Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis kynntar

11. febrúar, 2021 Fréttir

Tíu rit eru tilnefnd og hlýtur eitt þeirra Viðurkenningu Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, sem verður veitt í byrjun mars.

Til­kynnt var þann 10. febrúar hvaða tíu bæk­ur eru til­nefnd­ar til Viður­kenn­ing­ar Hagþenk­is, fé­lags höf­unda fræðirita og kennslu­gagna, fyr­ir árið 2020. Viður­kenn­ingin verður veitt í mars og hlýtur verðlaunahafinn 1.250.000 krón­ur.

Hagþenk­ir hef­ur frá 1986 veitt viður­kenn­ingu fyr­ir fræðirit, náms­gögn eða aðra miðlun fræðilegs efn­is til al­menn­ings. Viður­kenn­ing­ar­ráð Hagþenk­is, skipað fimm fé­lags­mönn­um af ólík­um fræðasviðum, stend­ur að val­inu en ráðið skipa Auðunn Arn­órs­son, Árni Ein­ars­son, Helga Birg­is­dótt­ir, Kol­brún S. Hjalta­dótt­ir og Lára Magnús­ar­dótt­ir.

Eftirfarandi verk og höfundar eru tilnefnd:

  • Ásdís Lovísa Grét­ars­dótt­ir og Erna Jessen. Náms­efni í dönsku á grunn­skóla­stigi. Mennta­mála­stofn­un og Náms­gagna­stofn­un. „Heild­stætt og vandað náms­efni í dönsku. Metnaðarfullt og fjöl­breytt höf­und­ar­verk þar sem margra ára sam­starf tveggja reynslu­mik­illa kenn­ara nýt­ur sín.“
  • Berg­ljót Soffía Kristjáns­dótt­ir. Fræðaskjóða. Bók­mennta­fræði fyr­ir for­vitna. Bók­mennta- og list­fræðistofn­un Há­skóla Íslands. Sæmund­ur. „Ítar­leg og skemmti­leg um­fjöll­un um bók­mennta­fræði. Hug­tök eru skýrð á ný­stár­leg­an hátt með mý­mörg­um dæm­um. Mik­ill feng­ur fyr­ir áhuga­fólk um bók­mennt­ir.“
  • Gísli Páls­son. Fugl­inn sem gat ekki flogið. Mál og menn­ing. „Læsi­leg og þörf bók þar sem hug­mynd­in um út­rým­ingu og enda­lok dýra­teg­und­ar er skoðuð frá óvenju­legu sjón­ar­horni.“
  • Gunn­ar Þór Bjarna­son. Spænska veik­in. Mál og menn­ing. „Vel skrifuð bók þar sem stjórn­mál­um á ör­laga­tím­um er fim­lega fléttað sam­an við sög­ur ein­stakra manna og fjöl­skyldna með vandaðri sagn­fræði.“
  • Hjör­leif­ur Hjart­ar­son og Rán Flygenring. Hest­ar. Ang­ú­stúra. „Teflt er sam­an göml­um sög­um og nýj­um, skemmti­leg­um texta og líf­leg­um mynd­um í bók sem bæði fræðir og gleður.“
  • Jón Hjalta­son. Fædd­ur til að fækka tár­um. Ká­inn. Ævi og ljóð. Völu­spá út­gáfa. „Kveðskap­ur­inn tal­ar sínu máli í hlý­legri frá­sögn af ævi drykk­fellda hagyrðings­ins og stemn­ing­in fyr­ir skáld­skap í dag­legu lífi Vest­ur-Íslend­inga verður næst­um áþreif­an­leg.“
  • Kjart­an Ólafs­son. Um Komm­ún­ista­flokk­inn og Sósí­al­ista­flokk­inn. Draum­ar og veru­leiki. Stjórn­mál í end­ur­sýn. Mál og menn­ing. „Merk sam­an­tekt á sögu ysta vinst­ris­ins í ís­lensk­um stjórn­mál­um á 1930-1968 frá sjón­ar­hóli manns sem sjálf­ur var í innsta hring þeirr­ar hreyf­ing­ar.“
  • Kristján Leós­son og Leó Kristjáns­son †. Íslenski krist­all­inn sem breytti heim­in­um. Mál og menn­ing. „Fróðlegt ferðalag um eðlis­fræðisögu ljóss­ins og mik­il­vægt hlut­verk silf­ur­bergs frá Íslandi í henni.“
  • Pét­ur H. Ármanns­son. Guðjón Samú­els­son húsa­meist­ari. Hið ís­lenska bók­mennta­fé­lag. „Vandað og ít­ar­legt yf­ir­lits­rit um ævi og verk Guðjóns Samú­els­son­ar. Verðugur minn­is­varði um mann­inn sem mótaði bygg­ing­ar­list og skipu­lags­mál hins ný­sjálf­stæða Íslands.“
  • Sig­urður Ægis­son. Íslensku fugl­arn­ir og þjóðtrú­in. Bóka­út­gáf­an Hól­ar. „Ríku­lega myndskreytt og frum­legt verk um ís­lenska varp­fugla með marg­vís­leg­um fróðleik, ljóðum og frá­sögn­um af sam­búð nátt­úru og manns.“

Allar fréttir

Aldrei hafa jafn margar umsóknir um útgáfustyrki borist Miðstöð íslenskra bókmennta - 30. apríl, 2021 Fréttir

Bækur um bókmenntir, náttúru, byggingalist, sagnfræði, hönnun, þjóðmál, tungumál og ýmislegt fleira hljóta útgáfustyrki í ár.

Nánar

36 styrkir veittir til þýðinga á íslensku úr ensku, frönsku, latínu, spænsku, katalónsku og þýsku - 30. apríl, 2021 Fréttir

Verk eftir höfundana Olgu Tokarczuk, Alejandro Palomas, Carson Ellis, Friedrich Hölderlin, Kim Thuy, Hal Sirowitz , Barböru Demick og marga fleiri hlutu þýðingastyrki.

Nánar

23 verk hljóta styrk úr barna- og ungmennabókasjóðnum Auði, sem nú er úthlutað úr í þriðja sinn - 30. apríl, 2021 Fréttir

Markmiðið með Auði er að efla útgáfu vandaðra bóka á íslensku fyrir yngri lesendur, myndríkar bækur sem og textabækur, fræðibækur, skáldverk og allt þar á milli.

Nánar

Allar fréttir