Velgengni á Norðurlöndum

30. desember, 2009

Glæsilegir dómar, verðlaun og vegleg umfjöllun. Þrír íslenskir höfundar gera það gott á Norðurlöndum.

Gerður Kristný, Þórarinn Leifsson og Hallgrímur Helgason hafa verið í kastljósinu undanfarnar vikur vegna mikillar velgengni á Norðurlöndum.

Gerður Kristný hlaut nýverið tilnefningu til Barnabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins fyrir barna- og unglingabókina Garðurinn, en verðlaunin eru veitt bókum sem þykja skara fram úr á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Í rökstuðningi dómnefndar er bókin sögð vera „gædd ríku innsæi í sálarlíf unglinga auk þess sem Gerður Kristný blandar saman ólíkum bókmenntagreinum og nýtir sér eiginleika draugasögunnar, fantasíunnar, þroskasögunnar og sögulegu skáldsögunnar,“. Verðlaunin verða veitt í ágúst 2010.

Þórarinn Leifsson fékk glæsilega umfjöllun í Politiken á dögunum, vegna barnabókar hans Leyndarmálið hans pabba, þar sem birt var tveggja blaðsíðna viðtal við hann í bókmenntakálfi blaðsins. Teikningar Þórarins prýddu auk þess bæði forsíðu dagblaðsins og bókakálfsins. Fréttablaðið greindi frá viðbrögðum Þórarins: „Ég er eiginlega í sjokki, ég vissi ekki að þetta yrði svona mikið [...]. Ég yrði sáttur við svona umfjöllun einu sinni á tíu árum,".  Nýjasta bók hans, Bókasafn Ömmu Huldar, kemur út í Danmörku næsta haust.

Bók Hallgríms Helgasonar, 10 ráð til að hætta að drepa og byrja að vaska upp, kom nýlega út í Danmörku í þýðingu Ellen Boen, en hún hefur hlotið afar jákvæðar móttökur hjá dönskum bókmenntagagnrýnendum. Jyllandsposten og Berlingske Tidende gáfu henni 5 stjörnur og Politiken gaf henni 4. Menningarritstjóri Jyllandsposten segir bók Hallgríms vera eina af tveimur bestu bókum síðasta hausts þar í landi og er Hallgrímur sagður jafnvel skáka helstu spennusagnahöfundum Íslands.


Allar fréttir

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2025 og Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans - 3. desember, 2025 Fréttir

Tilnefnd eru fimm verk í þremur flokkum Íslensku bókmenntaverðlaunanna, auk fimm verka til Íslensku glæasagnaverðlaunanna. Félag íslenskra bókaútgefenda stendur að verðlaununum. 

Nánar

Niðurstöður norrænnar könnunar um heildartekjur af útflutningi bókmennta - 2. desember, 2025 Fréttir

Samkvæmt könnuninni námu tekjur af bókmenntaútflutningi frá Norðurlöndunum nærri 78,5 milljónum evra árið 2024. Um það bil 4250 þýðingasamningar voru gerðir fyrir hönd norrænna höfunda.

Nánar

Íslensku bókahönnunarverðlaunin 2025: Tilnefningar - 19. nóvember, 2025 Fréttir

Tilkynnt hefur verið um tilnefningar til Íslensku bókahönnunarverðlaunanna 2025 en það eru Félag íslenskra bókaútgefanda (FÍBÚT) og Félag íslenskra teiknara (FÍT) sem standa að verðlaununum.

Nánar

Allar fréttir