Blaðamannafundur í Frankfurt

7. júní, 2011

Menningardagskrá Sögueyjunnar á Bókasýningunni í Frankfurt kynnt fyrir þýskum blaðamönnum.

Hungrið eftir góðum sögum á sér djúpar rætur í okkur mannfólkinu. Það er varla til betra dæmi um það heldur en Ísland, því Íslendingar lifa í sögum sínum. Þýska þjóðin deilir augljóslega þessari löngun með Íslendingum, sem fjöldi nýútgefinna bóka ber vott um,“ sagði Jürgen Boos forstjóri Bókasýningarinnar í Frankfurt á blaðamannafundi sem fram fór þar í borg mánudaginn 6. júní, þar sem menningardagskrá Sögueyjunnar Íslands á bókasýningunni 2011 var kynnt. Viðstödd fundinn voru Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og rithöfundurinn Þorsteinn frá Hamri.

Frá haustinu 2010 til haustsins 2011 má gera ráð fyrir að útgefnar þýðingar, ásamt bókum tengdum Íslandi, verði hátt í tvö hundruð á Þýskalandsmarkaði, vegna heiðursþátttöku Íslands á Bókasýningunni í Frankfurt. Um 30 rithöfundar eru væntanlegir til borgarinnar næsta haust, má þar nefna Yrsu Sigurðardóttur, Gyrði Elíasson, Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Jón Kalman Stefánsson, Hallgrím Helgason, Kristínu Steinsdóttur og Sjón.

„Komdu með til Frankfurt“, verkefni Sögueyjunnar um íslensku heimilisbókasöfnin,þar sem gestkomandi á bókasýningunni fá tækifæri til að líta inn á íslensk heimili og virða fyrir sér bókakost þeirra, var að auki kynnt fyrir þýskum blaðamönnum. „Flest íslensk heimili hafa að geyma sín eigin litlu bókasöfn. Það væri ekki unnt að halda sjálfstæðum útgáfuiðnaði um 30 bókaútgefenda á lífi hjá svo fámennri þjóð ef þessi mikli bókmenntaáhugi Íslendinga væri ekki fyrir hendi,“ sagði Halldór Guðmundsson, verkefnisstjóri Sögueyjunnar. „Með þessu verkefni færum við íslenska lesendur og þessa hefð íslenska heimilisbókasafnsins til Frankfurt og bjóðum fólki, í tvöfaldri merkingu, að líta inn í bókmenntaveröld okkar.“ 

Yfirgripsmikil dagskrá listviðburða í Frankfurt í tengslum við Sögueyjuna var einnig kynnt. Meðal listsýninga má nefna myndlistarsýningu Gabríelu Friðriksdóttur, Crepusculum, sem sýnd verður ásamt íslenskum handritum í Schirn Kunsthalle í Franfurt í lok september.Einnig er væntanleg fyrsta stóra einkasýning Ragnars Kjartanssonar í Þýskalandi og verður hún sýnd á vegum Frankfurter Kunstverein í haust. Íslensk byggingarlist verður að auki kynnt en Byggingarlistasafn Frankfurt undirbýr um þessar mundir yfirlitssýningu um byggingarlistasögu Íslands. Íslensk tónlist kemur einnig við sögu, en meðal þeirra tónleika sem haldnir verða vegna heiðursþátttökunnar má nefna tónleika Mótettukórs Hallgrímskirkju í dómkirkjunni í Frankfurt og svo mun raftónlistarmaðurinn Valgeir Sigurðsson stíga á stokk í menningarmiðstöðinni Mousonturm í Frankfurt.

Fjöldi upplestra víða um Þýskaland verður á dagskrá í kjölfar blaðamannafundarins og þann 8. júní verður haldinn dagur íslenskrar ljóðlistar í ellefu bókmenntahúsum í Þýskalandi, Austurríki og í Sviss með fjölbreyttri dagskrá þar sem íslensk skáld munu lesa upp úr verkum sínum.

Ljósmyndir frá blaðamannafundinum má nálgast hér.

Ljósmynd: Frankfurter Buchmesse / Fernando Baptista.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir