Þrisvar sinnum fleiri bækur þýddar á erlend mál nú en fyrir tíu árum!

Það má með sanni segja að íslenskar bókmenntir séu í sókn um allan heim sem sjá má á því að þýðingar á erlend tungumál hafa nær þrefaldast á síðustu tíu árum.

22. nóvember, 2018

  • Kilir-thydingar-nov-2018-nr-2

Metfjöldi þýðingastyrkja hjá Miðstöð íslenskra bókmennta í ár

Eitt af hlutverkum Miðstöðvar íslenskra bókmennta er að veita þýðingastyrki til að auka útbreiðslu bókmenntanna erlendis. Á þessu ári var metfjöldi úthlutana til þýðinga á erlend mál þegar Miðstöðin úthlutaði 106 styrkjum til þýðinga íslenskra verka á 31 tungumál. Til samanburðar má geta þess að fyrir tíu árum, árið 2008, var veittur 31 styrkur til þýðinga úr íslensku á 14 tungumál. Þetta er því meira en þreföldun á tíu árum á þeim fjölda íslenskra bóka sem ná til nýrra lesenda um heim allan. Einnig koma reglulega út íslenskar bækur á erlendum tungum án styrkja, svo fjöldi verka er mun meiri en þýðingastyrkirnir gefa til kynna. 

Styrkirnir geta skipt sköpum um útgáfu verka erlendis

Þýðingastyrkir geta skipt sköpum í þessu samhengi því þeir gera erlendum útgefendum oftar en ekki kleift að ráðast í verkið, að ógleymdum þýðendum sjálfum. Góðir þýðendur eru lykilfólk þegar kemur að útbreiðslu bókmennta og miðlun á önnur tungumál. 

Verðlaunaverkið Ör þýtt á fjölda tungumála

Á dögunum hlaut Auður Ava Ólafsdóttir bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2018 fyrir skáldsöguna Ör sem þegar hefur verið þýdd á dönsku, sænsku, frönsku, ungversku, norsku, ensku og ítölsku, og er væntanleg á tékknesku, spænsku, portúgölsku, kóresku og tyrknesku. Fyrri bækur Auðar hafa verið þýddar á fjölda tungumála og hún hefur eignast tryggan lesendahóp um heim allan, líkt og fjöldi annarra íslenskra höfunda.

Á hvaða tungumál er þýtt?

Tungumálin sem íslensku verkin verða þýdd á, með stuðningi Miðstöðvar íslenskra bókmennta, eru albanska, amharíska, arabíska, armenska, aserska, búlgarska, danska, enska, finnska, franska, færeyska, georgíska, gríska, hebreska, hollenska, ítalska, kínverska, króatíska, lettneska, makedónska, norska, portúgalska, pólska, rússneska, spænska, sænska, tékkneska, tyrkneska, ungverska, úkraínska og þýska.

Á meðfylgjandi mynd má sjá dæmi um nýlegar þýðingar, en vikulega berast til Miðstöðar íslenskra bókmennta eintök af íslenskum bókum í erlendum þýðingum, sem hlotið hafa þýðingastyrki Miðstöðvarinnar.


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir