Umheimurinn kallar eftir nýjum og fjölbreyttum röddum í bókmenntunum!

Unnið er markvisst að því að kynna íslenskar bókmenntir erlendis og koma þeim á framfæri og ýmsar leiðir farnar.

24. janúar, 2023

Íslenskir höfundar eru eftirsóttir gestir á bókmenntaviðburðum um allan heim og Miðstöð íslenskra bókmennta ásamt öðrum vinnur jöfnum höndum að því að koma þeim árið um kring.

  • Hh-listahatid-moggi-klippt

Heiðrum boðbera bókmenntanna!

Reglulega berast fréttir af velgengni íslenskra rithöfunda erlendis; bækur þeirra vekja athygli og og framleiddir eru sjónvarpsþættir, kvikmyndir og tölvuleikir sem byggja á þeim. Verkin lifna við á nýjum tungumálum - og í nýjum miðlum. Erlendir fjölmiðlar gera jafnan fréttum af útrás íslenskra bóka og höfunda góð skil. Allt vekur þetta jákvæða athygli á rithöfundunum og verkum þeirra og eykur jafnframt áhuga og meðvitund um íslenskar bókmenntir, menningu, listir og skapandi starf á Íslandi.

Orðstír

Þýðendur gegna lykilhlutverki í útbreiðslu bókmenntanna eins og gefur að skilja. Góðir þýðendur skipta öllu máli til að bækurnar komist til lesenda og haldi um leið listrænu gildi sínu. Til að heiðra framúrskarandi þýðendur íslenskra bókmennta á erlend mál er viðurkenningin Orðstír veitt annað hvert ár í tengslum við Bókmenntahátíð í Reykjavík, sem haldin er þessa dagana. Að viðurkenningunni standa forsetaembættið, Íslandsstofa, Bandalag þýðenda og túlka, Bókmenntahátíð í Reykjavík og Miðstöð íslenskra bókmennta.

Margir afbragðsþýðendur starfa við þýðingar á íslensku efni en mikilvægt er að sá hópur vaxi í takt við í aukna eftirspurn á þýðingum á önnur mál. Til að mæta þeirri þörf heldur Miðstöð íslenskra bókmennta þýðendaþing reglulega hér á landi fyrir þýðendur íslenskra bókmennta á erlend mál og er næsta þing fyrirhugað í vor.

Augljós árangur kynningarstarfs

Um langt skeið hefur markvisst verið unnið að því að kynna íslenskar bókmenntir erlendis og koma þeim á framfæri og ýmsar leiðir farnar. Íslenskir höfundar eru eftirsóttir gestir á bókmenntaviðburðum um allan heim og Miðstöð íslenskra bókmennta ásamt öðrum vinnur jöfnum höndum að því að koma þeim á framfæri. Þátttaka og öflug kynning á bókamessum erlendis, árleg útgáfa kynningarrits á ensku um nýjar íslenskar bækur, sérstök vefsíða um íslenska höfunda sem hafa gefið út bækur í erlendum þýðingum, kynningarmyndbönd og ótalmargt fleira hefur greitt leið að verkunum og höfundum þeirra. Afrakstur þessa starfs er augljós. Nú eru þrisvar sinnum fleiri íslenskar bækur þýddar á erlendar tungur en fyrir áratug – og tungumálin eru orðin um 50 talsins.

 

Heimsfaraldur ekki hindrun

Ekkert lát hefur orðið á útbreiðslu bókmenntanna þrátt fyrir heimsfaraldur og raunar þvert á móti. Umsóknir um styrki til þýðinga á erlend mál hafa aldrei verið fleiri en á liðnu ári og það má án efa þakka sameiginlegu átaki norrænu bókmenntamiðstöðvanna um að setja aukið fé í þýðingar á erlendar tungur í heimsfaraldrinum. Það reyndist verða góður varnarsigur þegar bókamessur féllu niður og höfundar komust ekki á fund erlendra lesenda sinna.

 

Tekið opnum örmum í Frakklandi

Til að gefa svolitla innsýn í útbreiðslu íslenskra bóka erlendis má nefna Frakkland þar sem íslenskum bókmenntum hefur verið tekið opnum örmum. Undanfarið hefur til að mynda langmest verið þýtt af íslenskum bókum á frönsku, eða yfir sextíu titlar á rúmum þremur árum og höfundar frá Íslandi eru tíðir gestir á bókmenntaviðburðum víða um Frakkland.

Á sama tíma eru sífellt fleiri íslenskar bækur þýddar á enska tungu og getur það reynst mikill stökkpallur fyrir höfunda, enda enskt málsvæði gríðar stórt. Á fimmta tug bóka eru nýkomnar út eða væntanlegar í Bretlandi og Bandaríkjunum og þar gefur að líta skáldsögur, ljóð, glæpasögur, barnabækur og bækur almenns efnis eftir þekkta höfunda, sem og höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum.

Fjölbreyttar raddir til framtíðar

Umheimurinn kallar eftir nýjum og fjölbreyttum röddum í bókmenntum og listum og tækifærin eru ótalmörg. Áframhaldandi breitt samstarf á vettvangi menningar og lista og stuðningur stjórnvalda er grundvöllur að góðum árangri til framtíðar. Án góðra þýðenda væri þetta ekki hægt og því er mikilvægt að þeirra góðu verkum sé haldið á lofti.

Hrefna Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 9. september 2021.


Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu - 28. júní, 2024 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð vegna sumarleyfa frá 1. júlí til 1. ágúst.

Nánar

Íslenskar bókmenntir gera það gott í Danmörku - 19. júní, 2024 Fréttir

Verk eftir Sigríðu Hagalín Björnsdóttur, Gyrði Elíasson, Hallgrím Helgason, Einar Má Guðmundsson og fleiri eru nýkomin út í Danmörku.

Nánar

Íslenskar bækur á fjölda erlendra tungumála eru aðgengilegar í Þjóðarbókhlöðunni - 21. júní, 2024 Fréttir

Hægt er að finna allar þýðingar íslenskra verka á erlendar tungur í ítarlegri þýðingaskrá Landsbókasafnsins. 

Nánar

Allar fréttir