Orðstír 2019. Þýðendurnir Silvia Cosimini og John Swedenmark hljóta viðurkenninguna í ár

3. maí, 2019

Heiðursverðlaun þýðenda íslenskra bókmennta á erlendar tungur, veitt í þriðja sinn á Bessastöðum.

Forseti Íslands afhenti heiðursverðlaunin Orðstír við hátíðlega athöfn á Bessastöðum föstudaginn 26. apríl og er það í þriðja sinn sem þau eru veitt. Tvö hljóta verðlaunin að þessu sinni; þýðendurnir Silvia Cosimini frá Ítalíu og John Swedenmark frá Svíþjóð.

Orðstír, heiðursverðlaun fyrir þýðingar íslenskra bókmennta á erlendar tungur, eru afhent annað hvert ár í tengslum við Bókmenntahátíð. Viðurkenningin er veitt einstaklingum sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim árangri að aukið hafi hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi.

Hrefna Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta, flutti ávarp við afhendinguna  og kynnti Orðstírshafana 2019. Í ávarpi sínu lýsti hún jafnframt markmiðum og tilgangi verðlaunanna og ræddi um mikilvægi góðra þýðenda fyrir íslenska menningu og útbreiðslu bókmenntanna.


Samanlagt 120 þýðingar á íslenskum verkum

Íslenskar bókmenntir eru víða í sókn. Það lætur nærri að þýðingar á erlend tungumál hafi þrefaldast síðastliðinn áratug. Ötulir þýðendur á borð við þau John Swedenmark og Silviu Cosimini eru greininni afar dýrmæt. Án þeirra væri þessi vegferð íslenskra bókmennta á erlendri grund ekki eins blómleg og raun ber vitni.

Silvia og John eru bæði mikilvirkir þýðendur með brennandi áhuga á íslenskum bókmenntum og tungu. Silvia hefur þýtt samtals um 70 verk úr íslensku á ítölsku og er jafnvíg á ólíkar bókmenntategundir. Meðal íslenskra höfunda sem hún hefur þýtt verk eftir má nefna Halldór Laxness, Hallgrím Pétursson, Guðberg Bergsson, Sjón, Svövu Jakobsdóttur og Arnald Indriðason. John hefur þýtt tæplega 50 verk úr íslensku á sænsku, meðal annars eftir rithöfundana Gerði Kristnýju, Jón Kalman, Þórarin Eldjárn, Lindu Vilhjálmsdóttur, Steinunni Sigurðardóttur og Gyrði Elíasson. Samanlagt hafa farið frá þeim einar 120 vandaðar þýðingar. Fjölhæfni þeirra og fagmennska er einstök og starf þeirra fyrir íslenskar bókmenntir ómetanlegt.

IMG_4181Dagskrá í Veröld, húsi Vigdísar

Þau Silvia og John komu fram með þeim Sigurbjörgu Þrastardóttur, rithöfundi og Þorleifi Haukssyni, fræðimanni, í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur, sunnudaginn 28. apríl.

IMG_4185

Um ORÐSTÍR

Að ORÐSTÍR standa Miðstöð íslenskra bókmennta, Bandalag þýðenda og túlka, Íslandsstofa, embætti Forseta Íslands og Bókmenntahátíð í Reykjavík. Í valnefnd að þessu sinni sátu fyrir hönd þessara aðila þau Kristján Jóhann Jónsson, Magnea J. Matthíasdóttir, Inga Hlín Pálsdóttir, Örnólfur Thorsson og Stella Soffía Jóhannesdóttir.


Allar fréttir

Ísland var í heiðurssæti á Les Boréales hátíðinni í Normandí og höfundarnir fengu stórkostlegar viðtökur. - 30. nóvember, 2023 Fréttir

Mikill áhugi er á íslenskum bókmenntum í Frakklandi og nú er svo komið að stór og virt frönsk forlög gefa út marga íslenska titla. Þennan einstaka árangur má einnig þakka framúrskarandi og afkastamiklum þýðendum íslenskra bókmennta á frönsku.

Nánar

Á undanförnum sex árum hefur notkun hljóðbóka aukist um 145% og lestur bóka dregist saman um 17% - 16. nóvember, 2023 Fréttir

Ný lestrarkönnun Miðstöðvar íslenskra bókmennta, í samvinnu við helstu aðila á bókmenntasviðinu, leiðir í ljós að þjóðin les eða hlustar að meðaltali á 2,4 bækur á mánuði og ver til þess 30 til 60 mínútum á dag. Helsta breyting á lestrarvenjum er verulega aukin notkun hljóðbóka. Einnig vekur athygli að sá hópur sem hefur lesið lítið sem ekkert fer stækkandi.

Nánar

Rán Flygenring og Eldgos hlutu barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023 - 3. nóvember, 2023 Fréttir

Í rökstuðningi dómefndarinnar segir að Rán hafi tek­ist að skapa mynda­bók fulla af sjón­ræn­um sprengi­krafti um þau áhrif sem villt og óhamin náttúra hafi á fólk og að mynd og texti fléttist listilega saman í fjöruga og sprenghlægilega sögu.

Nánar

Allar fréttir