Myrkt bókmenntakonfekt á dönsku

24. ágúst, 2011

Smásagnasafn Gyrðis Elíassonar, Milli trjánna, fær stórgóða dóma í Danmörku.

Smásagnasafn Gyrðis Elíassonar, Milli trjánna, er nýútkomið á dönsku hjá forlaginu Torgard í þýðingu Eric Skyum-Nielsen. Af þeim dómum sem þegar hafa birst í dönskum blöðum má ætla að Danir séu stórhrifnir af bókinni.

mellem-traeernePolitiken gefur henni fimm stjörnur af sex mögulegum og þar er sagt að á bak við rólyndan frásagnarstílinn leynist mikið drama. Gagnrýnandi Fyens Stiftstidende getur ekki orða bundist í dómi sínum. „Hvílík bók!“ hrópar hann, „Dauði, fyrirboðar og óhugnaður blandast saman við hið hversdagslega í þeim 47 smásögum sem mynda safnið. [...] Milli trjánna er snögglesin, en innbyrtu hana í smáskömmtum, því sérhver smásaga er hárbeitt og krefst umhugsunar.“ Jyllands Posten veitir henni að auki fimm stjörnur. „Það er auðvelt að sökkva sér í myrkt og beiskt bókmenntakonfekt Gyrðis [...] og maður vill bragða á meiru til ná betra taki á samhenginu.“ Berlingske, sparar heldur ekki stjörnurnar – fullt hús þar. „Gyrðir Elíasson hefur með Milli trjánna, í ljómandi þýðingu Erik Skyum-Nielsen, lagt fram smásagnasafn þar sem íslenskt landslag, nærgöngular stúdíur á eðli einsemdarinnar og ævintýraleg öfl sameinast á fullkominn hátt með stórfenglegri orðfimi. [...] Gyrðir Elíasson á verðlaunin skilin.“

Eins og kunnugt er hlaut Gyrðir Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókina fyrr á þessu ári, en verðlaunin verða afhent í Kaupmannahöfn í nóvember. Þrjár bækur eftir Gyrði koma út á þýsku á heiðursári Íslendinga á Bókasýningunni í Frankfurt. Gangandi íkorni og ljóðabókin Nokkur almenn orð um kulnun sólar komu út síðasta vetur, og von er á Sandárbókinni í þessari viku. Sögueyjan Ísland tók viðtal við Gyrði skömmu áður en hann hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, það má nálgast hér.


Allar fréttir

Sumarlokun skrifstofu - 2. júlí, 2025 Fréttir

Skrifstofa Miðstöðvar íslenskra bókmennta er lokuð frá 3. júlí til 5. ágúst.  Nánar

Karólína Rós Ólafsdóttir og Natan Jónsson hljóta Nýræktarstyrki í ár - 6. júní, 2025 Fréttir

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru veittir í átjánda sinn þann 5. júní. Styrkirnir eru 500.000 kr. og eru veittir til nýrra höfunda fyrir óbirt handrit. 

Nánar

Íslenskar bókmenntir á heimssýningunni í Japan - 2. júní, 2025 Fréttir

Rán Flygenring höfundur og Shohei Akakura japanski þýðandi hennar taka þátt í bókmenntaviðburðum á heimssýningunni sem nú stendur yfir í Osaka í Japan. 

 

Nánar

Allar fréttir