Rúmlega 50 milljónum úthlutað!

24. apríl, 2020

Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutar að þessu sinni hærri og fleiri styrkjum til útgáfu, þýðinga á íslensku og úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði.

Hærri heildarúthlutun sem nemur átta og hálfri milljón

Til að bregðast við áhrifum ríkjandi ástands hefur stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta ákveðið að úthluta fleiri og hærri styrkjum til bókaútgáfu og þýðinga en venja er, alls 51.5 milljónum króna. Þetta er því 8.5 milljónum hærra en í fyrra þegar 43 milljónum var veitt í sömu styrki.

Útgáfustyrkjapottur hækkar um tvær milljónir

Rúmum 28 milljónum króna hefur verið úthlutað í útgáfustyrki til 45 verka, sem er 2 milljóna króna hækkun milli ára. Alls bárust 69 umsóknir og sótt var um rúmar 65 milljónir. Von er á spennandi íslenskum verkum af ýmsum toga á næstunni.

Aldrei jafn miklu úthlutað til þýðinga á íslensku

Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutar nú rúmum 13 milljónum króna í 35 styrki til þýðinga á íslensku, í fyrri úthlutun ársins, þegar 50 umsóknir bárust. Aldrei hefur svo miklu verið úthlutað í einu úr sjóðnum. Til samanburðar var tæpum 10 milljónum króna úthlutað í 27 styrki í mars á síðasta ári. Þriðjungur styrkjanna nú fer til þýðinga barna- og ungmennabóka.

Barna- og ungmennabókasjóðurinn Auður úr 7 í 10 milljónir

Nú er í annað sinn veitt úr sjóðnum sem er ætlað að styrkja útgáfu vandaðra barna- og ungmennabóka sem skrifaðar eru á íslensku. Alls hlutu 32 verk styrki að þessu sinni og nemur heildarstyrkupphæð 10 milljónum króna sem er töluverð hækkun frá í fyrra þegar 7 milljónum króna var úthlutað til 20 verkefna.

Bækurnar sem hljóta styrki að þessu sinni eru af ýmsu tagi; langar textabækur fyrir ungmenni, myndríkar smábarnabækur og allt þar á milli.

Umsóknarfrestur um alla styrkina rann út um miðjan mars. Frétt um verkin, höfunda, þýðendur og útgefendur þeirra verður birt á næstu dögum.


Allar fréttir

Þýðendaþing Miðstöðvar íslenskra bókmennta tileinkað Sjón - 13. mars, 2025 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta efndi til alþjóðlegs þýðendaþings í Reykjavík dagana 28. og 29. apríl 2025 en Miðstöðin hefur haldið slík þing annað hvert ár frá árinu 2017 með þátttakendum víðs vegar að úr heiminum. 

Nánar

Orðstír 2025 afhentur á Bessastöðum - 5. maí, 2025 Fréttir

Þýðendurnir Kim Lembek og Tatjana Latinovic hljóta heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á annað mál, en þau hafa þýtt fjölda íslenskra verka á sín móðurmál; Kim á dönsku og Tatjana á serbnesku og króatísku.

Nánar

Íslenskar bókmenntir taka flugið! - 21. mars, 2025 Fréttir

Grein eftir Hrefnu Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem birtist í Vísbendingu 21. mars 2025. Vorhefti tímaritsins er tileinkað skapandi greinum.

Nánar

Allar fréttir