Tími til að lesa!

Lestrarverkefnið Tími til að lesa dregur heiti af ríkjandi aðstæðum í samfélaginu, þegar meiri tími gefst til lestrar en oft áður og þörfin fyrir hugarleikfimi er mikil. Íslendingar eru hvattir til að skrá allan sinn lestur á timitiladlesa.is

2. apríl, 2020

Orðaforði eykst, nýjar hugmyndir kvikna, skilningur á lesmáli batnar og þannig skilningur á heiminum öllum. Þá styður aukinn lestur við skapandi störf rithöfunda og þýðenda. Því meira sem við lesum því betra! Skráum allan lestur okkar á timitiladlesa.is 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur nú hleypt af stokkunum lestrarverkefni fyrir þjóðina, þar sem börn og fullorðnir eru hvött til að nýta til lesturs þann tíma sem gefst við núverandi aðstæður.

Lestur er sérstaklega mikilvægur fyrir börn, enda ræðst námsárangur barna að stórum hluta af lesskilningi sem eykst með auknum lestri. Lestur veitir fullorðnum örvandi hvíld frá amstri og áhyggjum dagsins og með lestri aukum við saman veg íslenskrar tungu. Orðaforði eykst, nýjar hugmyndir kvikna, skilningur á lesmáli batnar og þannig skilningur á heiminum öllum. Þá styður aukinn lestur við skapandi störf rithöfunda og þýðenda. Því meira sem við lesum því betra!

Lestrarverkefnið kallast Tími til að lesa. Heitið er dregið af aðstæðunum sem nú eru uppi, þar sem margir hafa meiri tíma en áður til að lesa og þörfin fyrir hugarleikfimi hefur sjaldan verið meiri. Árangurinn er mældur í tíma, þar sem Íslendingar eru hvattir til að skrá allan sinn lestur á vefsíðunni timitiladlesa.is. Þar geta þátttakendur líka fylgst með sameiginlegum lestri þjóðarinnar frá degi til dags. Á næstu fjórum vikum munu þar safnast upp ýmsar upplýsingar um lestur, hugmyndir að lesefni fyrir ólíka aldurshópa, hvatningarmyndbönd frá rithöfundum og öðrum sem segja okkur hvað og hvar þeim finnst gaman að lesa.

Verkefnið mun standa til 30. apríl og að því loknu verður þess freistað að fá afraksturinn skráðan í Heimsmetabók Guinness. Slíkt hefur ekki verið gert áður og því yrði um að ræða fyrsta heimsmet sinnar tegundar. Metið gæti orðið viðmið annarra þjóða, eða okkar sjálfra til að bæta með tíð og tíma.

Umgjörð og útlit verkefnisins tekur mið af markmiðinu, þar sem ætlunin er að virkja keppnisskap þjóðarinnar. Merki verkefnisins svipar til merkja íþróttafélaga, keppnistreyjur verða veittar heppnum þátttakendum í lok verkefnisins og leitað verður samstarfs víða til að virkja sem flesta. Ef vel tekst til, gæti verkefnið orðið góður vitnisburður bókaþjóðarinnar Íslendinga um allan heim.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir