Þrisvar sinnum fleiri bækur þýddar á erlend mál nú en fyrir tíu árum!

Það má með sanni segja að íslenskar bókmenntir séu í sókn um allan heim sem sjá má á því að þýðingar á erlend tungumál hafa nær þrefaldast á síðustu tíu árum.

22. nóvember, 2018

  • Kilir-thydingar-nov-2018-nr-2

Metfjöldi þýðingastyrkja hjá Miðstöð íslenskra bókmennta í ár

Eitt af hlutverkum Miðstöðvar íslenskra bókmennta er að veita þýðingastyrki til að auka útbreiðslu bókmenntanna erlendis. Á þessu ári var metfjöldi úthlutana til þýðinga á erlend mál þegar Miðstöðin úthlutaði 106 styrkjum til þýðinga íslenskra verka á 31 tungumál. Til samanburðar má geta þess að fyrir tíu árum, árið 2008, var veittur 31 styrkur til þýðinga úr íslensku á 14 tungumál. Þetta er því meira en þreföldun á tíu árum á þeim fjölda íslenskra bóka sem ná til nýrra lesenda um heim allan. Einnig koma reglulega út íslenskar bækur á erlendum tungum án styrkja, svo fjöldi verka er mun meiri en þýðingastyrkirnir gefa til kynna. 

Styrkirnir geta skipt sköpum um útgáfu verka erlendis

Þýðingastyrkir geta skipt sköpum í þessu samhengi því þeir gera erlendum útgefendum oftar en ekki kleift að ráðast í verkið, að ógleymdum þýðendum sjálfum. Góðir þýðendur eru lykilfólk þegar kemur að útbreiðslu bókmennta og miðlun á önnur tungumál. 

Verðlaunaverkið Ör þýtt á fjölda tungumála

Á dögunum hlaut Auður Ava Ólafsdóttir bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2018 fyrir skáldsöguna Ör sem þegar hefur verið þýdd á dönsku, sænsku, frönsku, ungversku, norsku, ensku og ítölsku, og er væntanleg á tékknesku, spænsku, portúgölsku, kóresku og tyrknesku. Fyrri bækur Auðar hafa verið þýddar á fjölda tungumála og hún hefur eignast tryggan lesendahóp um heim allan, líkt og fjöldi annarra íslenskra höfunda.

Á hvaða tungumál er þýtt?

Tungumálin sem íslensku verkin verða þýdd á, með stuðningi Miðstöðvar íslenskra bókmennta, eru albanska, amharíska, arabíska, armenska, aserska, búlgarska, danska, enska, finnska, franska, færeyska, georgíska, gríska, hebreska, hollenska, ítalska, kínverska, króatíska, lettneska, makedónska, norska, portúgalska, pólska, rússneska, spænska, sænska, tékkneska, tyrkneska, ungverska, úkraínska og þýska.

Á meðfylgjandi mynd má sjá dæmi um nýlegar þýðingar, en vikulega berast til Miðstöðar íslenskra bókmennta eintök af íslenskum bókum í erlendum þýðingum, sem hlotið hafa þýðingastyrki Miðstöðvarinnar.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir