„Þykir ákaflega vænt um alla mína höfunda“ Viðtal við Tone Myklebost þýðanda.

Tone Myklebost hlaut nýlega Orðstír, heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á erlend mál, ásamt Tinu Flecken þýðanda á þýsku. Í viðtali við Magnús Guðmundsson segir Tone segir að hún sé fyrst og fremst ákaflega þakklát fyrir þessa viðurkenningu.

27. október, 2021

Tone Myklebost hefur um árabil þýtt íslenskar bókmenntir á norsku. Í heildina hefur Tone þýtt hátt í 50 bækur og þar af eru allir íslenskir handhafar Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs síðustu tuttugu og fimm ár.

Hefur um árabil þýtt íslenskar bókmenntir á norsku.

Tone Myklebost hefur um árabil þýtt íslenskar bókmenntir á norsku. Á meðal höfunda sem Tone hefur þýtt má nefna Einar Kárason, Einar Má Guðmundsson, Auði Övu Ólafsdóttur, Jón Kalman Stefánsson, Gerði Kristnýju, Sjón, Gyrði Elíasson og tvö verk eftir Halldór Laxness. Í heildina hefur Tone þýtt hátt í 50 bækur og þar af eru allir íslenskir handhafar Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs síðustu tuttugu og fimm ár.

Ómetanleg uppskera


Tina-og-Tone-a-BessastodumTone og Tina Flecken taka við Orðstír á Bessastöðum

Tone hlaut nýlega Orðstír, heiðursviðurkenningu þýðenda íslenskra bókmennta á erlend mál, ásamt Tinu Flecken þýðanda á þýsku. Forseti Íslands afhenti þeim viðurkenninguna á Bessastöðum. Í viðtali við Magnús Guðmundsson segir Tone segir að hún sé fyrst og fremst ákaflega þakklát fyrir þessa viðurkenningu. „Það er svo gefandi þegar maður nær til fólks og það hefur gaman af því sem maður er að gera og er þakklátt. Það er uppskera sem er mér ómetanleg.“

Ég heiti Tone, ég er ellefu ára

„Mitt æskuheimili var fullt af bókum og blöðum. Mamma skrifaði og pabbi var blaðamaður sem tók við stöðu sendiherra Noregs á Íslandi þegar ég var ellefu ára.  Við mamma komum með Heklu frá Kristiansand og pabbi tók á móti okkur við bryggjuna í Reykjavík. Hann var ekki sérstaklega ánægður þegar hann sá að mamma hafði tekið með sér alla fjóra kettina okkar að heiman,“ segir Tone Myklebost hlæjandi þegar hún rifjar upp fyrstu kynni sín af Íslandi.

Gunnar og Tone á s

Tone og Gunnar á leið í skíðaferðalag


„Strax sama dag eftir að við komum gekk ég með einn köttinn í bandi út á Fjólugötuna þar sem við bjuggum. Þar sem ég stend þarna og þekki ekki sálu kemur strákur hjólandi eftir götunni, hjólar fram og til baka mörgum sinnum og skoðar þetta furðufyrirbæri: stelpa með kött í bandi, áður en hann að lokum stoppar. Þá sagði ég honum þetta eina sem ég kunni á íslensku: „Ég heiti Tone, ég er ellefu ára gömul.“ En það dugði til þess að hann bauð mér að koma með sér heim og við urðum vinir og fjölskylda hans að íslensku fjölskyldunni minni. Þessi drengur, sem var fyrsta manneskjan sem ég kynntist á Íslandi, var Gunnar Rafn Guðmundsson, leikari og ljúfmenni sem féll því miður frá árið 1993. Það var ekki síst vinátta mín við hann og hans góðu fjölskyldu sem batt mig snemma sterkum böndum við land og þjóð.“

Mamma vinsæl hjá Íslendingum

Terje-Mamma-Nils-og-tone_1635344017559

Terrý, móðir Tone, Nils og Tone. Myndin var tekin fyrir viðtal í Tímann 1966

Tone segir að sterk tengsl móður hennar við Ísland hafi einnig haft mikið að segja. „Mamma var reyndar alveg einstök kona. Eftir að við fluttum hingað skellti hún sér í íslenskunám í Háskólanum sem var mjög óvenjulegt á þessum tíma hjá konu í hennar stöðu sem sendiherrafrú. Fyrr en varði talaði hún málið reiprennandi og fyrir vikið var hún gríðarlega vinsæl hjá Íslendingum.

Bróðir minn Terrý sem var fimmtán ára var líka á Íslandi fyrsta árið og við vorum svolítið villtir krakkar. Stundum fórum við á hestbak út á Álftanesi og fengum að ríða út alein í kolniða myrkri í skammdeginu, þó að við höfðum varla lært að sitja hest. Við riðum eins og brjálæðingar, Terrý á undan og ég á eftir, út í hraunið. Þetta var stórhættulegt og ég svitna þegar þegar ég hugsa um það í dag. Terrý var settur í Hagaskóla í Z-bekkinn af því hann kunni ekki íslensku. En þar kynntist hann svo mörgum krökkum sem voru jafn villtir og hann sjálfur að hann var sendur heim til Noregs i heimavistarskóla árið eftir.”

Bað um Íslandsferð í fermingargjöf 

Aslaug-tone-imba-gunni-og-jenni-systkinin-a-Soleyjargotu

Systkinin á Sóleyjargötu 35: Áslaug, Tone, Imba, Gunni og Jenný.

Tone hins vegar dvaldi í tvö ár á Íslandi að þessu sinni. Hún var í Austurbæjarskóla í bekk með einstaklega góðum og skemmtilegum krökkum. Kennarinn þeirra var hinn landsþekkti rithöfundur Stefán Jónsson sem Tone segir að hafi verið alveg frábær. Eftir þetta hafi landið alltaf togað í hana. „Þegar ég fermdist bað ég um Íslandsferð í fermingargjöf því mér fannst alltaf miklu skemmtilegra að vera hér. Allt var svo öðruvísi og spennandi, þannig að ég hélt áfram að koma. Og þegar ég var aðeins sautján ára eignaðist ég barn, sem er auðvitað afskaplega íslenskt en afar óvenjulegt í Noregi,“ bætir hún við og brosir.

Alltaf verið hér með annan fótinn

Tone segir að hún hafi verið um tvítugt þegar hún tók saman við Ingólf Margeirsson og eignuðust þau tvö börn. „Við Ingólfur hittumst fyrst í íslenska sendiráðinu í Osló þegar ég var fjórtan ára. Pabbi var nýdáinn og mamma og ég bjuggum hjá Ástu og Hans G. Andersen í smátíma og þangað kom Ingólfur í heimsókn til Gunnars, sonar þeirra hjóna. Sex árum seinna tókum við Ingólfur svo saman í Stokkhólmi en bjuggum lengst af í Osló. Við áttum reyndar heima á Íslandi á árunum 1978 til 1980 svo ég kynntist því ágætlega að búa í íslensku samfélagi, þó að ég hafi ekki gert það nema í um fimm ár í heildina. Hins vegar hef ég alltaf verið hér með annan fótinn og bý alltaf að þeim sterku tengslum sem ég myndaði hér í æsku. Allt reyndist þetta mér dýrmætt þegar ég fór að takast á við að þýða íslenskar bókmenntir yfir á mitt eigið móðurmál.“

Þrjár bækur á fimm mánuðum og eftir það ekki aftur snúið

 Tone segir að hún hafi í raun lært íslenskuna úti á götu og að einu sinni hafi hún ákveðið að skella sér í háskóla til þess að læra málfræðina. „Þar komst ég að því að það voru allir miklu betri í þessu en ég þegar kom að þessum fræðilega grunni svo ég lét nokkrar vikur duga og forðaði mér. En ég hafði það hins vegar fram yfir þetta ágæta fólk að ég gat talað íslenskuna og mér hefur svo sem farið fram í málfræðinni með árunum.“

Tone starfaði sem blaðamaður á Aftenposten í þrettán ár og á þeim tíma skrifaði hún oft um Ísland. Árið 1990 fór hún svo á bókamessuna í Gautaborg þar sem hún hitti Halldór Guðmundsson, Örnólf Thorsson og Einar Kárason. „Þetta var ægilega skemmtilegt allt saman en þar kom upp sú hugmynd að ég tæki að mér að þýða Djöflaeyju Einars sem naut mikilla vinsælda á þessum tíma. Ég hafði aldrei þýtt neitt en þeir treystu mér, rétt eins og útgefandinn Aschehoug svo það varð úr að Djöflaeyjan varð mín fyrsta þýðing.

Það er óhætt að segja að ég hafi byrjað með látum því Aschehoug setti mér fyrir að þýða Eyjaþríleikinn allan á fimm mánuðum og það hafðist. Ég hef samt ekki þorað að kíkja á þetta lengi en man þó að ég fékk góða dóma og einn hafði á orði að það væri komin ný rödd á meðal þýðenda. Eftir það varð ekki aftur snúið.“

Hundleið á lokasprettinum

Tone segir að eftir þetta hafi verkefnin komið á færibandi en hún hafi þó haldið áfram að þýða samhliða blaðamennskunni í meira en áratug. „Ég þýddi því ekki svo mikið, en meðal annars Gyrði og Einar Má, en eftir að mamma dó 2003 breyttist þetta talsvert. Ég fór langt niður og þá tók það mikið á mig að vera í lausamennsku sem blaðamaður þar sem maður þarf að selja sig í verkefnin, en hins vegar komu þýðingarnar alltaf til mín án fyrirhafnar. Í framhaldinu tók ég því ákvörðun um að einbeita mér að þýðingunum og hef þar haft meira en nóg við að vera.“

Baekur-thyddar-af-Tone

Tone hefur þýtt fjöldann allan af íslenskum verkum

Aðspurð um hvort að starf þýðandans njóti virðingar í Noregi brosir Tone og segir. „Að þýða er ótrúlega mikil vinna, illa borgað og lítil upphefð. Þannig að það er ekki þess vegna sem ég geri það sem ég geri. Þetta með upphefðina hefur reyndar breyst eftir að Jón Kalman sló í gegn í Noregi. Ég man meira segja eftir því að hafa verið stödd í jarðaför árið 2016 þar sem kona komst að því að ég væri þýðandi Jóns Kalmans og ég vissi varla hvert blessuð konan ætlaði. Hún var algjörlega starstruck eins og sagt er,“ segir Tone og skellihlær við tilhugsunina og bendir á að þýðingarstarfið sé reyndar hörkuvinna.

„Að fara í gegnum kannski 500 blaðsíðna bók, fjórum eða fimm sinnum, er auðvitað til þess að æra óstöðugan. Þá tuða ég og segist aldrei ætla að gera þetta aftur en börnin mín hafa lengi bent mér á að það sé ekkert að marka slíkar yfirlýsingar því áður en ég viti af sé ég komin aftur að stað. Ég held að ástæðan sé sú að mér finnst svo gaman að byrja á einhverju nýju. Þá rekur nýjungagirnin og forvitnin mig áfram en ég get alveg játað að ég er oftar en ekki hundleið á þessu á lokasprettinum.“

Ómetanlegt spjall við Imbu

„Minn vandi er að ég er ákvarðanafælin að eðlisfari,“ bætir Tone við og bendir á að það sé auðvitað sérstaklega óheppilegt í starfi þýðandans. „Maður þarf að taka ákvarðanir allan daginn sem verða svo endanlegar í bókarformi. Allar þessar ákvarðnir eru mér erfiðar og stundum gera þær það að verkum að ég á erfitt með að sleppa handritinu frá mér vegna þess að mér finnst að ég gæti mögulega gert eitthvað enn betur. En á einhverjum tímapunkti verður maður auðvitað að láta verkið frá sér.“

Tone segist lítið gera af því að hafa samband við höfundana á meðan hún er í að þýða bók. Hins vegar njóti hún góðs af vináttu sinni við Ingibjörgu Guðmundsdóttur, stóru systur Gunnars Rafns, sem hún kynntist þegar hún var ellefu áru. „Af og til koma orð og jafnvel setningar þar sem mig grunar að merkingin geti verið tvíræð og jafnvel önnur og meiri. Þá er gott að hafa Imbu sem gefur sér tíma til þess að taka umræðuna og skoða þetta með mér og það hefur reynst mér ómetanlegt.“

Stundum við að missa trúna

Á ferlinum hefur Tone þýtt fjölda ólíkra höfunda en að sama skapi hefur henni farnast vel við að fanga ólíka stíla og blæbrigði. Aðspurð um hvort að aðkoma hennar að íslenskunni með því að læra af reynslunni en ekki akademíunni eigi þar sinn þátt segir hún það mikilvægasta sé eflaust að hún þekki mjög vel bæði land og þjóð. „Ég kom hingað sem barn, var hér sem unglingur og verið hér sem móðir. Hef verið hérna á mörgum skeiðum lífsins og þekki mikið af fólki úr öllum lögum samfélagsins, eiginlega er ekkert hér mér framandi. Auk alls þessa á ég mína íslensku fjölskyldu og vini sem ég held miklu sambandi við.

Í Noregi er ég álitin vera þessi íslenska

En stundum hafa þessi sömu tengsl líka gert það að verkum að ég hér um bil missi trú á þýðingunum. Þá finnst mér ég alls ekki ná í gegn öllum blæbrigðum tungumálsins sem ég svo sannarlega elska. Mér finnst skemmtilegt hvernig Íslendingar nota málið og mér þykir vænt um það. 

Tone-myklebost_1635344452974

Tone heimsækir Ísland reglulega

Þess vegna er það mér hjartans mál að reyna að koma því til skila en stundum reynist það þrautin þyngri. Það sem reynist mér hvað mikilvægast er að nota íslenskuna mikið. Ísland, fólkið og tungumálið, allt er þetta stór hluti af minni sjálfsmynd. Þannig að það er víst ekki að ástæðulausu að í Noregi er ég álitin vera þessi íslenska.“

Þýðingar eins og dómínóspil

Tone bendir líka á að þetta sé auðvitað ólíkt eftir höfundum. „Ég er búin að þýða fjölmarga íslenska höfunda í gegnum tíðina og hver einn og einasti hefur gefið mér ótrúlega mikið með sínum verkum. Fyrir vikið þykir mér ákaflega vænt um alla mína höfunda og vil þakka þeim hverjum og einum.

Sjálf er ég ljóðræn manneskja og sem dæmi skrifar Jón Kalman ákaflega ljóðrænan texta sem hentar mér vel, þrátt fyrir þessar löngu setningar þar sem maður þarf að gæta þess að hafa alla þræði í hendi sér. Þegar ég er svo kannski búin að þýða fimmhundruð síðna bók eftir Jón er ég ægilega glöð að setjast við með tvöhundruð síður eftir Auði Övu með sinn knappa og beina stíl en þegar á hólminn er komið getur jafnvel reynst enn erfiðara að koma því til skila á norsku.

Stundum tek ég ákvörðun seint í ferlinu um að snúa setningu við eða eitthvað í þá veruna en það hefur auðvitað alltaf afleiðingar. Breyting á einum stað kallar oft á að breyta á öðrum og þannig koll af kolli, þannig að þýðingar reynast oftar en ekki eins og dómínóspil þar sem allt þarf að standa rétt að endingu.“

Viðtalið tók Magnús Guðmundsson fyrir Miðstöð íslenskra bókmennta

 


Allar fréttir

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 17. apríl, 2024 Fréttir

Unglingasagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og myndlýst af Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Íslenskar bækur væntanlegar á 21 erlendu tungumáli - 15. apríl, 2024 Fréttir

Í fyrri úthlutun ársins voru veittir 55 styrkir til þýðinga íslenskra bóka á 21 tungumál, þar á meðal ensku, frönsku, pólsku, þýsku, úkraínsku, ítölsku, spænsku, sænsku, finnsku og færeysku.

Nánar

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 - 22. febrúar, 2024 Fréttir

Skáldævisagan Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur og skáldsagan Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir