Nýræktarstyrki í ár hljóta þau Guðmundur Magnússon, Nína Ólafsdóttir og Örvar Smárason
Miðstöð íslenskra bókmennta hefur úthlutað þremur Nýræktarstyrkjum til nýrra höfunda og nemur hver styrkur 500 þúsund krónum. 60 umsóknir bárust um Nýræktarstyrki í ár.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarráðherra afhenti Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta í Gunnarshúsi fimmtudaginn 2. júní.
-
Ólafur Jónsson, faðir Nínu Ólafsdóttur, Örvar Smárason og Guðmundur Magnússon
Fimmtudaginn 2. júní veitti Miðstöð íslenskra bókmennta þremur nýjum höfundum Nýræktarstyrki fyrir verk þeirra, en hver styrkur nemur hálfri milljón króna.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarráðherra afhenti styrkina í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins.
Valið úr innsendum handritum

Árlega veitir Miðstöð íslenskra bókmennta Nýræktarstyrki fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira. Nýræktarstyrkir hafa verið veittir frá árinu 2008; tveir til fimm styrkir í hvert sinn og valið er úr innsendum handritum. Að vali styrkhafa standa bókmenntaráðgjafar Miðstöðvar íslenskra bókmennta, með samþykki stjórnar. Í ár eru ráðgjafar þau Hanna Steinunn Þorleifsdóttir og Ingi Björn Guðnason.
Hrefna Haraldsdóttir framkvæmdastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta
60 handrit bárust
Í ár bárust 60 umsóknir um Nýræktarstyrki en í fyrra bárust 94 umsóknir en þá var metfjöldi sem sótti um.
Verkin sem hljóta viðurkenninguna í ár eru afar fjölbreytt, ein ljóðabók, ein skáldsaga og eitt smásagnasafn og yrkisefnin eru af ýmsum toga; baráttan við geðsjúkdóma, ægivald náttúrunnar á heimskautaslóðum og mörk hins hversdaglega og hins furðulega í lífi okkar.
Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2022 hljóta eftirtalin verk og höfundar:
Talandi steinar
Höfundur: Guðmundur Magnússon
Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:
Talandi steinar er ljóðabálkur þar sem dregin er upp áhrifarík mynd af dvöl ljóðmælanda á geðdeild og viðureign hans við sálarangist og söknuð. Höfundur yrkir af næmni og skilningi á viðfangsefninu og dregur upp sannfærandi mynd af ljóðmælanda og samferðafólki hans á deildinni. Myndmál bókarinnar er lágstemmt en sterkt og býr yfir breytilegum endurtekningum sem ljá verkinu ljóðræna dýpt. Þetta heildstæða verk býr yfir framvindu um leið og hvert ljóð stendur sjálfstætt sem sjónhending inn í tilveru þeirra sem glíma við geðsjúkdóma.
Þú sem ert á jörðu
Höfundur: Nína Ólafsdóttir
Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:
Skáldsagan Þú sem ert á jörðu lýsir á næman og grípandi hátt ægivaldi náttúrunnar á heimskautaslóðum, þar sem manneskjan ein má sín lítils. Höfundur skapar áþreifanlega nánd við óvægin náttúruöflin, teiknar upp harða lífsbaráttu í ísköldu vetrarríki og elur á óvissu um nánustu framtíð. Söguhetjan er ein til frásagnar og er hugarheimur hennar dreginn skýrum dráttum. Frásögnin er hljómfögur og myndræn, orðfærið ríkt og náttúrulýsingar ógnvænlegar.
Svefngríman
Höfundur: Örvar Smárason
Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:
Smásagnasafnið Svefngríman hefur að geyma átta sögur sem dansa á mörkum hversdagslegra frásagna og furðusagna. Höfundur hefur gott vald á smásagnaforminu, vinnur markvisst með afmörkuð sögusvið og samspil persónanna við ólík rými. Hann hefur næmt auga fyrir smáatriðum sem vega þó þungt í heildarmynd hverrar sögu fyrir sig. Sögurnar eru harmrænar og sársaukafullar en um leið hafa þær húmorískan undirtón.
Hér má lesa nánar um verkin og höfundana.
Fimmtánda úthlutun Nýræktarstyrkja
Þetta er í fimmtánda sinn sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað, en alls hafa rúmlega sjötíu höfundar hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi fyrir afar fjölbreytt verk. Meðal þeirra sem hlotið hafa Nýræktarstyrki eru höfundarnir Arndís Þórarinsdóttir, Fríða Ísberg, Sverrir Norland, Benný Sif Ísleifsdóttir, Hildur Knútsdóttir, Halla Þórlaug Óskarsdóttir, Dagur Hjartarson, Júlía Margrét Einarsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Kristín Ragna Gunnarsdóttir og Jakub Stachowiak svo aðeins nokkur séu nefnd.
Umsóknum um Nýræktarstyrki hefur fjölgað jafnt og þétt frá því þeim var fyrst úthlutað árið 2008 hjá Bókmenntasjóði, forvera Miðstöðvar íslenskra bókmennta, en þá bárust 9 umsóknir og 5 styrkir voru veittir, hver að upphæð 200.000 kr. Styrkupphæðin er nú 500.000 kr.
Hægt er að nálgast upplýsingar um styrkúthlutanir og styrkhafa fyrri ára hér.