Isberg-les Kristjan-Thor-og-Hrefna Pedro-og-Frida
File--12- File--7- Gestir-1 Pedro-med-modur-og-kaerustu
Verdlaunahafar-med-radherra-uti-II Helga-Ferdinands-og-Bryndis-Lofts Gestir-2 File--8-

Fjöldi umsókna og veittra styrkja frá 2008-2017.Umsóknum um Nýræktarstyrki hefur fjölgað verulega frá því þeim var fyrst úthlutað hjá Bókmenntasjóði, forvera Miðstöðvar íslenskra bókmennta, árið 2008, en í þá bárust 9 umsóknir og 5 styrkir voru veittir, hver að upphæð 200.000 kr. Árið 2009 bárust 27 umsóknir og 6 hlutu styrki, árið 2010 bárust 39 umsóknir og voru 5 styrkir veittir og árið 2011 bárust 30 umsóknir og þá var úthlutað 5 styrkjum, að upphæð 200.000 kr. Árið 2012 bárust 23 umsóknir og voru 5 styrkir veittir, 2013 bárust 49 umsóknir og 4 verk hlutu styrk að upphæð 200.000 kr. Árið 2014 barst 31 umsókn um Nýræktarstyrkina og hlutu fjórir styrk að upphæð 250.000 kr. Árið 2015 voru umsóknirnar 51 og 5 hlutu styrk og var styrkupphæðin hækkuð í 400.000 kr. Árið 2016 bárust 35 umsóknir og 3 hlutu styrk og í ár bárust 57 umsóknir og 2 hlutu styrk eins og fyrr segir. 

Upplýsingar um Nýræktarstyrki og úthlutanir fyrri ára má finna hér.

Skipun starfshóps um bókaútgáfu og aðstæður hennar hér á landi.

Við athöfnina í Gunnarshúsi sagði Kristján Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra frá því að hann hefði ákveðið að skipa starfshóp til að setja af stað vinnu við bókmenningarstefnu þar sem íslensk bókaútgáfa og aðstæður hennar verði skoðaðar, því tryggja þurfi að áfram verði kleift að gefa hérlendis út vönduð fræðirit og kennsluefni. Í starfshópnum munu eiga sæti fulltrúar frá Félagi íslenskra bókaútgefenda, Rithöfundasambandi Íslands, Hagþenki, Miðstöð íslenskra bókmennta, mennta- og menningarmálaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti. 

 


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir