Ný ævisaga um Jón Leifs

4. desember, 2009

Út er komin ný ævisaga um Jón Lefs, eins merkasta listamanns Íslands á 20. öld, eftir Árna Heimi Ingólfsson

Jón LeifsTónskáldið Jón Leifs var einn merkasti og óvenjulegasti listamaður okkar á 20. öld. Í miðri heimsstyrjöldinni fyrri sigldi hann til Þýskalands, aðeins sautján ára gamall, staðráðinn í að leggja tónlistina fyrir sig þótt ekki hefði hann nema óljósan grun um hvað í því fælist. Hann kvæntist konu af gyðingaættum en bjó þó í Þýskalandi fram til ársins 1944, fluttist þá til Svíþjóðar þar sem ný ást og stór harmur biðu hans, og þaðan aftur heim til Íslands – í annars konar stríð og á vit enn nýrrar ástar.

Saga hans er saga manns sem um sumt var of stór fyrir Ísland þess tíma – stórbrotinn metnaður hans og bjargföst trú á heilaga köllun í tónlistinni varð honum bæði gæfa og ógæfa. Jón var um margt langt á undan sinni samtíð, varð fyrstur Íslendinga til að stjórna fullskipaðri sinfóníuhljómsveit, hljóðritaði íslensk þjóðlög þegar þau voru í litlum metum, stofnaði STEF, höfundarréttarsamtök tónskálda, og samdi tónlist sem mörgum þótti óþolandi hávaði en er af sumum nú talin með því merkasta sem gert hefur verið í íslenskri tónlist fyrr og síðar. Enn eru verk hans mikið spiluð í Þýskalandi.

Árni Heimir Ingólfsson, doktor í tónlistarfræðum frá Harvard-háskóla og tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, skráir lífshlaup Jóns Leifs í þessari dramatísku ævisögu og hefur velt við hverjum steini í leit sinni að heimildum um líf hans. Rannsóknir Árna Heimis á ævi og störfum Jóns hafa staðið í þrettán ár, og á þeim tíma hefur hann ritað fjölda greina um tónskáldið. Bók hans er einstakur lykill að lífi þessa umdeilda listamanns. Þetta er ítarleg ævisaga með heimildaskrám,, verkaskrá og nafnaskrá. Fjölda áður óbirtra ljósmynda er einnig að finna í bókinni. Mál og menning gefur út.

Jón Viðar Jónsson, gagnrýnandi DV, segir að allt annað sem skrifað hafi verið um Jón Leifs falli í skuggann á Líf í tónum: „Árni Heimir hefur oft sýnt hversu lagið honum er að fjalla um tónlist á faglegan og alþýðlegan hátt í senn, trúlega hefur honum aldrei tekist það betur en í þessu riti. [...] Um Jón Leifs hefur verið gerð vinsæl bíómynd, sænskur fræðimaður skrifaði um hann bók fyrir tíu árum og sitthvað annað hefur verið um hann ritað. En allt hverfur það í skuggann af þessari metnaðarfullu og vönduðu ævisögu. Jón Leifs hefur fengið þá umfjöllun sem hann verðskuldar.“

Páll Baldvin Baldvinsson hjá Fréttablaðinu segir bókina vera tímamótaverk: „Árni Heimir er að skila ákaflega vönduðu verki [...] með miklum samtímalegum heimildum, ítarlegum greiningum á helstu verkum Jóns sem settar eru fram á mannamáli og hljóta að opna öllum sem forvitnir eru að kynnast þessum merka íslenska tónsmið nýja gátt að verkum hans. Og þannig er ævisagan eftir Árna tímamótaverk. [...] Árni getur verið afar ánægður með sitt verk sem hlýtur að teljast eitt það merkilegasta sem komið er út á þessu ári og verður um langan aldur lykilverk um ævi þessa merkilega en breyska manns.“

Helgi Jónsson, gagnrýnandi Víðsjár, er á sama máli:  „Markar ákveðin tímamót í ritun íslenskrar tónlistarsögu. [...] Hreint út sagt frábær bók. [...] Ef ég væri að deila út stjörnum þá myndi ég gefa henni fullt hús. [...] Tímamótaverk.“


Allar fréttir

Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta tileinkað Sjón - 13. mars, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta efndi til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl 2025 en Miðstöðin hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. 

Nánar

Orðstír 2025 afhentur á Bessastöðum - 5. maí, 2025 Fréttir

Þýðendurnir Kim Lembek og Tatjana Latinovic hljóta heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á annað mál, en þau hafa þýtt fjölda íslenskra verka á sín móðurmál; Kim á dönsku og Tatjana á serbnesku og króatísku.

Nánar

Íslenskar bókmenntir taka flugið! - 21. mars, 2025 Fréttir

Grein eftir Hrefnu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtist í Vísbendingu 21. mars 2025. Vorhefti tímaritsins er tileinkað skapandi greinum.

Nánar

Allar fréttir