Níunda Bókmenntahátíðin í Reykjavík

10. september, 2009

Vikuna 6. – 12. september 2009 gefst Reykvíkingum kostur á að hlýða á upplestra, viðtöl og pallborðsumræður með íslenskum og erlendum rithöfundum.

Bókmenntahátíðin í Reykjavík er nú haldin í 9. sinn, en fyrsta hátíðin var haldin árið 1985 og að undanförnu hefur hún verið haldin annað hvert ár. Venju samkvæmt verður hátíðin í ár vettvangur innlendra og erlendra rithöfunda sem kynna verk sín og segja frá lífi sínu og störfum í formi upplestra, viðtala og pallborðsumræðna. Í stjórn Bókmenntahátíðarinnar sitja meðal annarra rithöfundarnir Sjón, Einar Kárason og Thor Vilhjálmsson, en formaður hennar er Sigurður Valgeirsson. Áhersla er lögð á að gefa íslenskum lesendum tækifæri til að kynnast erlendum höfundum, en líka á að styrkja sambönd höfunda og þýðenda innbyrðis.

Bókmenntahátíðin er öllum opin og aðgangur er ókeypis. Frá 6. – 12. september verða upplestrar í Norrænahúsinu og Iðnó. Í ár kynna meðal annars Steinar Bragi og Yrsa Sigurðardóttir verk sín. Meðal erlendra höfunda má nefna íranska rithöfundinn Kader Adbolah og verðlaunahafann Luis López Nieves frá Púertó Rico og lesa þeir báðir úr verkum sínum. Þekktasti höfundur hátíðarinnar er eflaust Michael Ondaatje, sem skrifaði bókina „The English Patient“ sem náði miklum vinsældum. Hann kemur hér í hópi kanadískra ljóðskálda.

Hátíðinni lýkur á laugardaginn  með útgefendamálþingi þar sem þemað er „Bókaútgáfa á 21. öld“ og ljóðadagskrá sem stendur allan eftirmiðdaginn.

Frekari upplýsingar um hátíðina og dagskrá hennar er að finna á www.bokmenntahatid.is



Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir