Fjölsótt og glæsileg kynning Íslendingasagna

19. september, 2011

Höllin Corvey í Westfalen myndaði stórkostlegt svið fyrir þriggja daga kynningu Íslendingasagna. Tilefnið var útgáfa forlagsins á nýrri þýðingu Íslendingasagna í fimm bindum núna í september.

AM-135-4to--2Höllin Corvey í Westfalen, upphaflega klaustur sem stofnað var um það leyti sem Ísland var numið, myndaði stórkostlegt svið fyrir þriggja daga kynningu Íslendingasagna, sem Literaturbüro Ostwestfalen-Lippe stóð fyrir í samvinnu við Sögueyjuna og forlagið S. Fischer. Tilefnið var útgáfa forlagsins á nýrri þýðingu Íslendingasagna í fimm bindum núna í september.

Fjöldi þekktra þýskra leikara kom fram, þar á meðal Angela Winkler, Michael Altmann, Corinna Harfouch og Matthias Habich, og las uppúr sögunum í dagskrá sem varði frá morgni til kvölds. Upplesturinn var rofinn með fyrirlestrum þýskra og íslenskra fræðimanna, svosem Vésteins Ólasonar og Kurt Schier, og upplestrum rithöfunda, þar sem m.a. mátti heyra Sjón og Einar Kárason, auk þes sem argentínski rithöfundurinn Alberto Manguel, náinn vinur Borgesar, sagði frá lestri þess síðarnefnda á Íslendingasögum og þýðingu hans á Gylfaginningu. Ennfremur voru umræður þýðenda með þátttöku fulltrúa frá Norðurlöndum Inn á milli var leikin tónlist, meðal annars af norska bassaleikaranum Arild Andersen, Caput hópnum og Ólafi Arnalds.

Er skemmst frá því að segja að kirkjur og salir Corvey fylltust af áhugasömum hlustendum allan tímann meðan dagskráin varði. Er óhætt að segja að aldrei hafi önnur eins kynning verið haldin á íslenskum miðaldabókmenntum eins og þarna var gert, en dagskrána má sjá á http://www.island-saga-lesefest.de/.


Allar fréttir

Nanna Rögnvaldardóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í ár - 4. september, 2025 Fréttir

Flóttinn á norðurhjarann fjallar um mæðgur sem þurfa að flýja erfiðar aðstæður og takast á við margar hindranir í leit sinni að betra lífi. Söguhetjan er stelpa sem í upphafi sögu er tólf ára gömul og sagan er alfarið sögð frá hennar sjónarhorni sem gerir lesendum auðveldara að setja sig í hennar spor. Sagan gerist undir lok 18. aldar í kjölfar Móðuharðindanna og margvíslegra erfiðleika af þeirra sökum.

Nánar

Ást, losti og dramatík eru þemu bókamessunnar í Gautaborg í ár - 1. september, 2025 Fréttir

Eiríkur Örn Norðdahl og Yrsa Sigurðardóttir taka þátt í viðburðum á bókamessunni í Gautaborg í ár.  Leikritun og leikritaskrif eru einnig í kastljósinu á hátíðinni og leikskáldin Birgir Jón Sigurðsson og Hrafnhildur Hagalín segja frá verkum sínum, sköpunarferli og íslenskri leikhúsmenningu. 

Nánar

Upplýsingar um allar íslenskar bækur á frönsku og sænsku aðgengilegar - 19. ágúst, 2025 Fréttir

Dr. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fyrrum yfirmaður norrænu deildarinnar við háskólann í Caen í Frakklandi heldur úti athyglisverðum vef með upplýsingum um allar þýðingar sem komið hafa út á frönsku og  John Swedenmark þýðandi hefur haft veg og vanda af sambærilegum  sænskum vef samvinnu við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi og fleiri.

Nánar

Allar fréttir