Fréttir

Þrisvar sinnum fleiri bækur þýddar á erlend mál nú en fyrir tíu árum!

Þýðingar úr íslensku á erlend tungumál hafa nær þrefaldast á síðustu tíu árum og hafa íslenskar bækur nú verið þýddar á um fimmtíu tungumál. Það má því með sanni segja að íslenskar bókmenntir séu í sókn um allan heim.

8. nóvember, 2018 Fréttir

  • Kilir-thydingar-nov-2018-nr-2

Þýðingar úr íslensku á erlend tungumál hafa nær þrefaldast á síðustu tíu árum og hafa íslenskar bækur nú verið þýddar á um fimmtíu tungumál. Það má því með sanni segja að íslenskar bókmenntir séu í sókn um allan heim.  

Metfjöldi þýðingastyrkja 2018

Á þessu ári var metfjöldi úthlutana til þýðinga á erlend mál en 106 styrkjum var úthlutað til þýðinga íslenskra verka á 31 tungumál og er þar með met ársins 2017 slegið, en þá var úthlutað 96 styrkjum til þýðinga á 29 tungumál. Til samanburðar má geta þess að fyrir tíu árum, árið 2008, var veittur 31 styrkur til þýðinga úr íslensku á 14 tungumál. Þetta er því meira en þreföldun á  fjölda íslenskra bóka sem ná til nýrra lesenda um heim allan - á tíu árum.

Þýðendur mjög mikilvægir

Þýðingastyrkir eru þar mikilvægur þáttur og gera erlendum útgefendum oftar en ekki kleift að ráðast í að gefa út íslensk verk, að ógleymdum þýðendunum sjálfum. Þýðendur íslenskra bókmennta á erlendar tungur eru afar mikilvægir íslenskri menningu og geta skipt sköpum þegar kemur að útbreiðslu bókmennta og miðlun á önnur tungumál.

Verðlaunaverkið Ör þýtt á fjölda tungumála

Á dögunum hlaut Auður Ava Ólafsdóttir bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2018 fyrir skáldsöguna Ör sem er gott dæmi um íslenska bók sem þegar hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál; dönsku, sænsku, frönsku, ungversku, norsku, ensku og ítölsku, og er væntanleg á tékknesku, spænsku, portúgölsku, kóresku og tyrknesku. Fyrri bækur Auðar hafa einnig verið þýddar á fjölda tungumála og hún hefur eignast tryggan lesendahóp um heim allan líkt og fjöldi annarra íslenskra höfunda. 

Á hvaða tungumál er þýtt?

Eins og fram kemur hér ofar verða þau verk sem nýlega hlutu styrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta næstunni þýdd á  31 tungumál, sem eru albanska, amharic, arabíska, armenska, aserska, búlgarska, danska, enska, finnska, franska, færeyska, georgíska, gríska, hebreska, hollenska, ítalska, kínverska, króatíska, lettneska, makedónska, norska, portúgalska, pólska, rússneska, spænska, sænska, tékkneska, tyrkneska, ungverska, úkraínska og þýska. 

Stuðlað að aukinni útbreiðslu bókanna erlendis

Vikulega berast til Miðstöðar íslenskra bókmennta eintök af íslenskum bókum í erlendum þýðingum, sem hlotið hafa þýðingastyrki Miðstöðvarinnar, en eitt af hlutverkum hennar er að stuðla að aukinni útbreiðslu þeirra erlendis. Á meðfylgjandi mynd má sjá dæmi um nýlegar þýðingar.