Rúmlega 50 milljónum úthlutað!

24. apríl, 2020

Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutar að þessu sinni hærri og fleiri styrkjum til útgáfu, þýðinga á íslensku og úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði.

Hærri heildarúthlutun sem nemur átta og hálfri milljón

Til að bregðast við áhrifum ríkjandi ástands hefur stjórn Miðstöðvar íslenskra bókmennta ákveðið að úthluta fleiri og hærri styrkjum til bókaútgáfu og þýðinga en venja er, alls 51.5 milljónum króna. Þetta er því 8.5 milljónum hærra en í fyrra þegar 43 milljónum var veitt í sömu styrki.

Útgáfustyrkjapottur hækkar um tvær milljónir

Rúmum 28 milljónum króna hefur verið úthlutað í útgáfustyrki til 45 verka, sem er 2 milljóna króna hækkun milli ára. Alls bárust 69 umsóknir og sótt var um rúmar 65 milljónir. Von er á spennandi íslenskum verkum af ýmsum toga á næstunni.

Aldrei jafn miklu úthlutað til þýðinga á íslensku

Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutar nú rúmum 13 milljónum króna í 35 styrki til þýðinga á íslensku, í fyrri úthlutun ársins, þegar 50 umsóknir bárust. Aldrei hefur svo miklu verið úthlutað í einu úr sjóðnum. Til samanburðar var tæpum 10 milljónum króna úthlutað í 27 styrki í mars á síðasta ári. Þriðjungur styrkjanna nú fer til þýðinga barna- og ungmennabóka.

Barna- og ungmennabókasjóðurinn Auður úr 7 í 10 milljónir

Nú er í annað sinn veitt úr sjóðnum sem er ætlað að styrkja útgáfu vandaðra barna- og ungmennabóka sem skrifaðar eru á íslensku. Alls hlutu 32 verk styrki að þessu sinni og nemur heildarstyrkupphæð 10 milljónum króna sem er töluverð hækkun frá í fyrra þegar 7 milljónum króna var úthlutað til 20 verkefna.

Bækurnar sem hljóta styrki að þessu sinni eru af ýmsu tagi; langar textabækur fyrir ungmenni, myndríkar smábarnabækur og allt þar á milli.

Umsóknarfrestur um alla styrkina rann út um miðjan mars. Frétt um verkin, höfunda, þýðendur og útgefendur þeirra verður birt á næstu dögum.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir