Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Blóðdropans 2024

27. nóvember, 2024

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans 2024 voru kynntar 27. nóvember í Eddu, húsi íslenskunnar.

  • Mynd: Karítas,mbl.is

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans 2024 voru kynntar við hátíðlega athöfn í Eddu. Hér fyrir neðan má sjá tilnefningarnar ásamt umsögnum dómnefnda.

Bæði verðlaun verða afhent um mánaðamótin janúar-febrúar á komandi ári af forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur. Formenn dómnefndanna fjögurra, Björn Teitsson, Kristín Ásta Ólafsdóttir, Unnar Geir Unnarsson og Viðar Eggertsson munu koma saman ásamt forsetaskipuðum formanni, Kristínu Ingu Viðarsdóttur, og velja einn verðlaunahafa úr hverjum flokki. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk. Félag íslenskra bókaútgefenda kostar verðlaunin.

Íslensku bókmenntaverðlaunin voru fyrst veitt árið 1989 og er ætlað að draga fram athyglisverðustu útgáfubækur hvers árs. Þetta er í 36. sinn sem tilnefnt er til verðlaunanna.

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki skáldverka:

 

Ferdalok_72Arnaldur Indriðason
Ferðalok
Útgefandi: Vaka Helgafell

Einstaklega vel unnin söguleg skáldsaga sem dregur upp nýja og ferska sýn af skáldinu kunna. Saman við ljóð Jónasar og síðustu daga fléttast minningabrot úr fortíð hans í meistaralega vel skrifuðum texta. Léttur og fljótandi stíll málar upp mynd sem lætur engan ósnortinn.

Himintungl-yfir-heimsins-ystu-brunJón Kalman Stefánsson
Himintungl yfir heimsins ystu brún
Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa

Sagt frá magnþrungnum atburðum í sögu þjóðarinnar í upphafi 17. aldar með nýjum hætti og þeir túlkaðir með hliðsjón af hugmyndum vísindamanna þess tíma um heiminn. Lifandi og frumleg persónusköpun byggir á þekktum sögulegum persónum. Leiftrandi frásagnargleði með öguðum en liprum texta og sterkum skírskotunum til samtímans.

JardljosGerður Kristný
Jarðljós
Útgefandi: Mál og menning

Áleitin ljóð sem fjalla um mannleg örlög í nútíð og fortíð þar sem grimm alvara og lævís kímni vegast á. Í kaldhömruðum textanum er hljómgaldur og taktur tungunnar nýttur til fulls og meitlað myndmál túlkar heitar tilfinningar.

Moldin-heitBirgitta Björg Guðmarsdóttir
Moldin heit
Útgefandi: Drápa

Með léttum og hrífandi ritma er lesendum boðið upp í dans. Smám saman brýst út tilfinningaþrungin frásögn í listilega uppbyggðri skáldsögu. Listrænn en jafnframt aðgengilegur texti sem ætti að höfða til allra.

 

Modurast-draumthingKristín Ómarsdóttir
Móðurást: Draumþing
Útgefandi: Mál og menning

Sögulegur frásagnagaldur sem hverfist um unga stúlku sem verður að konu á sumarsólstöðum. Nýstárlegur og óvenjulegur frásagnarstíll. Hrífandi fíngerður og ljóðrænn glitvefur ofinn af meistara höndum.

Dómnefnd skipuðu:
Gunnlaugur Ástgeirsson, Kris Gunnars og Viðar Eggertsson sem jafnframt var formaður dómnefndar.

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki barna- og ungmennabóka:

 

Kasia-og-magdalendaHildur Knútsdóttir
Kasia og Magdalena
Útgefandi: JPV útgáfa

Sterk og hrífandi ástarsaga þar sem ungmenni takast á við erfiðar heimilisaðstæður sem fléttast saman við raunveruleika sem getur verið bæði flókinn og hættulegur.

Kaerokeppnin

Embla Bachmann og Blær Guðmundsdóttir, myndhöfundur
Kærókeppnin
Útgefandi: Bókabeitan

Hröð og spennandi saga full af fjöri og húmor sem fjallar um spaugilegar hliðar samkeppninar um fyrsta sambandið og hversu mikilvæg vináttan er.

SigrunISafninu_72

Sigrún Eldjárn
Sigrún í safninu
Útgefandi: Mál og menning

Fróðlegt og forvitnilegt ferðalag um Þjóðminjasafn Íslands, séð með augum barns um æskustöðvar sem eiga sér engan líka. Lesandinn fær innsýn í lífið á safninu og í gegnum einstakar myndir og texta lifnar það við og vekur áhuga ungra lesenda á íslenskri sögu og menningu.

TjorninRán Flygenring
Tjörnin
Útgefandi: Angústúra

Hugljúf og lærdómsrík saga sem snertir á málefnum eins og vináttu, samvinnu og umhverfi og hvað getur gerst þegar eitthvað fer úrskeiðis eða ekki verður lengur ráðið við aðstæður. Hinn einstaki myndheimur bókarinnar styrkir söguna og á stundum tala myndirnar sínu máli og gera texta óþarfan.

Kukur-piss-og-prumpSævar Helgi Bragason og Elías Rúni, myndhöfundur
Vísindalæsi 5 - Kúkur, piss og prump
Útgefandi: JPV útgáfa

Fræðandi og skemmtileg bók um viðfangsefni sem við þekkjum öll en lítið er rætt um. Höfundi tekst með hnittnum og hispurslausum hætti að fræða lesandann um kunnugleg en viðkvæm málefni án þess að það verði vandræðalegt eða leiðinlegt auk þess að koma fram með áhugaverðan og oft skrítinn fróðleik.

Dómnefnd skipuðu:
Einar Eysteinsson, Kristín Ásta Ólafsdóttir, formaður dómnefndar og Sigríður Wöhler.

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:

Born_i_Reykjavik_72Guðjón Friðriksson
Börn í Reykjavík
Útgefandi: Mál og menning

Vandað og tímabært verk sem veitir innsýn í hvernig þróun samfélagsins hafði áhrif á aðbúnað, menntun og lífshætti barna og hvernig þau öðluðust nýja stöðu sem fullgildir þjóðfélagsþegnar í gegnum þessar breytingar. Höfundur setur umfangsmikið verk fram á fróðlegan og skemmtilegan hátt, þar sem umhyggja gagnvart viðfangsefninu skín víða í gegn. Fallegar myndir bókarinnar gefa aukin hughrif og gera bókina aðgengilega fyrir alla aldurshópa.

ListdansIngibjörg Björnsdóttir
Saga listdans á Íslandi
Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag

Glæsilegt og áhugavert verk þar sem höfundur miðlar af mikilli þekkingu og innsýn sögu þessarar fallegu og mikilvægu listgreinar á Íslandi, allt frá upphafi hennar. Þróun hennar í áranna rás er lýst og hvernig henni óx ásmegin fyrir tilverknað þeirra sem ruddu brautina af framsýni, þrautseigju, listrænum metnaði og hugrekki.

Svipur-brotannaÞórir Óskarsson
Svipur brotanna - Líf og list Bjarna Thorarensen
Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag

Vel unnið og áferðarfallegt verk þar sem feikilegur fróðleikur er dreginn saman og settur fram á skýran og áhugaverðan hátt um þetta margslungna höfuðskáld okkar Íslendinga sem að mörgu leyti var á undan sinni samtíð. Verkið gefur einstaka sýn inn í líf hans og skoðanir og víðfeðm áhrif hans á mörgum sviðum þjóðfélagsins og gefur góðan vitnisburð um pólitískan og bókmenntalegan hugsunarhátt öndverðrar 19. aldar.

Oli-kAnna Dröfn Ágústsdóttir
Óli K.
Útgefandi: Angústúra

Glæsilegt verk um einn helsta frumkvöðul í þróun fjölmiðla á Íslandi. Ljósmyndir Óla K. voru áhrifamiklar og spegluðu samtímann, með bæði næmni listamannsins og nákvæmni fréttamannsins. Heimildavinna og texti höfundar gefa myndunum aukið vægi og setja sögu Íslands á 20. öld, hversdagslífs jafnt sem stórviðburða, í mikilvægt samhengi. Verkið undirstrikar vægi ljósmynda í söguvitund okkar, þegar þær eru oftar en ekki samofnar hugmyndum okkar og skynjun um lífið og tilveruna á öldinni sem Ísland óx úr grasi.

Tonar-utlaganna-_Kapa-v01-002-scaledÁrni Heimir Ingólfsson
Tónar útlaganna - Þrír landflótta tónlistarmenn sem mótuðu íslenskt menningarlíf
Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag

Einstakt verk um einstaka listamenn, sem lögðu öðrum fremur grunninn að því tónlistarlífi sem við njótum í dag á Íslandi. Ástríða höfundar fyrir viðfangsefninu er áþreifanleg, sem mikil og metnaðarfull heimildavinna ber vitni um. Verk sem á stöðugt erindi við okkur sem menningarþjóð og um leið áminning um mikilvægi og ávinning þess að taka vel á móti fólki sem þarf á aðstoð að halda.

Dómnefnd skipuðu:
Björn Teitsson, formaður dómnefndar, Kristín Ýr Pétursdóttir og Þorvaldur Sigurðsson.

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans:

BrudumeistarinnÓskar Guðmundsson
Brúðumeistarinn
Útgefandi: Storytel

Vel uppbyggð saga þar sem atburðir úr fortíðinni varpa dökkum skugga á nútímann. Sögufléttan er snjöll og framvindan traust, þar sem hver vendipunktur styrkir heildina. Spennan er óslitin allt til loka, og höfundi tekst listilega að viðhalda leyndardómnum sem heldur lesandanum í heljargreipum.

Daudinn-einn-var-vitniStefán Máni
Dauðinn einn var vitni
Útgefandi: Sögur útgáfa

Lögreglumaðurinn Hörður Grímsson stendur frammi fyrir óljósri en ógnandi hótun í hrífandi glæpasögu sem þróast í óvænta spennu með hasar og hraðri framvindu. Frásagnarstíllinn er sjónrænn og áhrifaríkur, með vel útfærðri sögufléttu sem heldur lesandanum föstum í spennu allt til loka.

Kvoldid-sem-hun-hvarfEva Björg Ægisdóttir
Kvöldið sem hún hvarf
Útgefandi: Veröld

Spennandi bók þar sem lögreglukonan Elma tekst á við flókið og marglaga sakamál. Glæpasagan fangar lesandann með vel útfærðri ráðgátu og djúpri persónusköpun sem dregur fram mannlega þætti í hörðum aðstæðum. Höfundurinn lýsir heimi sem er þrunginn óvissu og spennu, þar sem óvæntir vendipunktar halda lesandanum á tánum frá fyrstu síðu til hinnar síðustu.

TyndurRagnheiður Gestsdóttir
Týndur
Útgefandi: Björt bókaútgáfa

Vel heppnuð og spennandi saga um lítinn dreng sem lifir í heimi ofbeldis í Reykjavík. Höfundi tekst vel að lýsa ógnandi umhverfi en þar leynist einnig góðvild og manngæska. Rannsókn lögreglukonunnar Hönnu Maríu er leidd áfram af næmi og skarpskyggni, og spennan helst óslitin allt til síðustu blaðsíðu.

VolundurSteindór Ívarsson
Völundur
Útgefandi: Storytel og Sögur Útgáfa

Áhugaverð og spennandi frásögn af óhugnanlegum atburðum sem gerast um miðja síðustu öld en enduróma inn í samtímann. Höfundur dregur fram sálarangist útskúfaðra og tengir nútímaviðburði á listilegan hátt við myrk illvirki fortíðarinnar, í áhrifaríkri og hugvitsamlega uppbyggðri sögu sem heldur lesandanum hugföngnum til enda.

Dómnefnd skipuðu:
Ásrún Matthíasdóttir, Mjöll Snæsdóttir og Unnar Geir Unnarsson, formaður dómnefndar.


Allar fréttir

Rúmur helmingur þjóðarinnar ver 30 mínútum eða meira í lestur á dag - 15. nóvember, 2024 Fréttir

Meðal niðurstaðna í nýrri lestrarkönnun Miðstöðvar íslenskra bókmennta, í samstarfi við helstu aðila á bókmenntasviðinu, má sjá að að lestur er almennt mikill í flestum þjóðfélagshópum.

Nánar

Miðstöð íslenskra bókmennta hluti af evrópsku samtökunum ENLIT - 28. október, 2024 Fréttir

Samtökin eru skipuð 27 stofnunum um alla Evrópu sem eiga það sameiginlegt að styðja við og styrkja þýddar bókmenntir og stuðla að útbreiðslu þeirra. 

Nánar

Allar fréttir