Tilnefningar til bókmenntaverðlauna

8. desember, 2009

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs voru kynntar í síðustu viku

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru kynntar við athöfn í Listasafni Íslands þriðjudaginn 1. desember síðastliðinn. Alls tíu bækur hlutu tilnefningu, fimm í flokki fagurbókmennta og fimm í flokki fræðirita.

Í flokki fagurbókmennta voru eftirtaldar bækur tilnefndar:
Böðvar Guðmundsson: Enn er morgunn, sem Uppheimar gefa út,
Guðmundur Óskarsson: Bankster, Ormstunga gefur út,
Gyrðir Elíasson: Milli trjánna, Uppheimar gefa hana út,
Steinunn Sigurðardóttir: Góði elskhuginn, í útgáfu Bjarts,
Vilborg Davíðsdóttir: Auður, Mál og menning gefur út.

Í flokki fræðirita og bóka almenns eðlis voru tilnefndar:
Helgi Björnsson: Jöklar á Íslandi, í útgáfu Opnu,
Kristín G. Guðnadóttir: Svavar Guðnason, í útgáfu Veraldar
Árni Heimir Ingólfsson: Jón Leifs – líf í tónum, Mál og menning gefur út,
Jón Karl Helgason: Mynd af Ragnari í Smára, Bjartur gefur út,
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir: Á mannamáli. Ofbeldi á Íslandi, JPV gefur hana út.

Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót árið 1989 af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Í tilefni af tuttugu ára afmæli verðlaunanna efndi félagið til netkosninga þar sem almenningi gafst kostur á að velja bestu verðlaunabækur síðustu tuttugu ára. Höfundurinn Andri Snær Magnason hlaut verðlaunin í báðum flokkum fyrir bækurnar Draumalandið – Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð í flokki fræðirita og Sagan af bláa hnettinum í flokki fagurbókmennta.

Tilnefningar Íslands til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs voru einnig kynntar í síðustu viku. Fyrir valinu urðu skáldsögurnar Ofsi eftir Einar Kárason og Konur eftir Steinar Braga. Tekin verður ákvörðun um verðlaunahafa í mars en afhending verðlaunanna fer fram á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík næsta haust.


Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu - 2. júlí, 2025 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð frá 3. júlí til 5. ágúst.  Nánar

Karólína Rós Ólafsdóttir og Natan Jónsson hljóta Nýræktarstyrki í ár - 6. júní, 2025 Fréttir

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru veittir í átjánda sinn þann 5. júní. Styrkirnir eru 500.000 kr. og eru veittir til nýrra höfunda fyrir óbirt handrit. 

Nánar

Íslenskar bókmenntir á heimssýningunni í Japan - 2. júní, 2025 Fréttir

Rán Flygenring höfundur og Shohei Akakura japanski þýðandi hennar taka þátt í bókmenntaviðburðum á heimssýningunni sem nú stendur yfir í Osaka í Japan. 

 

Nánar

Allar fréttir