Velgengni á Norðurlöndum

30. desember, 2009

Glæsilegir dómar, verðlaun og vegleg umfjöllun. Þrír íslenskir höfundar gera það gott á Norðurlöndum.

Gerður Kristný, Þórarinn Leifsson og Hallgrímur Helgason hafa verið í kastljósinu undanfarnar vikur vegna mikillar velgengni á Norðurlöndum.

Gerður Kristný hlaut nýverið tilnefningu til Barnabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins fyrir barna- og unglingabókina Garðurinn, en verðlaunin eru veitt bókum sem þykja skara fram úr á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Í rökstuðningi dómnefndar er bókin sögð vera „gædd ríku innsæi í sálarlíf unglinga auk þess sem Gerður Kristný blandar saman ólíkum bókmenntagreinum og nýtir sér eiginleika draugasögunnar, fantasíunnar, þroskasögunnar og sögulegu skáldsögunnar,“. Verðlaunin verða veitt í ágúst 2010.

Þórarinn Leifsson fékk glæsilega umfjöllun í Politiken á dögunum, vegna barnabókar hans Leyndarmálið hans pabba, þar sem birt var tveggja blaðsíðna viðtal við hann í bókmenntakálfi blaðsins. Teikningar Þórarins prýddu auk þess bæði forsíðu dagblaðsins og bókakálfsins. Fréttablaðið greindi frá viðbrögðum Þórarins: „Ég er eiginlega í sjokki, ég vissi ekki að þetta yrði svona mikið [...]. Ég yrði sáttur við svona umfjöllun einu sinni á tíu árum,".  Nýjasta bók hans, Bókasafn Ömmu Huldar, kemur út í Danmörku næsta haust.

Bók Hallgríms Helgasonar, 10 ráð til að hætta að drepa og byrja að vaska upp, kom nýlega út í Danmörku í þýðingu Ellen Boen, en hún hefur hlotið afar jákvæðar móttökur hjá dönskum bókmenntagagnrýnendum. Jyllandsposten og Berlingske Tidende gáfu henni 5 stjörnur og Politiken gaf henni 4. Menningarritstjóri Jyllandsposten segir bók Hallgríms vera eina af tveimur bestu bókum síðasta hausts þar í landi og er Hallgrímur sagður jafnvel skáka helstu spennusagnahöfundum Íslands.


Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu - 2. júlí, 2025 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð frá 3. júlí til 5. ágúst.  Nánar

Karólína Rós Ólafsdóttir og Natan Jónsson hljóta Nýræktarstyrki í ár - 6. júní, 2025 Fréttir

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru veittir í átjánda sinn þann 5. júní. Styrkirnir eru 500.000 kr. og eru veittir til nýrra höfunda fyrir óbirt handrit. 

Nánar

Íslenskar bókmenntir á heimssýningunni í Japan - 2. júní, 2025 Fréttir

Rán Flygenring höfundur og Shohei Akakura japanski þýðandi hennar taka þátt í bókmenntaviðburðum á heimssýningunni sem nú stendur yfir í Osaka í Japan. 

 

Nánar

Allar fréttir