Öflug bókmenning er hryggjarstykki íslenskunnar - tillögur til eflingar íslenskrar bókaútgáfu

Skýrsla starfshóps um gerð bókmenningarstefnu hefur verið gefin út og þar eru settar fram tillögur að aðgerðum sem ætlað er að styrkja íslenska bókaútgáfu, efla höfunda og tryggja börnum aðgang að góðum bókum og námsefni.

5. mars, 2018

Í skýrslunni eru settar fram tillögur að aðgerðum sem ætlað er að styrkja íslenska bókaútgáfu, efla höfunda og tryggja börnum aðgang að góðum bókum og námsefni.

  • Skyrsluforsida

Skyrsluforsida

Starfshópnum var ætlað að móta bókmenningarstefnu og skila tillögum um hvernig stuðningskerfi rithöfunda sé best háttað, námsbókaútgáfu, rafrænu námsefni og hljóðbókum, útgáfu barnabóka og kaupum safna á bókakosti. Í skýrslunni er fjallað um meginmarkmið bókmenningarstefnu sem nýtast í áframhaldandi vinnu og frekari útfærslu. 

,,Ég hef lagt mikla áherslu á að efla umhverfi bókaútgáfu á Íslandi. Bækur eru samofnar menntun og sögu lands og þjóðar. Við stöndum frammi fyrir ýmsum áskorunum þegar kemur að læsi barnanna okkar. Þessi skýrsla er mikilvægt innlegg í að takast á við þær og sækja fram af krafti í mennta- og menningarmálum. Ríkisstjórnin ætlar sér að gera betur í þessum málum og styðja við bókaútgáfu í landinu, meðal annars í gegnum virðisaukaskattskerfið eins og skýrt er kveðið á um í sáttmála stjórnarflokkanna,‘‘

sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Vinna skýrslunnar er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem íslensk tunga, læsi og skapandi og gagnrýnin hugsun er í forgrunni. Þá falla þau stefnumið og aðgerðir sem sett eru fram í skýrslunni að menningarstefnu landsins þar sem hlutverk íslenska ríkisins er að tryggja öllum börnum aðgengi að menningararfinum.

Í aðgerðaráætlun segir m.a. eftirfarandi um Miðstöð íslenskra bókmennta: 

Starfsemi Miðstöðvar íslenskra bókmennta er hornsteinn bókmenningar og bókaútgáfu í landinu, en eitt af meginhlutverkum hennar samkvæmt lögum er að úthluta styrkjum til útgáfu innanlands sem og þýðinga á íslensku og erlend mál. Auk þess styður miðstöðin við kynningu og útbreiðslu íslenskra bókmennta erlendis og rennir þannig um leið styrkari stoðum undir innlenda bókmenningu. Miðstöð íslenskra bókmennta er eini sjóðurinn sem útgefendur geta sótt í vegna útgáfu innlendra ritverka og skiptir meðal annars miklu að styrkir til útgáfu á stórvirkjum, fræðiritum og bókum sem hafa ótvírætt menningarlegt gildi verði efldir verulega. Heildarútgáfustyrkir vegna íslenskra ritverka námu 23.3 mkr. árið 2016 en þýðingar á íslensku voru styrktar um 18 mkr. 

Starfshópurinn leggur því til:  Að miðstöðin verði efld með að minnsta kosti 50% hækkun á árlegu framlagi til hennar.

Hér má lesa allt um tillögur hópsins: Skýrsla starfshóps um bókmenningarstefnu

Starfshópinn skipuðu:

Kristrún Lind Birgisdóttir formaður, skipuð án tilnefningar, 
Egill Örn Jóhannsson, tilnefndur af Félagi íslenskra bókaútgefenda,
Kristín Helga Gunnarsdóttir, tilnefnd af Rithöfundasambandi Íslands,
Salka Guðmundsdóttir, tilnefnd af Miðstöð íslenskra bókmennta,
Páll Valsson, skipaður án tilnefningar, 
Jón Yngvi Jóhannsson, tilnefndur af Hagþenki
Sigurður Guðmundsson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneyti.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir