Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis 2017

Tilkynnt hefur verið um hvaða tíu bækur og höfundar hljóta tilnefningu til Viðurkenningar Hagþenkis í ár. Viðurkenningin, sem er 1.250.000 kr., verður veitt 28. febrúar nk.

7. febrúar, 2018 Fréttir

Tilkynnt hefur verið um hvaða tíu bækur og höfundar hljóta tilnefningu til Viðurkenningar Hagþenkis í ár. Viðurkenningin, sem er 1.250.000 kr., verður veitt 28. febrúar nk.

 • Verðlaun Hagþenkis

 


Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis 2017 voru kynntar af formanni Hagþenkis, Jóni Yngva Jóhannssyni, í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Borgarbókasafnið fimmtudaginn 1. feb. í Borgarbókasafni, Grófarhúsi.
Viðurkenning Hagþenkis verður veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni 28. febrúar nk og felst í sérstöku viðurkenningarskjali og 1.250.000 kr. Á Degi bókarinnar þann 23. apríl standa Hagþenkir og Borgarbókasafnið að fyrir kynningu á tilnefndum bókum í samstarfi við höfunda þeirra. 

Efirfarandi höfundar og rit hlutu tilnefningu: 

 

 • Aðalheiður Jóhannsdóttir. Inngangur að skipulagsrétti – lagarammi og réttarframkvæmd. Háskólaútgáfan. Heildstætt rit um flókinn heim skipulagsréttar. Handbók sem gagnast bæði lærðum og leikum.
 • Ásdís Jóelsdóttir. Íslenska lopapeysan – uppruni, saga og hönnun. Háskólaútgáfan. Margþætt rannsókn í textílfræði sem lýsir samspili handverks, hönnunar og sögu prjónaiðnaðar í fallegri útgáfu.
 • Egill Ólafsson og Heiðar Lind Hansson. Saga Borgarness I og II. – Byggðin við Brákarpoll og Bærinn við brúna. Borgarbyggð og Opna. Áhugaverð saga sem á sér skýran samhljóm í þróun Íslandsbyggðar almennt, studd ríkulegu og fjölbreyttu myndefni.
 • Hjálmar Sveinsson og Hrund Skarphéðinsdóttir. Borgin – heimkynni okkar. Mál og menning. Fróðleg hugvekja og framlag til þjóðfélagsumræðu um skipulag, lífshætti og umhverfismál í borgarsamfélagi.
 • Stefán Arnórsson. Jarðhiti og jarðarauðlindir. Hið íslenska bókmenntafélag. Einstaklega ítarlegt rit um auðlindir í jörðu og brýn áminning um að huga að sjálfbærni við nýtingu náttúruauðæfa.
 • Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson. Ójöfnuður á Íslandi – skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi. Háskólaútgáfan. Skýr og aðgengileg greining á þróun eigna og tekna á Íslandi og misskiptingu auðs í alþjóðlegum samanburði.
 • Steinunn Kristjánsdóttir. Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir. Sögufélag og Þjóðminjasafn Íslands. Umfangsmikil og vel útfærð rannsókn sem varpar nýju ljósi á sögu klausturhalds á Íslandi. Frásagnarstíll höfundar gefur verkinu aukið gildi.
 • Unnur Jökulsdóttir. Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk. Mál og menning. Óvenju hrífandi frásagnir af rannsóknum við Mývatn og sambandi manns og náttúru.
 • Úlfar Bragason. Frelsi, menning, framför – um bréf og greinar Jóns Halldórssonar. Háskólaútgáfan. Næm lýsing á sjálfsmynd, væntingum og viðhorfum vesturfara við aðlögun þeirra að samfélagi og menningu Norður-Ameríku.
 • Vilhelm Vilhelmsson. Sjálfstætt fólk – vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld. Sögufélag. Aðgengilegt og vel skrifað rit sem sýnir hvernig vinnufólk fyrri tíma gat haft áhrif á bága stöðu sína með hversdagslegu andófi og óhlýðni.


Viðurkenningarráð Hagþenkis er ævinlega skipað fimm félagmönnum til tveggja ára i senn í því eru: Auður Styrkársdóttir, Guðný Hallgrímsdóttir, Henry Alexander Henrysson, Helgi Björnsson og Sólrún Harðardóttir.