Tíu rit tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis

6. febrúar, 2020 Fréttir

Eitt rit hlýtur Viðurkenningu Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, sem verður veitt í byrjun mars og fær höfundur þess 1.250.000 kr. og viðurkenningarskjal.

Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis voru kynntar af formanni Hagþenkis, Svanhildi Kr. Sverrisdóttur, 5. febrúar í Borgarbókasafninu Grófarhúsi. Viðurkenningin verður svo veitt í byrjun mars og hlýtur verðlaunahafinn viðurkenningarskjal og 1.250.000 kr. 

Eftirfarandi verk eru tillnefnd:

Andri Snær Magnason: Um tímann og vatnið. Mál og menning.

Einstaklega vel skrifuð og áhrifarík bók sem fléttar umfjöllun um loftslagsbreytingar af mannavöldum við persónulega reynslu, fræði og alþjóðlega umræðu á frumlegan hátt.

Árni Einarsson: Tíminn sefur. Fornaldargarðarnir miklu á Íslandi. Mál og menning.

Í máli og glæsilegum myndum er sjónum beint að lítt þekktum leyndardómi Íslandssögunnar, fornaldargörðunum miklu, á ljósan og lifandi hátt.

Árni Heimir Ingólfsson: Tónlist liðinna alda. Íslensk handrit 1100–1800. Crymogea.

Falleg og vönduð bók sem veitir innsýn í forna tónlist Íslendinga í máli, myndum og tónum og breytir viðteknum hugmyndum um söngleysi þjóðar fyrr á öldum.

Björk Ingimundardóttir: Prestaköll, sóknir og prófastsdæmi á Íslandi I–II. Þjóðskjalasafn Íslands.

Yfirgripsmikið uppflettirit ásamt kortum sem auðveldar yfirsýn yfir sögu landsins og á eftir að nýtast í margvíslegum rannsóknum um langan aldur. Sagnfræðilegt stórvirki.

Haukur Arnþórsson: Um Alþingi. Hver kennir kennaranum? Haukur Arnþórsson.

Frumleg og beinskeytt greining á gögnum um störf löggjafans. Athyglisvert framlag til gagnrýninnar umræðu um stjórnmál á Íslandi.

Margrét Tryggvadóttir: Kjarval. Málarinn sem fór sínar eigin leiðir. Iðunn.

Í bókinni er saga manns og aldarfars tvinnuð saman við myndlist af sérstakri næmni sem höfðar til fólks á öllum aldri.

Ragnheiður Björk Þórsdóttir: Listin að vefa. Vaka–Helgafell.

Bókin leiðir lesendur inn í undurfallegan heim vefiðnar og veflistar. Skýr framsetning á flóknu efni, studd frábærum skýringarmyndum.

Rósa Eggertsdóttir: Hið ljúfa læsi. Handbók um læsiskennslu fyrir kennara og kennaranema. Rósa Eggertsdóttir.

Metnaðarfull og vönduð samantekt á rannsóknum, hugmyndafræði og kennsluháttum. Kærkomin handbók, gerð af innsæi, þekkingu og reynslu.

Sigrún Huld Þorgrímsdóttir: Ný menning í öldrunarþjónustu. Ömmuhús.

Tímabær hugvekja um öldrunarþjónustu með manngildi í fyrirrúmi, skrifuð af ástríðu og þekkingu.

Unnur Birna Karlsdóttir: Öræfahjörðin. Saga hreindýra á Íslandi. Sögufélag.

Vandað og aðgengilegt sagnfræðirit um einkennisdýr austuröræfanna, einstaka sögu þeirra og samband við þjóðina.

Viðurkenningarráð Hagþenkis 

Viðurkenningarráð Hagþenkis er skipað fimm félagmönnum til tveggja ára í senn og í því sátu: Ásta Kristín Benediktsdóttir Kolbrún S. Hjaltadóttir, Lára Magnúsardóttir, Snorri Baldursson og Þórólfur Þórlindsson.

Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna tíu höfunda og bækur er til greina kæmu. Viðurkenningaráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum, stendur að valinu en það hóf störf um miðjan október og fundaði vikulega fram yfir miðjan janúar.

Þann 15. febrúar frá kl. 13 standa Hagþenkir og Borgarbókasafnið fyrir kynningu á tilnefndum bókum í samstarfi við höfunda þeirra. Viðureknningin verður svo veitt í byrjun mars eins og fyrr segir.


Allar fréttir

Tími til að lesa! - 2. apríl, 2020 Fréttir

Orðaforði eykst, nýjar hugmyndir kvikna, skilningur á lesmáli batnar og þannig skilningur á heiminum öllum. Þá styður aukinn lestur við skapandi störf rithöfunda og þýðenda. Því meira sem við lesum því betra! Skráum allan lestur okkar á timitiladlesa.is 

Nánar

Auglýst eftir umsóknum um Nýræktarstyrki - umsóknarfrestur til 15. apríl - 12. mars, 2020 Fréttir

Nýræktarstyrkir eru veittir árlega fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira.

Nánar

Tilnefningar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020 - 2. apríl, 2020 Fréttir

Villueyjar eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur (útg. Bókabeitan) og Egill spámaður eftir Lani Yamamoto (útg. Angústúra) eru tilnefndar fyrir Íslands hönd.

Nánar

Allar fréttir