Orðstír 2023 afhentur á Bessastöðum

Þýðendurnir Jacek Godek og Luciano Dutra hljóta heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á annað mál, en þeir hafa þýtt fjölda íslenskra verka á sín móðurmál; pólsku og portúgölsku

24. apríl, 2023

Heiðursviðurkenningin er veitt einstaklingum sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim árangri að aukið hafi hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi. 

  • Forsetahjónin Eliza Reid og Guðni Th. Jóhannesson með Orðstírshöfunum Luciano Dutra og Jacek Godek

Forseti Íslands afhenti heiðursviðurkenninguna Orðstír í fimmta sinn á Bessastöðum 21. apríl sl. Þeir tveir þýðendur sem hljóta viðurkenninguna í ár eru Luciano Dutra og Jacek Godek. Orðstír, heiðursviðurkenning þýðenda íslenskra bókmennta á erlendar tungur, eru afhent annað hvert ár á Bókmenntahátíð í Reykjavík. Heiðursviðurkenningin er veitt einstaklingum sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim árangri að aukið hafi hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi.

Brasilíski þýðandinn Luciano Dutra kom fyrst til Íslands árið 2002 að nema íslensku því hann vildi geta miðlað íslenskum miðaldabókmenntum í til samlanda sinna á portúgölsku. Hann lauk námi í íslensku og þýðingafræði og hefur síðan þýtt fjölmargar bækur á portúgölsku, meðal annars Rökkurbýsnir og Skugga-Baldur eftir Sjón og Engla alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson. Hann hefur líka verið ötull við ljóðaþýðingar og birtir reglulega þýðingar á norrænum ljóðum. Dutra stofnaði árið 2014 forlagið Sagarana sem hefur gefið út norræna höfunda, m.a. Josefine Klougart og Karl Ove Knausgaard.

Pólski þýðandinn Jacek Godek hefur þýtt úr íslensku á pólsku í meira en 50 ár. Hann bjó á Íslandi sem barn og gekk bæði í Melaskóla og Hagaskóla en lauk stúdentsprófi í Póllandi. Af öllum þeim fjölda verka sem Jacek hefur þýtt mætti nefna ljóð eftir Jónas Hallgrímsson og ljóðabókina Frelsi eftir Lindu Vilhjálmsdóttur en sú bók í pólskri þýðingu Jaceks hlaut verðlaunin European Poet of Freedom árið 2018. Jacek hefur verið öflugur talsmaður íslenskra bókmennta í Póllandi og skáldsögurnar sem hann hefur þýtt telja nokkra tugi. Nýlega komu út bækurnar Kláði eftir Fríðu Ísberg og Kvika eftir Þóru Hjörleifsdóttur í hans þýðingu og þessa stundina vinnur Jacek að nýrri þýðingu á 101 Reykjavík eftir Hallgrím Helgason og að þýðingu á Aprílsólarkulda eftir Elísabetu Jökulsdóttur, en hún var einmitt bekkjarsystir Jaceks í barnaskóla á Íslandi.

Þýðingar þessara tveggja mikilvirku þýðenda hafa ratað til ótal lesenda á portúgölsku og pólsku, kynnt þarlenda lesendur fyrir íslenskum bókmenntum og byggt mikilvægar brýr á milli landa. Bæði Jacek og Luciano eru sannkallaðir sendiherrar íslenskra bókmennta úti í heimi og einkar vel að Orðstír komnir. 

Að ORÐSTÍR standa Miðstöð íslenskra bókmennta, Bandalag þýðenda og túlka, Íslandsstofa, embætti forseta Íslands og Bókmenntahátíð í Reykjavík. Í stjórn að þessu sinni sátu fyrir hönd þessara aðila þau Gauti Kristmannsson, Guðrún C. Emilsdóttir, Kristjana Rós Guðjohnsen, Sif Gunnarsdóttir og Örnólfur Thorsson.


Allar fréttir

Norrænu bókmenntamiðstöðvarnar með sameiginlegan stand í Frankfurt - 8. október, 2025 Fréttir

Eftir mörg ár í umsjón Félags íslenskra bókaútgefenda verða breytingar á fyrirkomulagi á básnum í Frankfurt þegar Miðstöð íslenskra bókmennta slæst í hóp systurstofnana sinna á Norðurlöndum og verður þar með sameiginlegan norrænan bás, Halle 4.1, B17

Nánar

Afar vel sótt bókamessa í Gautaborg - 1. október, 2025 Fréttir

Íslenskar bókmenntir vöktu athygli á Bókamessunni í Gautaborg, þar sem fulltrúar Miðstöðvarinnar hittu norræna útgefendur og höfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Eiríkur Örn Norðdahl hlutu góðar viðtökur frá sænskum lesendum.

Nánar

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Allar fréttir