Þýðendurnir Tina Flecken og Tone Myklebost hljóta Orðstírinn 2021

Orðstír, heiðursviðurkenning til þýðenda íslenskra bókmennta á erlendar tungur, eru afhent annað hvert ár í tengslum við Alþjóðlega bókmenntahátíð í Reykjavík.

13. september, 2021

Viðurkenningin er veitt einstaklingum sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim árangri að aukið hafi hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi. 

Forseti Íslands afhenti heiðursverðlaun Orðstír í fjórða sinn á Bessastöðum föstudaginn 10. september síðastliðinn. Verðlaunahafarnir í ár eru Tina Flecken og Tone Myklebost.

Ordstir1

Orðstír, heiðursviðurkenning til þýðenda íslenskra bókmennta á erlendar tungur, eru afhent annað hvert ár í tengslum við Alþjóðlega bókmenntahátíð í Reykjavík. Viðurkenningin er veitt einstaklingum sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim árangri að aukið hafi hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi.

Þýski þýðandinn Tina Flecken hefur um árabil unnið ómetanlegt starf við að færa þýskumælandi lesendum íslenskar bókmenntir. Meðal þýðinga Tinu, sem þýtt hefur tugi íslenskra bóka af fjölbreyttum toga, má nefna verk eftir Andra Snæ Magnason, Yrsu Sigurðardóttur, Sigríði Hagalín Björnsdóttur, Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Sjón.

Tone Myklebost hefur í þrjá áratugi þýtt bækur fjölmargra og ólíkra íslenskra höfunda á norsku við góðar viðtökur og hlaut árið 2019 verðlaun norsku þýðendasamtakanna fyrir störf sín. Tone hefur meðal annars þýtt verk þeirra Jóns Kalmans Stefánssonar, Einars Más Guðmundssonar, Halldórs Laxness, Gerðar Kristnýjar og Auðar Övu Ólafsdóttur.

Þýðingar þessara tveggja mikilvirku kvenna hafa ratað til ótal lesenda á þýsku og norsku málsvæðunum, kynnt þá fyrir íslenskum bókmenntum og þar með opnað dýrmætar dyr milli landa og menningarheima. Báðar hafa þær eftirtektarvert vald á stíl og blæbrigðum ólíkra skálda og bókmenntagreina. Þær eru einkar vel að Orðstír komnar.

Um ORÐSTÍR

Að ORÐSTÍR standa Miðstöð íslenskra bókmennta, Bandalag þýðenda og túlka, Íslandsstofa, embætti Forseta Íslands og Bókmenntahátíð í Reykjavík. Í stjórn að þessu sinni sátu fyrir hönd þessara aðila þau Salka Guðmundsdóttir, Guðrún C. Emilsdóttir, Kristjana Rós Guðjohnsen, Örnólfur Thorsson og Stella Soffía Jóhannesdóttir. 


Allar fréttir

Norrænu bókmenntamiðstöðvarnar með sameiginlegan stand í Frankfurt - 8. október, 2025 Fréttir

Eftir mörg ár í umsjón Félags íslenskra bókaútgefenda verða breytingar á fyrirkomulagi á básnum í Frankfurt þegar Miðstöð íslenskra bókmennta slæst í hóp systurstofnana sinna á Norðurlöndum og verður þar með sameiginlegan norrænan bás, Halle 4.1, B17

Nánar

Afar vel sótt bókamessa í Gautaborg - 1. október, 2025 Fréttir

Íslenskar bókmenntir vöktu athygli á Bókamessunni í Gautaborg, þar sem fulltrúar Miðstöðvarinnar hittu norræna útgefendur og höfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Eiríkur Örn Norðdahl hlutu góðar viðtökur frá sænskum lesendum.

Nánar

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Allar fréttir