Handritin á heimslista UNESCO

6. ágúst, 2009

Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, hefur sett handritasafn Árna Magnússonar á sérstaka varðveisluskrá sína.

HandritMenningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, hefur sett handritasafn Árna Magnússonar á sérstaka varðveisluskrá sína. Frá árinu 1997 hefur stofnunin skrásett minjar sem þykja hafa ótvírætt varðveislugildi fyrir menningararf mannkyns. Safnið nefnist „Memory of the World“, eða „Minni veraldar“ og telur nú 193 minjar víðs vegar úr heiminum. Forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar, Guðrún Nordal, segir þessi gleðitíðindi vera staðfestingu á mikilvægi safnsins og sýni fram á að handritin eigi erindi við heim allan.

Í rökstuðningi UNESCO segir að handritasafn Árna Magnússonar sé ein mikilvægasta heimild um menningu Norðurlanda og stórs hluta Evrópu á miðöldum, endurreisnartímanum og nýöld. Ennfremur veiti þau ómetanleg dæmi um þá einstöku frásagnarhefð sem birtist í miðaldabókmenntum Íslendinga, bókmenntaverk sem eru lesin víða um heim á fjölmörgum tungumálum enn þann dag í dag. Í safninu eru mörg eintök af Íslendingasögunum sem eru tvímælalaust mikilvægur hluti af heimsbókmenntum, en þar má meðal annars að finna helstu heimildir Eddukvæða og Brennu-Njáls sögu.

Handritasafnið hefur að geyma sextán hundruð handrit og handritahluta úr safni Árna Magnússonar, auk á annað hundruð handrita úr Árnasafni í Kaupmannahöfn og fjölda fornbréfa sem Árni safnaði. Það er fyrst íslenskra minja til að komast í varðveisluskrána.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Allar fréttir

Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta tileinkað Sjón - 13. mars, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta efndi til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl 2025 en Miðstöðin hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. 

Nánar

Orðstír 2025 afhentur á Bessastöðum - 5. maí, 2025 Fréttir

Þýðendurnir Kim Lembek og Tatjana Latinovic hljóta heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á annað mál, en þau hafa þýtt fjölda íslenskra verka á sín móðurmál; Kim á dönsku og Tatjana á serbnesku og króatísku.

Nánar

Íslenskar bókmenntir taka flugið! - 21. mars, 2025 Fréttir

Grein eftir Hrefnu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtist í Vísbendingu 21. mars 2025. Vorhefti tímaritsins er tileinkað skapandi greinum.

Nánar

Allar fréttir