Nýræktarstyrki í ár hljóta þau Magnús Jochum Pálsson og Margrét Marteinsdóttir

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur úthlutað tveimur Nýræktarstyrkjum til nýrra höfunda og nemur hvor styrkur 500 þúsund krónum. 57 umsóknir bárust um Nýræktarstyrki í ár.

1. júní, 2023

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarráðherra afhenti Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta í Gunnarshúsi fimmtudaginn 1. júní. 

Á myndinni eru Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarráðherra, Margrét Marteinsdóttir, Magnús Jochum Pálsson og Hrefna Haraldsdóttir. 

 

Fimmtudaginn 1. júní veitti Miðstöð íslenskra bókmennta tveimur nýjum höfundum Nýræktarstyrki fyrir verk þeirra, en hvor styrkur nemur hálfri milljón króna. Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarráðherra afhenti styrkina í Gunnarshúsi.

Valið úr innsendum handritum

Árlega veitir Miðstöð íslenskra bókmennta Nýræktarstyrki fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira. Nýræktarstyrkir hafa verið veittir frá árinu 2008; tveir til fimm styrkir í hvert sinn og valið er úr innsendum handritum. Að vali styrkhafa standa bókmenntaráðgjafar Miðstöðvar íslenskra bókmennta, með samþykki stjórnar. Í ár eru ráðgjafar þau Guðrún Steinþórsdóttir og Sölvi Sveinsson.

57 handrit bárust

Í ár bárust 57 umsóknir um Nýræktarstyrki en í fyrra var nær sami fjöldi umsókna eða um 60 talsins.

Verkin sem hljóta viðurkenninguna í ár eru ólík; ein ljóðabók og ein skáldsaga. Yrkisefnin eru margslungin; dökkar hliðar mannkynsins, fórnir og hringrás lífsins annars vegar og flöktandi minningar, bráðkvödd barnæska og löngunin til að endurskrifa örlög sín hins vegar.

Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2023 hljóta eftirtalin verk og höfundar:

Mannakjöt

Höfundur: Magnús Jochum Pálsson

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

Mannakjöt er heilsteypt og úthugsuð ljóðabók sem vekur lesandann til umhugsunar um dökkar hliðar mannkynsins og hvernig kunni að fara fyrir jörðinni breyti mannfólkið ekki hegðun sinni. Á frumlegan hátt yrkir höfundur um manneskjuna, græðgi hennar, fíkn og neyslu en einnig um hringrás lífsins, fjölskylduna, og allskyns fórnir jafnt á fólki og dýrum. Óvæntar myndir, forvitnilegar vísanir og skemmtilegur leikur að orðum og formi magna áhrif ljóðanna.

Höfundur: Magnús Jochum Pálsson er 25 ára ritlistarnemi og blaðamaður. Sumarið 2018 gaf hann út örsagnasafnið Óbreytt ástand. Síðan hafa ljóð og sögur birst eftir hann í tímaritum, ljóðasöfnum og útvarpi. Eftir að hafa lokið BA-námi í Íslenskum fræðum við Háskóla Íslands sumarið 2021 hóf hann meistaranám í ritlist við sama skóla. Samhliða námi hefur hann unnið við grunnskólakennslu og blaðamennsku, hvort tveggja störf sem hafa gefið honum innsýn inn í íslenskt samfélag. 

Grunnsævi

Höfundur: Margrét Marteinsdóttir

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið:

Grunnsævi er marglaga skáldsaga um 49 ára konu sem liggur banaleguna á elliheimili í Reykjavík. Áleitin frásögn um áföll og sársauka sem halda áfram að erfast milli kynslóða „þar til einhver stoppar í gatið“. Teflt er fínlega saman djúpri löngun til að ná stjórn á lífi sínu og getuleysi til að endurskrifa örlögin. Blærinn á sögunni er grípandi, stíllinn raunsæislegur og einstaklega myndrænn.

Höfundur: Margrét Marteinsdóttir er fædd árið 1971 og uppalin í Breiðholti. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og stundaði nám í sagnfræði og stjórnmálafræði við HÍ. Stærstan hluta starfsævinnar hefur Margrét unnið í fjölmiðlum. Hún starfaði hjá RÚV í 16 ár við dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi og sem fréttakona í sjónvarpi. Hún hefur komið víðar við undanfarin ár, meðal annars unnið á hjúkrunarheimilinu Grund, í Kvennaathvarfinu, á Gljúfrasteini og hjá Geðhjálp. Margrét starfar nú sem blaðakona á Heimildinni.

Sextánda úthlutun Nýræktarstyrkja

Þetta er í sextánda sinn sem Nýræktarstyrkjum Miðstöðvar íslenskra bókmennta er úthlutað, en alls hafa um áttatíu höfundar hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi fyrir afar fjölbreytt verk. Meðal þeirra sem hlotið hafa Nýræktarstyrki eru höfundarnir Pedro Gunnlaugur Garcia, Arndís Þórarinsdóttir, Fríða Ísberg, Sverrir Norland, Benný Sif Ísleifsdóttir, Hildur Knútsdóttir, Halla Þórlaug Óskarsdóttir, Dagur Hjartarson, Júlía Margrét Einarsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Kristín Ragna Gunnarsdóttir og Jakub Stachowiak svo aðeins nokkur séu nefnd.

Umsóknum um Nýræktarstyrki hefur fjölgað jafnt og þétt frá því þeim var fyrst úthlutað árið 2008 hjá Bókmenntasjóði, forvera Miðstöðvar íslenskra bókmennta, en þá bárust 9 umsóknir og 5 styrkir voru veittir, hver að upphæð 200.000 kr. Styrkupphæðin er nú 500.000 kr.

Hægt er að nálgast upplýsingar um styrkúthlutanir og styrkhafa fyrri ára hér.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir