Þorsteinn frá Hamri hlýtur Jónasarverðlaunin

30. nóvember, 2009

Þorsteinn frá Hamri er meðal fremstu ljóðskálda Íslands, í ljóðum hans takast á gamlir og nýir siðir í skáldskap.

Þorsteinn frá HamriÞorsteinn frá Hamri, eitt virtasta og vinsælasta skáld þjóðarinnar, hlaut nýverið Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra veitti verðlaunin. Í rökstuðningi ráðgjafarrefndar verðlaunanna, skipuð af rithöfundunum Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, Kristjáni Árnasyni og Þórarni Eldjárn, segir m.a. :

„Ráðgjafarnefnd Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar var sammála um að mæla að þessu sinni með skáldi, Þorsteini frá Hamri. Þorsteinn frá Hamri kvaddi sér hljóðs fyrir hálfri öld og er meðal okkar fremstu skálda. Á miðri atómöld orti hann tvítugur að aldri undir dróttkvæðum hætti í bland við yngri og frjálsari form. Á mótunarárum Þorsteins tókust á gamall og nýr siður í skáldskap og hann hefur glímt við þessi siðaskipti með sérstökum hætti. Hin gamla íslenska ljóðhefð hefur alla tíð átt sterkar rætur í honum.“

Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, þann 16. nóvember, síðan árið 1996. Ljóð Þorsteins hafa verið þýdd á fjölda tungumála og birst í safnritum víða um heim.

Síðasta ljóðabók hans Hvert orð er atvik kom út í fyrra og hlaut einróma lof gagnrýnenda:

„Þorsteinn frá Hamri sendir frá sér sína bestu ljóðabók í mörg ár, Hvert orð er atvik. Það er gríðarlegur slagkraftur í þessari bók.“

Þröstur Helgason / Morgunblaðið

„Svo gott sem ómögulegt er að finna að listaverki manns sem hefur svo mögnuð tök á list sinni að manni verður orða vant. [...] Þorsteinn frá Hamri er einfaldlega í allra, allra fremstu röð íslenskra ljóðskálda, lífs og liðinna, og verður þar á meðan íslensk þjóð er til. Hvert orð er atvik er enn ein sönnun þess.“

* * * * ½ (fjórar og hálf stjarna)

Kristján H. Guðmundsson / DV


Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu - 2. júlí, 2025 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð frá 3. júlí til 5. ágúst.  Nánar

Karólína Rós Ólafsdóttir og Natan Jónsson hljóta Nýræktarstyrki í ár - 6. júní, 2025 Fréttir

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru veittir í átjánda sinn þann 5. júní. Styrkirnir eru 500.000 kr. og eru veittir til nýrra höfunda fyrir óbirt handrit. 

Nánar

Íslenskar bókmenntir á heimssýningunni í Japan - 2. júní, 2025 Fréttir

Rán Flygenring höfundur og Shohei Akakura japanski þýðandi hennar taka þátt í bókmenntaviðburðum á heimssýningunni sem nú stendur yfir í Osaka í Japan. 

 

Nánar

Allar fréttir