Hátíðleg athöfn á Bessastöðum þegar Íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent í þremur flokkum

4. febrúar, 2020 Fréttir

Sölvi Björn Sigurðsson hlaut verðlaunin fyrir bók sína Selta: apókrýfa úr ævi landlæknis, Bergrún Íris Sævarsdóttir fyrir bókina Langelstur að eilífu og Jón Viðar Jónsson fyrir Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925-1965.

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2019, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þriðjudaginn 28. janúar sl. og var sjónvarpað beint frá verðlaunaafhendingunni á RÚV. 

Að þessu sinni voru lagðar fram 135 bækur frá 36 útgefendum og 15 bækur í þremur flokkum voru tilnefndar. 

Sölvi Björn Sigurðsson hlaut verðlaunin fyrir bók sína Selta: apókrýfa úr ævi landlæknis (útg. Sögur) í flokki fagurbókmennta, Bergrún Íris Sævarsdóttir fyrir bókina Langelstur að eilífu (útg. Bókabeitan) í flokki barna- og ungmennabóka og í flokki fræðirita og bóka almenns efnis hlaut Jón Viðar Jónsson verðlaunin fyrir bókina Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925-1965 (útg. Skrudda). 

Selta

Selta: apókrýfa úr ævi landlæknis 

Selta: apókrýfa úr ævi landlæknis eftir Sölva Björn Sigurðsson er skáldsaga sem gerist árið haustið 1839. Hún segir frá póstburðarmanninum Mister Undertaker sem finnur óþekktan dreng við Hjörleifshöfða en það er landlæknir sem fær það hlutverk að vekja drenginn til lífs. Saman ákveða þeir að leita uppruna drengsins og í þeirri leit heldur tvíeykið, landlæknir og Mister Undertaker, í mikið ferðalag með drenginn og lenda í ýmsum ævintýrum.

Umsögn dómnefndar: 

Frumleg og áhrifarík saga sem fer víða með lesandann í tíma og rúmi, yfir vötn og lönd en ekki síður innansálar. Hið ytra er frásögnin sett niður fyrir tveimur öldum en jafnframt rambar hún á barmi raunveru og hugarflugs. Sögunni er valið málsnið sem hæfir bæði sögutíma og frásagnaraðferð og sýnir höfundur þar fágæta stílsnilld. 

Langelstur-ad-eilifuLangelstur að eilífu 

Bergrún Íris Sævarsdóttir tekst á við dauðann í bók sinni Langelstur að eilífu sem er þriðja bók í seríunni um Rögnvald og Eyju sem eru bestu vinir þrátt fyrir 90 ára aldursmun. Höfundur segir mikilvægt að ræða um viðkvæm mál, líkt og dauðann, við börn af heiðarleika og virðingu. „Mér finnst mikilvægt að tala við börn á heiðarlegan hátt, sem jafningja og af virðingu. Þau eru líka einstaklingar, með ólíkar tilfinningar.“

Umsögn dómnefndar:

Í bókinni Langelstur að eilífu er fjallað á hispurslausan hátt um elli, dauða og sorg. Þessu viðkvæma efni eru gerð afar falleg skil í bæði texta og myndum sem miðla sögunni í sameiningu. Þetta er áhrifarík en jafnframt hnyttin og skemmtileg bók um þarft umfjöllunarefni fyrir börn.

Stjornur-og-storveldiStjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925-1965

Í bókinni Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925-1965 eftir Jón Viðar Jónsson er ljósi varpað á merkan kafla í íslenskri leiklistarsögu. Höfundur segir sögu allra helstu leikara tímabilsins, greinir frá sigrum þeirra og ósigrum og gerir jafnframt valdabaráttunni að tjaldabaki ítarleg skil. Í bókinni segir Jón Viðar frá leikurum sem mörgum eru eftirminnilegir frá þessu tímabili en beinir sérstaklega sjónum að ellefu einstaklingum og þeirra sögu.

Umsögn dómnefndar:

Hér eru helstu stjörnurnar í leiklistarsögu þjóðarinnar á fyrri hluta 20. aldar dregnar lifandi og skýrum dráttum og list þeirra gerð ítarleg og góð skil. Þrátt fyrir að bókin byggi á köflum um einstaka leikara og leiksögu þeirra, gefur hún jafnframt samfellda og skýra mynd af fyrstu árum reglulegrar leiklistarstarfsemi hér á landi, ekki aðeins á leiksviðinu sjálfu heldur einnig í útvarpi og á bak við tjöldin og er því mikilvægt framlag til leiklistarsögu okkar.

Íslensku bókmenntaverðlaunin, verðlaunafé og dómnefnd

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda.

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verðlaunaverkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Bergsteinn Sigurðsson, Knútur Hafsteinsson og Ingunn Ásdísardóttir, sem var jafnframt var formaður nefndarinnar, skipuð af forseta Íslands. 

Hér má sjá frétt um allar tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, sem tilkynnt var um 1. desember 2019.


Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu - 1. júlí, 2021 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð vegna sumarleyfa frá 5. júlí til 3. ágúst.

Nánar

Nýræktarstyrkina í ár hljóta Ingólfur Eiríksson, Jakub Stachowiak, Mao Alheimsdóttir og Nína Hjördís Þorkelsdóttir - 3. júní, 2021 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur úthlutað fjórum Nýræktarstyrkjum til nýrra höfunda og nemur hver styrkur 500 þúsund krónum. 94 umsóknir bárust í ár, sem er metfjöldi umsókna frá upphafi.

Nánar

Framhaldsskólar um land allt vilja ólmir fá rithöfunda í heimsókn! - 4. júní, 2021 Fréttir

Miðstöð íslenskra bókmennta áætlar um 70 höfundaheimsóknir í 14 framhaldsskóla á árinu.

Nánar

Allar fréttir