Tilnefningar til bókmenntaverðlauna

8. desember, 2009

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs voru kynntar í síðustu viku

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru kynntar við athöfn í Listasafni Íslands þriðjudaginn 1. desember síðastliðinn. Alls tíu bækur hlutu tilnefningu, fimm í flokki fagurbókmennta og fimm í flokki fræðirita.

Í flokki fagurbókmennta voru eftirtaldar bækur tilnefndar:
Böðvar Guðmundsson: Enn er morgunn, sem Uppheimar gefa út,
Guðmundur Óskarsson: Bankster, Ormstunga gefur út,
Gyrðir Elíasson: Milli trjánna, Uppheimar gefa hana út,
Steinunn Sigurðardóttir: Góði elskhuginn, í útgáfu Bjarts,
Vilborg Davíðsdóttir: Auður, Mál og menning gefur út.

Í flokki fræðirita og bóka almenns eðlis voru tilnefndar:
Helgi Björnsson: Jöklar á Íslandi, í útgáfu Opnu,
Kristín G. Guðnadóttir: Svavar Guðnason, í útgáfu Veraldar
Árni Heimir Ingólfsson: Jón Leifs – líf í tónum, Mál og menning gefur út,
Jón Karl Helgason: Mynd af Ragnari í Smára, Bjartur gefur út,
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir: Á mannamáli. Ofbeldi á Íslandi, JPV gefur hana út.

Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót árið 1989 af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Í tilefni af tuttugu ára afmæli verðlaunanna efndi félagið til netkosninga þar sem almenningi gafst kostur á að velja bestu verðlaunabækur síðustu tuttugu ára. Höfundurinn Andri Snær Magnason hlaut verðlaunin í báðum flokkum fyrir bækurnar Draumalandið – Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð í flokki fræðirita og Sagan af bláa hnettinum í flokki fagurbókmennta.

Tilnefningar Íslands til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs voru einnig kynntar í síðustu viku. Fyrir valinu urðu skáldsögurnar Ofsi eftir Einar Kárason og Konur eftir Steinar Braga. Tekin verður ákvörðun um verðlaunahafa í mars en afhending verðlaunanna fer fram á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík næsta haust.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir